Tómið - Benjamin, Baudrillard, Platón, Zuckerberg

„Þú átt 1,234 vini á Facebook. Vini sem eru ekki til. Vini sem deila fréttum sem eru ekki sannar um atburði sem aldrei hafa gerst.“ Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Þú átt 1,234 vini á Facebook. Vini sem eru ekki til. Vini sem deila fréttum sem eru ekki sannar um atburði sem aldrei hafa gerst.“ Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Ég á erfitt með að vera ekki að rúlla í gegnum Fésbókina endalaust. Og ég sem á ekki einu sinni snjallsíma. Aðdráttaraflið er nánast óyfirstíganlegt. Þyngdin í miðlinum. Medium eins og Walter Benjamin myndi kalla þetta umhverfi, þetta rúm, þessa forsendu skynjunar. Maður finnur fyrir þessu. Um leið og maður opnar samfélagsmiðil sér maður allt í færslum, færslum ofan á færslum með auglýsingum inn á milli og maður hefur óljósa tilfinningu um að það liggi eitthvað að baki. Ef maður bara skrollar nógu langt niður þá sér maður kannski það sem maður er að missa af. Það er eitthvað svimavaldandi í þessu. Einhver dýpt, einhver hæð, einhver lofthræðsla. Mann sundlar. Maður hrapar niður feedið fram hjá færslum og þráðum og það er eins og það eina sem er haldbært séu auglýsingarnar. Og ef maður hrapar nógu hratt þá fer maður að sjá tómið á milli myndanna, á milli póstanna og færslnanna. Og þetta tóm skapar líka einhvern svima, einhver skynhrif sem erfitt er að útskýra. Það er einhvers staðar þarna í tóminu miðju sem aðdráttaraflið á heima.

Að sjálfsögðu er ekkert tóm. Það eru bara færslur. En hvaða færslur eru ekki? Hvað fær maður ekki að sjá? Sumir segja að maður stari bara inn í bergmálsbúbbluna sína. Að af veggjum hellisins heyri maður bara enduróman af eigin skoðunum. Að maður spegli sig í sjálfum sér. En hvað er þá handan þessara veggja, þessa yfirborðs, þessarar himnu? Er það tómið? Nei. Það er ekkert tóm. Í rauninni er enginn samfélagsmiðill. Ekki í þeim skilningi sem þú og ég skiljum. Það liggur ekkert að baki. Þetta eru bara líkingar, líkindi, eftirmyndir án frummynda. Annar heimur sem á sér ekki stoð í hlutveruleikanum. Hér á Baudrillard heima. Allir vinir þínir á fésinu, þeir eru ekki til. Við viðurkennum það. „Ég er ekkert sama manneskja og ég er á samfélagsmiðlum.“ Þú átt 1,234 vini á Facebook. Vini sem eru ekki til. Vini sem deila fréttum sem eru ekki sannar um atburði sem aldrei hafa gerst.

Því þegar allt kemur til alls og þú tekur upp símann þá skoðar þú ekki Instagram eða Facebook. Instagram og Facebook eru að skoða þig. Í þessum miðli, þessu rými skynjunar, þar er ekkert. Þar er ekkert raunverulegt nema persónuupplýsingar sem þú lætur af hendi við hverja færslu, hvert stans, hvert stopp, hvert læk, hverja deilingu. Og þaðan kemur þessi svimi, þetta aðdráttarafl. Þegar þú heldur að þú starir í tómið þá ertu að stara niður ryksugubarkann og aðdráttaraflið er sog.