Kvikmyndarýnar gefa engar stjörnur
Engar stjörnur er sveit kvikmyndarýna innan háskólans í umsjá Björns Þórs Vilhjálmssonar og Kjartans Más Ómarssonar. Hópurinn rýnir í kvikmyndir með beittum og gagnrýnum hætti og birtir skrif sín rafrænt bæði á vef kvikmyndafræðinnar og Hugrás: Vefriti Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Engar stjörnur tóku sín fyrstu skref í apríl 2017 og hafa síðan þá birt um 150 kvikmyndaumfjallanir.
Stjarnleysingjar hafa almennt frjálsar hendur hvað varðar skrif sín en fylgja þeirri einu reglu að gefa engar stjörnur. Stjörnugjöf er algeng þegar fjallað er um kvikmyndir, en það er innihaldslaus og grunn aðferð til að mæla gæði enda ótækt að endurspegla kjarna heilla listaverka með því að gefa þeim tvær til fjórar stjörnur. Þegar uppi er staðið þá er stjörnugjöf merkingarlaus og afleit hugmynd að treysta á hana þó stjörnurnar taki sig vel út í auglýsingum, séu þær „nógu“ margar það er að segja. Stjörnugjöf bæði smættar og einfaldar listrýni og því hljóta allar kvikmyndir sem Stjarnleysingjar taka fyrir engar stjörnur, en fá í staðinn þá skörpu og greinagóðu krufningu sem þörf er á þegar kvikmynd er metin.
Stjarnleysingjar stunda margir hverjir kvikmyndafræði við háskólann, en þó má finna þeirra á milli nokkra bókmenntafræðinema, ritlistarnema, heimspekinema og fleiri sem hafa áhuga á kvikmyndum og kvikmyndaumfjöllun. Slík flóra hefur skilað fjölbreytni í skrifum þar sem ólíkir rýnar hafa jafnan ólíkar skoðanir. Stjarnleysingjar hafa í nokkrum tilfellum tekið upp á því að birta fleiri en eina umfjöllun um stöku kvikmynd og uppskorið enn víðara yfirgrip á þeim kvikmyndum sem teknar eru fyrir.
Fyrir skömmu hófst vinna að frumraun Engra stjarna í hlaðvarpsgerð og mun afraksturinn koma út á næstu dögum. Í fyrsta þætti ræðir Björn Þór Vilhjálmsson við þau Silju Björk Björnsdóttur og Heiðar Bernharðsson um Quentin Tarantino, og mun þátturinn verða aðgengilegur á vef kvikmyndafræðinnar undir formerkjum Engra stjarna. Hlaðvarpið þykir vænlegri vettvangur fyrir óformlegri umfjöllun og því verður áhugavert að fylgjast með þessum viðauka í kvikmyndaumfjöllun á Íslandi. Vert er að minnast á að Stjarnleysingjar fara nú þegar með yfirburði í framleiðslu á kvikmyndarýni á landinu og mega vera stoltir af sinni vinnu sem er öll unnin launalaust. Allir textar fara í gegnum ritstjórn sem tryggir að birt skrif séu jafnan í fremsta gæðaflokki og að rýnar hafi tækifæri til að efla leikni sína og verða í kjölfarið fremstu rýnar landsins.