Af hverju að skattleggja urðun?
Hefur þú velt fyrir þér hvað verður um ruslið sem fer í svörtu tunnuna? Staðreyndin er sú að stærsti hluti þess er urðaður. Nemendur við Háskóla Íslands hafa greiðan aðgang að flokkunartunnum og eru almennt duglegir að flokka ruslið sitt sem verður til þess að minna sorp fer í svörtu tunnuna en ella. En það sama á ekki við um allan almenning, hvað þá fyrirtækin í landinu. Á hverju ári er gífurlegt magn sorps urðað en urðun er líklega versta mögulega leiðin sem hægt er að fara til sorpmeðhöndlunar. Mörg lönd hafa tekið upp urðunarskatt til að stemma stigu við gengdarlausri urðun óflokkaðs sorps.
Förgun sorps er eitt af stóru vandamálunum þegar kemur að umgengni við umhverfið. Í gegnum tíðina hefur urðun verið algengasta leiðin til þess en eins og gefur að skilja er urðun ekki umhverfisvænn kostur. Þegar rusl er grafið ofan í jörðina þá mengast ekki bara jarðvegurinn sem það er grafið í heldur losna einnig skaðlegar gróðurhúsalofttegundir eins og metan út í andrúmsloftið. Þar fyrir utan er urðun líka eins konar skyndilausn á vandanum sem gengur hreinlega ekki upp til langs tíma litið.
Íslenska gámafélagið stendur fyrir átakinu Hættum að urða – Finnum betri lausnir. Á heimasíðu átaksins segir: „Urðun er alltaf versti kosturinn. Nú stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd að urðunarstaðirnir okkar eru að fyllast og þurfum við því að finna nýjar lausnir.“
Hverjar gætu þessar nýju lausnir verið? Til eru mun skárri kostir en urðun þegar kemur að meðhöndlun sorps, til dæmis flokkun, endurnýting og orkuvinnsla svo fátt eitt sé nefnt. Nú er sú staða komin upp að við vitum hve slæm urðun er og að við getum ekki notast við þá aðferð lengur. Við vitum að okkur standa til boða aðrir umhverfisvænni kostir en samt höldum við áfram að urða.
Þessi staða er dæmi um markaðsbrest, en markaðsbrestir eiga sér meðal annars stað þegar ekki er tekið tillit til þess kostnaðar sem aðrir verða fyrir vegna framleiðslu, í þessu tilfelli förgunar sorps. Því er meira sorp urðað en telst hagkvæmt þannig að markaðurinn nær ekki fullri skilvirkni. Í þessu tilfelli er markaðsbresturinn neikvæð ytri áhrif, það er þegar hegðun tiltekins aðila eða samningur milli tveggja aðila hefur neikvæð áhrif á þriðja aðila sem er óviðkomandi þeim viðskiptum sem eiga sér stað. Mengun er einmitt klassískt dæmi um neikvæð ytri áhrif.
Urðun er ódýr leið til sorpförgunar og má ætla að það sé ein meginástæða þess hvað hún er ennþá mikið notuð. En þegar talað er um að urðun sé ódýr leið til sorpförgunar eru ekki tekin inn í reikningin þessi neikvæðu ytri áhrif sem verða vegna urðunar. Umhverfislegur- og samfélagslegur kostnaður við urðun (til dæmis losun gróðurhúsalofttegunda og mengun í vatni og jarðvegi) fellur á almenning og samfélög nálægt urðunarstöðum.
Í tilfellum sem þessum er hægt að auka heildarábata samfélagsins með opinberri stefnu. Til þess að gefa fólki hvata til að nýta sér aðra kosti en urðun geta stjórnvöld nýtt sér hagstjórnartæki, til dæmis skatta.
Vandamálið er að verði er ætlað að endurspegla kostnað en hér brestur sú forsenda þar sem ekki er tekið tillit til kostnaðar ytri áhrifanna fyrir samfélagið við ákvörðun verðsins. Með skatti er hægt að fella kostnað ytri áhrifanna inn í verðið og rukka þannig rétt verð fyrir það sem urðun kostar í raun og veru. Einnig verður skatturinn til þess að gera aðrar meðhöndlunarleiðir sorps að fýsilegri kosti í samanburði við urðun og gefur fólki fjárhagslega hvata til þess að nýta sér aðrar leiðir. Til þess að það gangi upp þarf þó að hafa skattinn nægilega háan til þess að aðrir umhverfisvænni kostir séu hagkvæmari í framkvæmd.
Í samanburði við önnur hagstjórnartæki (til dæmis bann við urðun) er samfélagslegur kostnaður við urðunarskatt tiltölulega lágur. Vel skipulagt skattkerfi myndi lágmarka samfélagslegan kostnað sem hlýst af sorpförgun, að því gefnu að engar raskanir séu á markaðnum. Meðal þess sem felst í því er að aðrar leiðir til sorpförgunar séu fyrir hendi. Þær leiðir eru til en með því að nota skatttekjurnar til að efla þær enn frekar væri hægt að auka afköst þessarar opinberu stefnu ennþá meira.
Eins og Andri Snær Magnason bendir á í nýútkominni bók sinni, Um tímann og vatnið, er „[...]ástandið hvað verst þar sem allt er snyrtilegast á yfirborðinu. Þar er losun koltvíoxíðs á mann langmest og verðmætin sem fara til spillis í ruslahaugum ríkari landa eru margföld á við að sem gengur og gerist í fátækari ríkjum þar sem sóðaskapur er sýnilegur“ (bls. 224). Ljóst er að stjórnvöld neyðast til að grípa til aðgerða með einum eða öðrum hætti vegna þessa vandamáls og ljóst er að urðunarskattur er besta leiðin til þess. Víða um heim hafa stjórnvöld í sömu sporum tekið upp urðunarskatt og nú er kominn tími á að stjórnvöld hér á landi geri slíkt hið sama, ekki bara vegna þess að það er ekki pláss fyrir meira sorp á urðunarstöðum, heldur einnig vegna neikvæðra umhverfisáhrifa. Ísland hefur alla burði til þess að vera fremst meðal jafningja í þessum málum en einhverra hluta vegna höfum við dregið lappirnar.