Lokaritgerðin: Bókmenntir til bjargar?
Það þykir ýmsum erfitt að átta sig á gagnsemi þess að læra bókmenntafræði og þegar loftslagshörmungar eru yfirvofandi efast jafnvel allra hörðustu aðdáendur hugvísindanna um tilgang þess að sökkva sér í Eneasarkviðu eða Ulysses. Þegar fyrir mér lá að skrifa BA-ritgerð innan greinarinnar síðasta vor fann ég vel fyrir valdaleysi mínu gagnvart loftslagsbreytingum og þar með varð tilgangsleysi hversdagsins svo augljóst. Hvað gerir bókmenntafræðinemi sem er undirlagður af loftslagskvíða? Jú, hann gerir örvæntingarfulla leit að vonarglætu. Ég ákvað þess vegna að helga BA-ritgerðina mína sambandi bókmennta og loftslagsbreytinga og vangaveltum um hvort þar væri einhverja von að finna.
Vísindi eða listir?
Yfirleitt er litið svo á að það sé hlutverk vísinda en ekki lista að takast á við loftslagsvána og raunvísindin eru vissulega mikilvæg í baráttunni. Þau henta hins vegar ekki að öllu leyti vel til þess að hrinda af stað þeim breytingum sem þurfa að eiga sér stað í samfélaginu. Sú krafa að vísindin eigi að koma fram með skýr svör hindrar þau í að fræða samfélagið um loftslagsbreytingar. Útreikningar og líkön vísindamanna, sem koma fram í skýrslum og öðrum fræðitextum, ná ekki til fólks og því er hætta á að það sópi vandamálinu undir teppið. Jafnvel þeir sem sannfærðir eru um tilvist loftslagsbreytinga eiga erfitt með að átta sig nákvæmlega á áhrifum þeirra þegar fram líða stundir. Bókmenntir geta þess vegna verið mikilvægar í loftslagsumræðu samtímans því að þær búa yfir eiginleikum sem gera þeim kleift að miðla því til almennings sem vísindin geta ekki komið til skila.
Að miðla getgátum
Það er í raun þrennt sem gerir bókmenntir hentugar til þess að fjalla um loftslagsbreytingar. Það fyrsta er geta þeirra til að fjalla um eitthvað óraunverulegt. Vísindi sem fást við loftslagsmál snúast að einhverju leyti um það að spá fyrir um framtíðina og draga upp mynd af þeim heimi sem gæti blasað við okkur í náinni og fjarlægri framtíð. Bókmenntir hafa það fram yfir vísindin, sem byggja á staðreyndum, að geta auðveldlega miðlað getgátum um framtíðina til almennings og gert þær hugmyndir aðgengilegar. Getgátur og spár, sem draga úr trúverðugleika vísindalegrar orðræðu í augum almennings, eiga nefnilega vel heima í skáldsögum.
Hinn mannlegi þáttur
Annað einkenni skáldskapar sem gerir hann að hentugum miðli er getan til þess að fjalla um þær menningarlegu, félagslegu og sálfræðilegu breytingar sem fylgja loftslagsbreytingum. Loftslagsbreytingar eru ekki einungis vandamál sem snýr að náttúrunni heldur að mannkyninu í heild. Með loftslaginu breytist nefnilega fleira en umhverfið. Samfélagið sem við þekkjum mun taka breytingum sem enginn veit í raun og veru hverjar verða. Hnattræn hlýnun mun hafa áhrif á pólitískt landslag og félagslegt umhverfi engu síður en hún hefur áhrif á náttúruna. Þessum áhrifum er ekki hægt að lýsa í fræðilegum texta á jafn aðgengilegan hátt og í bókmenntatexta. Skáldsögur geta fangað hið mannlega og hið einstaka og gert loftslagsvána að persónulegu og áþreifanlegu vandamáli.
Yfirsýn yfir flókið fyrirbæri
Það þriðja sem gerir bókmenntir að að hentugum miðli í umræðunni um loftslagsmál er geta þeirra til þess að lýsa flóknu fyrirbæri sem erfitt er að ná yfirsýn yfir. Það getur nefnilega verið erfitt að átta sig á fyrirbæri, á borð við loftslagsbreytingar, sem nær í senn yfir langan tíma og hefur áhrif á líf á hnettinum öllum. Bókmenntir henta sérstaklega vel til þess að lýsa slíku fyrirbæri. Höfundar skáldsagna geta leitt saman fortíð og framtíð á aðgengilegan hátt og dregið upp mynd af heiminum sem einni heild og þar með miðlað þessu flókna fyrirbæri til lesenda sinna.
Afl sem mótar hugsun
Það má sjálfsagt efast um að skáldsögur um loftslagsbreytingar hafi veruleg áhrif á lesendur sína, opni augu þeirra fyrir vandanum og veki með þeim þann kvíða sem þarf til þess að þeir átti sig á alvarleika málsins. En mannkynið verður að gera allt sem í valdi þess stendur til þess að berjast gegn loftslagsbreytingum; nýta öll þau tól sem til taks eru. Vegna þessara þriggja einkenna bókmennta, getu þeirra til þess að miðla getgátum um framtíðina og hinum mannlegu og félagslegu þáttum loftslagsbreytinga og til þess að leiða saman fortíð, framtíð og hnöttinn sem heild, gæti það verið vel þess virði að láta reyna á mátt skáldskaparins. Vandamálið þolir enga bið og því er nauðsynlegt að grípa til aðgerða. List gegnir mikilvægu hlutverki sem afl sem getur mótað hugsun og því er ekki fráleitt að halda því fram að það hlutverk listamanna að bregðast við samtímanum og móta framtíðina hafi sjaldan verið jafn mikilvægt og nú. Við þurfum loftslagsbókmenntir og við þurfum þær núna.
Ragnheiður lauk BA-prófi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands síðastliðið vor með ritgerð um loftslagsbreytingabókmenntir og hlutverk þeirra, sem bar titilinn “Frá afneitun til þekkingar.” Hún leggur nú stund á meistaranám í sömu grein við Kaupmannahafnarháskóla.