11 sturlaðar staðreyndir um tanngreiningar og HÍ
Aðsend grein frá stúdentahreyfingu No Borders Iceland
Tanngreiningar eru líkamsrannsóknir þar sem endajaxlar ungmenna eru skoðaðir og aldur ákvarðaður út frá þeim.
Skekkjumörk niðurstaðna eru 1,5 - 2 ár til eða frá, samtals 3 - 4 ára skekkjumörk.
Ýmis virt mannréttinda- og heilbrigðisþjónustusamtök hafa gagnrýnt tanngreiningar fyrir að vera siðferðislega rangar og vísindalega ónákvæmar. T.d. breska tannlæknafélagið, Rauði Krossinn, UNICEF, Læknafélag Þýskalands og Doctors of the World.
Háskóli Íslands hefur mögulega stundað tanngreiningar á ungumennum á flótta síðan 2004 og fengið greitt fyrir frá ríkinu. Tanngreiningar fóru fram án verksamnings og í algjöru tómarúmi þar til í mars 2019, þegar Jón Atli Benediktsson rektor bjó til samning til að tryggja áframhald tanngreininga við HÍ.
150 kennarar og starfsfólk við HÍ hafa skrifað undir yfirlýsingu gegn því að tanngreiningar séu stundaðar við HÍ. SHÍ, Landsamband íslenskra stúdenta og European Student Union leggjast eindregið gegn tanngreiningum.
Til er staðfest dæmi á Íslandi um að barn hafi ranglega verið greint fullorðið. Rannsókn síðan 2018 sýndi að 10 - 30% niðurstaðna aldursgreininga í Svíþjóð, sem byggja á tanngreiningum og hnjáliðaþroska, hafi verið rangar og aldur einstaklinga metinn of hár.
Barn sem er ranglega greint fullorðið missir öll réttindi sín sem barn í umsóknarferli um alþjóðlega vernd. Það fær ekki að fara í skóla, er sent í einangrunarbúðir með fullorðnum einstaklingum (aðallega ungir strákar) og líkur á vernd minnka gífurlega.
Sumum einstaklingum hafa verið gefin 2 - 4 mismunandi fæðingaár eftir því hvaða land „aldursgreinir“ þau.
Háskóli Íslands brýtur gegn Vísindasiðareglum skólans með ástundun tanngreininga. Helst má nefna 2.3. um skylduna að valda ekki skaða, 2.15 um virðingu fyrir fólki sem tilheyrir hópi í erfiðri stöðu, 2.4.1 um upplýst samþykki þátttakenda og 2.5 um að þátttaka barna skuli ekki fela í sér áhættu eða tjón fyrir barn.
Niðurstöður úr tanngreiningum sem gerðar voru við HÍ á ungu flóttafólki hafa verið notaðar í útgefnum fræðigreinum. Samt heldur HÍ því fram að rannsóknirnar séu ekki rannsóknir heldur „þjónusta“.
Vísindasiðanefnd HÍ og Jafnréttisnefnd HÍ ályktuðu eindregið gegn gerð samningsins sem Jón Atli og Háskólaráð samþykktu í mars 2019.
Í mars 2020 taka rektor og Háskólaráð ákvörðun um endurnýjun á verksamningi við Útlendingastofnun um þvingaðar líkamsrannsóknir á ungu fólki á flótta.