Ógleymanlegt ævintýri í Vesturheimi

Nú þegar skammdegið er skollið á er kjörinn tími til að láta sig dreyma um næsta sumar. Viltu upplifa skemmtilegasta sumar lífs þíns? Viltu ferðast um Kanada og Bandaríkin með öðrum íslenskum ungmennum, fræðast um sögu Vesturfara og kynnast afkomendum þeirra? Viltu eignast vini fyrir lífstíð, njóta stórbrotinnar náttúrufegurðar Norður-Ameríku, upplifa aðra menningu og víkka sjóndeildarhringinn? 

Snorri West er fjögurra vikna ferðalag um Íslendingaslóðir í Norður-Ameríku fyrir ungt fólk á aldrinum 18-28 ára. Síðan árið 2001 hafa tæplega 100 Íslendingar tekið þátt í Snorra West verkefninu og upplifað ógleymanlegt ævintýri. Dagskráin breytist frá ári til árs, en sumarið 2020 heimsækja þátttakendur Minnesota og Norður-Dakóta í Bandaríkjunum og Manitoba í Kanada.

Við fengum nokkra fyrrum þátttakendur til að deila reynslu sinni af verkefninu, en það er einróma álit þeirra að þetta sumarævintýri sé með því skemmtilegasta sem þeir hafi upplifað!

Vala (í appelsínugulu) og ferðafélagar halda upp á Íslendingahátíðum í Mountain, Norður-Dakóta. Ljósmynd/Jody Arman-Jones

Vala (í appelsínugulu) og ferðafélagar halda upp á Íslendingahátíðum í Mountain, Norður-Dakóta. Ljósmynd/Jody Arman-Jones

„Sumarið 2016 tók ég þátt í Snorra West þar sem ég ferðaðist ásamt þremur æðislegum ferðafélögum um Íslendingaslóðir í Minnesota, Norður-Dakóta og Manitoba. Þessi ferð var mikið ævintýri og má segja að nýr heimur hafi opnast fyrir mér. Það var ótrúlega merkilegt að koma á þessar slóðir og hitta allt þetta yndislega fólk sem á rætur að rekja til Íslands. Í ferðinni eignaðist ég vini fyrir lífstíð og vona að ég muni einn daginn fara aftur á sömu slóðir.“

Vala Margrét Jóhannsdóttir, Snorri West 2016

Snorri West þátttakendur 2018 bíða spenntir eftir að skoða Niagara-foss í Kanada. Sigmundur er lengst til hægri. Ljósmynd/Jody Arman-Jones

Snorri West þátttakendur 2018 bíða spenntir eftir að skoða Niagara-foss í Kanada. Sigmundur er lengst til hægri. Ljósmynd/Jody Arman-Jones

„Þetta tækifæri sem ég fékk til að kynnast Vestur-Íslendingum í bæði Bandaríkjunum og Kanada var eitthvað sem ég á aldrei eftir að sjá eftir. Þetta var sumar vináttu, gleði og skemmtunar. Við ferðuðumst mikið út frá stöðunum sem við gistum á og fræddumst mikið um sögu Vestur-Íslendinga. Einnig fórum við og kynntum okkur einn vinsælasta rétt Kanada sem heitir poutine og er franskar með bráðnuðum osti og gravy-sósu. Við vorum öll mjög hrifin og snerist ferðin eftir það ekki bara um að kynnast Vestur-Íslendingum heldur líka um að smakka poutine á sem flestum stöðum til að finna besta staðinn sem bauð upp á það.“

Sigmundur Geir Sigmundsson, Snorri West 2018

Sandra (í miðju) og hinir Snorrar í Utah sumarið 2017. Ljósmynd/Sandra Björg Ernudóttir

Sandra (í miðju) og hinir Snorrar í Utah sumarið 2017. Ljósmynd/Sandra Björg Ernudóttir

„Viltu upplifa besta sumar lífs þíns?“ var titillinn. Titillinn á tölvupósti sem innihélt boð um að ferðast á slóðir Vestur-Íslendinga í fjórar vikur sumarið 2017. Ég var hikandi búin að eyða út tölvupóstinum, þegar ég fór aftur í ruslið og ákvað að skoða þetta betur. Það var eitthvað við slóðir Vestur-Íslendinga sem heillaði mig. Ég hafði alist upp með sögum af frænda mínum sem fór út á tímum Vesturfaranna, skrifaði reglulega heim en fékk aldrei svör til baka. Taldi líklegast að ættingjarnir heima á Íslandi hefðu afneitað honum. Þegar hann giftist einhverjum árum seinna, sendi hann bréf heim til að segja tíðindin og kom þá í ljós að áður send bréf höfðu ekki borist fólkinu hans. Talið var að presturinn í Suðursveit hafi stöðvað bréfin sem fyrst komu þar sem hann var á móti Vesturferðum.  

Þessi frásögn hefur mér alltaf þótt einkar áhugaverð og mig hafði alltaf langað að kynna mér sögu Vesturfaranna betur. Því sá ég kjörið tækifæri í að sækja um að taka þátt í Snorra West verkefninu. Eftir marga daga þar sem ég lá yfir umsókninni þótti mér hún loksins sómasamleg til þess að skila henni inn. Nokkrum mánuðum síðar upplifði ég einmitt besta sumar lífs míns með fjórum öðrum dásamlegum ungmennum í Alberta, Saskatchewan og Utah. Þessar fjórar vikur eru það besta sem ég hef upplifað til þessa, að vera boðin inn á öll þessi dásamlegu heimili og öll þessi gestrisni hvert sem maður kom er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma.“ 

Sandra Björg Ernudóttir, Snorri West 2017

 

Viltu slást í hópinn? Kynntu þér verkefnið og sæktu um á www.snorri.is. Umsóknarfrestur er til og með 21. febrúar 2020.

Instagram: @snorriwest

Facebook: Snorri West

Annars eðlisJulie Summers