Skiptir einstaklingsframtakið máli?

„Við verðum að átta okkur á er að við sem samfélag getum sett kröfur og haft áhrif.“ Grafík/Elín Edda

„Við verðum að átta okkur á er að við sem samfélag getum sett kröfur og haft áhrif.“ Grafík/Elín Edda

Í kjölfar mikillar og nauðsynlegar umræðu um hvernig best sé að sporna gegn loftslagsbreytingum hefur komið upp sú spurning um hvort að við sem einstaklingar getum haft raunveruleg áhrif. Það gerist svo oft að ábyrgðinni á ástandi heimsins sé varpað á einstaklingana. Við flokkum ekki nógu vel, keyrum of mikið og erum of gjörn á að flýja slæmar íslenska veðráttu fyrir sól og sumaryl í syðri löndum. En hver er raunveruleg ábyrgð einstaklingsins? Er þetta svo einfalt? Skiptir einstaklingsframtakið raunverulega einhverju máli á meðan stóriðjan ber ábyrgð á stærstum hluta losunar gróðurhúsalofttegunda? Skiptir máli hvort ég fari í helgarferð til Kaupmannahafnar þegar úrvinnsla á lambakjöti er jafn óumhverfisvæn og raun ber vitni? 

Svarið er ekki eins einfalt og já eða nei. Vissulega hafa neysluhættir einstaklingsins áhrif og við getum öll tekið það til okkar að gera eitthvað umhverfisvænna. Hver losun skiptir máli. Á hinn bóginn er það stóriðjan, fyrirtæki og framleiðendur sem bera þungann af losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Þess vegna er það mjög óréttlátt af stjórnvöldum og fyrirtækjum að ætla sér að setja alla ábyrgð yfir á einstaklingana á meðan þau draga lappirnar á eftir sér og gera ekki nóg í þessum málum. Það sem við megum hins vegar ekki gera er að grafa hausinn í sandinn og bíða eftir aðgerðum stjórnvalda eða breytingum hjá stórfyrirtækjum. Vegna þess að við verðum að átta okkur á er að við sem samfélag getum sett kröfur og haft áhrif. Með því að breyta neyslumynstri okkar, gera kröfur um að framleiðsluháttum sé breytt og velja umhverfisvænni möguleika höfum við áhrif. Með því að hafa skoðanir og hafa hátt geta einstaklingar og hópar beitt nauðsynlegum þrýstingi sem hafa breytingar í för með sér. En það er það einstaklingsframtak sem skiptir mestu máli. Það er erfitt að skrifa grein af þessu tagi án þess að nefna okkar ástsælu Gretu Thunberg á nafn. Framtak hennar í þágu umhverfismála hefur verið gríðarlegt og mikil vitundarvakning hefur átt sér stað. Hún hefur haft stórvægileg áhrif um allan heim með sínu framtaki.

Það liggur í augum uppi að vandamálið sem við stöndum frammi fyrir í loftslagsmálum er margþætt. Það þurfa að koma stórvægilegar breytingar úr öllum áttum og margar af þeim breytingum sem þurfa að eiga sér stað snúast að litlu leyti um neysluhætti einstaklingsins. Þrátt fyrir það má ekki afskrifa þau áhrif sem einstaklingurinn getur haft. Þó svo að einn aðili sem byrjar að flokka eða ákveður að hjóla í vinnuna nokkrum sinnum í viku muni ekki bjarga heiminum mun hann alltaf hafa jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt. Þá skulum við beita röddum okkar og skoðunum sem þrýstiafli fyrir breytingum. Við getum haft áhrif.