Guð og spámennirnir í Hatara

Meðlimir Hatara. Hljómsveitin fer til Ísrael fyrir Íslands hönd með lagið ,,Hatrið mun sigra”. Skjáskot/RÚV

Meðlimir Hatara. Hljómsveitin fer til Ísrael fyrir Íslands hönd með lagið ,,Hatrið mun sigra”. Skjáskot/RÚV

 „Í textanum sé ég mjög spámannleg skilaboð og get ekki annað sagt en að hljómsveitin Hatarar hafi spámannleg einkenni,“ segir Dagur Fannar Magnússon meistaranemi í guðfræði við Háskóla Íslands. Hann setti fram greiningu á framlagi Íslands til Eurovision á Facebook síðu sinni nýverið. Stöðuuppfærslan hefur vakið mikla athygli og hlotið 163 deilingar þegar þetta er skrifað.

„Fyrst um sinn var ég mjög efins um þetta lag, ég var satt að segja örlítið hræddur um að því yrði illa tekið í Ísrael. Síðan fór ég að skoða textann betur og lagið varð allt annað fyrir mér. Ekki veit ég hvaða merkingu höfundur textans setur í hann en ég get að minnsta kosta lagt fram mína eigin túlkun á textanum. Að sjálfsögðu les ég textann með guðfræðilegum gleraugum þar sem ég er að klára Mag.theol próf núna í vor,“ segir Dagur.

Hatari spáir fyrir um mögulegar hörmungar framtíðarinnar

„Það fyrsta sem mig langar til þess að minnast á í þessu samhengi eru spámenn Gamla testamentisins. Spámennirnir voru fólk sem voru samfélagsgagnrýnendur Ísraelsþjóðar fyrir tíma Krists. Þeir lásu í hegðun samfélagsins og drógu síðan ályktun af því hvert það stefndi. Margir hverjir voru oft svartsýnir á hvað gæti gerst ef þjóðin myndi ekki láta af villu vegar. Þeir stóðu á strætum borganna og prédikuðu fyrir borgurunum, stundum hlustaði fólkið og kom í veg fyrir hörmungar,“ segir Dagur og bendir á að Hatari veki athygli á því sem er í ólagi í nútímasamfélagi og spái fyrir um framhaldið.

„Stundum var boðskapur spámannanna mjög óvinsæll, þjóðin eða borgararnir hlustaði ekki og héldu áfram viðteknum hætti sem endaði yfirleitt í stórkostlegum hörmungum. Spámennirnir voru einnig til staðar á erfiðum tímum að boða von. Spámennirnir voru þeir sem Guð notaði sem málpípur sínar til þess að bæta eða hugga samfélagið. Í textanum sé ég mjög spámannleg skilaboð og get ekki annað sagt en að hljómsveitin Hatarar hafi spámannleg einkenni. Þótt að textinn sé ekki sérlega ítarlegur er hvert orð valið af kostgæfni og er gríðarlega gildishlaðið. Textinn fer yfir það sem ekki er í lagi í nútíma samfélagi og bendir á mögulegar hörmungar. Textinn getur bæði verið ádeila á hegðun og vandamál einstaklings, nær- og fjær samfélags.“

Veraldarhyggjan allsráðandi í nútímasamfélagi

Þar næst greinir Dagur textann ítarlega. Textagreiningin er hér í heild sinni.

„1. Svallið var hömlulaust

Þynnkan er endalaus

Lífið er tilgangslaust

Tómið heimtir alla

Dagur Fannar Magnússon, meistaranemi í guðfræði. Ljósmynd/Emil Örn Kristjánsson

Dagur Fannar Magnússon, meistaranemi í guðfræði. Ljósmynd/Emil Örn Kristjánsson

Samfélag og einstaklingar, bæði á Íslandi og í heiminum, erum við að drukkna í auglýsingum sem segja okkur hvað við þurfum til þess að verða hamingjusöm. Við tökum öll þátt í þessu, við þurfum að eiga flottast og mest. Við höllum okkur á veraldlega hluti til þess að leita uppi hamingjuna. Lífið virðist vera hætt að hafa annan tilgang enn þann að vera flottastur eða flottust, með allt flottasta og dýrasta dótið. Af einhverjum ástæðum þá erum við tilbúin til þess að ganga ansi langt til þess að fylgja þeim staðalímyndum sem samfélagsmiðlar og auglýsingar ýta að okkur. Ef okkur tekst ekki að fylgja þeim þá finnst okkur við ekki fullkomnuð og ef við náum að fylgja þeim þá fer þetta hvort sem ofan í botnlaust tóm sem aldrei fyllist upp í. Það skiptir ekki máli hvað við svöllum mikið í þessari neyslu við byggjum aldrei hamingju okkar á grundvelli neyslunnar og verðum þunn. Það er ekki hægt að þjóna tveimur herrum, Guði og mammón.”

