Ábyrg fatakaup í Reykjavík

Teikning/Halldór Sanchez

Teikning/Halldór Sanchez

Eins og Birta Karen Tryggvadóttir útskýrir í greininni „Hvað kosta fötin okkar?“ sem birtist í 2. tölublaði Stúdentablaðsins hefur fataiðnaðurinn gríðarleg áhrif, bæði umhverfisleg og félagsleg. Það þarf um 5 til 10 þúsund lítra af vatni til að framleiða gallabuxur og börn vinna klukkutímum saman við bág kjör við að sauma. Þá smitast litirnir í ár og þær verða bleikar, gular og bláar allt eftir litarefninu sem notað er við framleiðsluna, svo fátt eitt sé nefnt. Framleiðsla á fatnaði hefur aukist og föt eru orðin ódýrari og aðgengilegri fyrir alla. En hvað ef við værum öll meðvituð um afleiðingarnar af því að kaupa föt, myndum við samt gera það? Ég mæli með heimildarmyndinni The True Cost; hún fær fólk til að hugsa og velta fyrir sér hvaða áhrif það vill hafa.

Ég hef mikið hugsað út í fatakaup og verð að viðurkenna að ég hef mjög gaman af fötum. En á þessari önn hef ég sett mér það markmið að hætta alveg að kaupa ný föt og kaupa bara notuð. Þetta fannst mér erfitt í fyrstu þegar ég sá til dæmis auglýsingar um vörurnar í 66° Norður. En lausnin var auðfundin; ég hætti að fylgja þessum fatavefsíðum á netmiðlum. Þegar mig vantaði föt byrjaði ég á því að skoða nytjamarkaði og varð mjög hissa á fjölbreytileikanum og verðinu! Hér verður mælt með nokkrum nytjamörkuðum í Reykjavík og praktísk verslunarráð gefin.

Fjölbreytt úrval

Það eru margar verslanir í Reykjavík sem selja notuð föt. Til dæmis má nefna Spúútnik, Fatamarkaðinn á Hlemmi, Rauða Krossinn og Hertex. Mér finnst sérstaklega gaman að kíkja í Kolaportið. Þar eru fatabásar með mjög fjölbreytt úrval af fötum. Persónulega finnst mér ekki alltaf margt spennandi en ef maður leitar vel þá er yfirleitt alltaf hægt að finna eitthvað flott. Þetta er líka ódýrasti staðurinn til að versla föt og jafnvel hægt að prútta. Til dæmis hef ég keypt peysur og toppa á 500 krónur og pils á 150 krónur! Ég mæli líka með fatabúð Rauða Krossins, þar er „vintage“ úrval og einnig ódýrt. Þau eru líka í samstarfi við Listaháskólann í tengslum við verkefni sem heitir „Misbrigði“. Um er að ræða námskeið á vegum skólans þar sem neysluhegðun samfélagsins er rædd og nemendur vinna einungis með notuð föt.

Búðin Gyllti Kötturinn býður upp á aðeins fínni föt. Þar er hægt að finna flotta jakka og kjóla og einnig merkjavörur á fínu verði. Þá verður einnig að minnast á Spúútnik, en persónulega finnst mér hún besta „vintage“ búðin í Reykjavík. Þar eru bæði sérstakar vörur með mikinn karakter og hefðbundnari flíkur á borð við Levi’s gallabuxur. Verðlagið er svolítið hátt miðað við að fötin eru notuð, en oft er það þess virði. Fleiri búðir sem vert er að kíkja á eru til dæmis Fatamarkaðurinn, Extraloppan og Hertex. Að lokum má benda á Facebook-hópinn Áhugafólk um sanngjörn vöruskipti, en þar er áhersla meðal annars lögð á umhverfisvænar vörur.

Með alla þessa valmöguleika finnst mér algjör óþarfi að versla ný föt. Við þurfum ekki allt; hugsum áður en við kaupum! Ef við þurfum hins vegar að versla nýjan fatnað er hægt að skima eftir umhverfisvottunum og „fairtrade“ merkjum.

LífstíllSólveig Sanchez