Óraunveruleg hamingja

„2. Hatrið mun sigra

Gleðin tekur enda

Enda er hún blekking

Svikul tálsýn

Eins og ég nefndi áðan þá erum við tilbúin að ganga ansi langt fyrir neysluna á veraldlegum hlutum. Svik, svindl, óheiðarleiki, siðlausar lagalegar krókaleiðir, jafnvel ofbeldi og í verstu tilfellum stríð. Hverju skilar það? Partýið er búið og sú stundar hamingja og gleði sem við upplifðum fyrir sigurinn er horfin. Þetta er ekki raunverulega hamingja og gleði, hún er einfaldlega byggð á röngum grunni, hún er byggð á sandi ekki á bjargi. Gleðin í þessu samhengi er tálsýn sem við sækjumst eftir aftur og aftur án þess fá eitthvað endanlega raunverulega gleði.“

Guð tekur beinlínis til máls í orðum Klemens

„3. Allt sem ég sá

Runnu niður tár

Allt sem ég gaf

Eitt sinn gaf

Ég gaf þér allt

Hér sé ég fyrir mér eins og Guð taki beint til máls án þess að nota málpípurnar sínar. Guð hefur horft á þjáningarnar og þjáist með okkur. Hann hefur gefið okkur öll þau verkfæri og öll þau tækifæri til þess að byggja hamingjuna á traustum grunni en við viljum ekki taka við þeim.

4. Alhliða blekkingar

Einhliða refsingar

Auðtrúa aumingjar

Flóttinn tekur enda

Tómið heimtir alla

Öllu veraldlega því sem ýtt er að okkur sem þarf til þess að vera hamingjusamur/söm er blekking frá öllum hliðum séð. Samt trúum við því að þetta sé það sem þarf en við þurfum ekki neina hluti til þess að vera hamingjusöm. En enginn tekur út vanlíðanina sem fylgir eftirköstunum nema við sjálf. Þrátt fyrir að við höldum áfram að flýja frá tómleika tilfinningum með því fylla líf okkar af veraldlegum gæðum mun það að lokum ná okkur og við hrynjum niður í tómið.“

Náttúruverndarsjónarmið

„5. Hatrið mun sigra

Evrópa hrynja

Vefur lyga

Rísið úr öskunni

Sameinuð sem eitt

Eins og ég sagði í upphafi hefur ljóðið einstaklings- og samfélagslegan vinkil sem má lesa frá upphafi ljóðsins. Í þessu erindi má samt sem áður sjá örlítið samfélagslegri vinkil enn áður. Hér nefna þeir átök í Evrópu sem hafa einkennst af flokkadráttum, við og hinir, stríð milli þjóðflokka og landa. Við erum tilbúin, sem einstaklingar og samfélög tilbúin til þess að ljúga að sjálfum okkur og öðrum til þess að réttlæta syndir okkar fyrir sjálfum okkur. En hér er samt sem áður vonin í ljóðinu.

Þegar allt er fallið, brunnið til grunna, en það er tilvitnun í samfélagslegar hörmungar, má sjá upprisu, möguleika á að verða eitt. Hér er hægt að skoða þetta út frá spádómum um hina síðustu tíma sem boða nýjan himinn og nýja jörð eftir myrka tíma. Einnig er hægt að sjá hugmyndina um að í Kristi séum við eitt, hvorki karl né kona, þræll eða frjáls eða hvað eina sem hægt væri að aðgreina okkur með fellur og við finnum það sem sameinar okkur sem mannkyn eða það sem sameinar okkur við sköpunarverkið. Í þessu má nefnilega líka finna náttúruverndar sjónarmið, neyslan hefur ýtt undir hnattræna hlýnun og uppsöfnun á rusli, mengun hafa og eyðingu skóga.

Allt sem ég sá

Runnu niður tár

Allt sem ég gaf

Eitt sinn gaf

Ég gaf þér allt

Allt sem ég sá

Runnu niður tár

Allt sem ég gaf

Eitt sinn gaf

Ég gaf þér allt“

Kærleikurinn og ástin hverfa með neysluhyggjunni

„6. Hatrið mun sigra

Ástin deyja

Hatrið mun sigra

Gleðin tekur enda

Enda er hún blekking

Svikul tálsýn

Hatrið mun sigra 

Ef við snúum okkur ekki frá neysluhyggjunni mun eina vopnið sem við höfum gegn hatrinu, sem er kærleikurinn og ástin, hverfa. Elskaðu Guð þinn af öllu hjarta þínu og náunga þinn eins og sjálfan þig. En ég vill ekki vera svo svartsýnn að ástin og kærleikurinn geti horfið, við getum alltaf snúið okkur að uppruna kærleikans sem í guðfræðilegum skilning er Guð sjálfur. Það skiptir í raun ekki hvað við köllum það Guð, Brahaman, Allah, Verandan, við þurfum bara öðlast hamingjuna frá eilífri uppsprettu hennar.“

Dagur lýkur svo vangaveltum sínum á því að segjast hafa mikla trú á framlagi Íslands til Eurovision sem eigi erindi við okkur öll.