Sjö heimildarmyndir um umhverfismál

Cowspiracy+Cow.jpeg

Langar þig mest að kúra undir sæng yfir mynd en samviskan leyfir tæpast slíkan munað þar sem aðkallandi verkefni hafa hrannast upp? Geturðu ekki hugsað þér að fara að læra en vilt samt ekki eyða tíma þínum í vitleysu? Heimildarmyndir er fullkomnar fyrir þannig augnablik þar sem þær eru sú málamiðlun sem bæði letin og samviskan samþykkja. Heimildarmyndir sameina afþreyingu og gagnlega fræðslu og gera manni þar með kleyft að öðlast vitneskju um allt milli himins og jarðar án þess að þurfa að hafa of mikið fyrir því. Þótt langflestum heimildarmyndum megi treysta er gott að hafa í huga að taka öllu með fyrirvara sem þar er haldið fram. Stúdentablaðið býður hér upp samantekt af fjölbreyttu úrvali heimildarmynda sem allar tengjast umhverfismálum. Heimildarmyndir geta verið afar áhrifaríkar og þessar sjö eru svo sannarlega engar undantekningar þar sem þær hreyfa við manni hver á sinn hátt.

The True Cost stilla.jpg

The True Cost

Fatnaður er ef til vill ekki það fyrsta sem manni dettur í hug þegar talað er um umhverfismál en heimildarmyndin The True Cost sýnir að fötin sem við klæðumst (eða klæðumst ekki en kaupum engu að síður) hafa mikil áhrif á umheiminn. Heimildarmyndin rannsakar fataiðnaðinn og hvernig hver flík sem við kaupum hefur keðjuverkandi áhrif um allan heim. Ör fataframleiðsla skaðar umhverfið á margvíslegan hátt en snertir einnig lífsskilyrði fólks heimshorna á milli. Myndin er góð áminning um hvernig dagleg neysla manns hefur meiri áhrif en maður gerir sér í hugarlund.

COWSPIRACY stilla.jpg

Cowspiracy

Kvikmyndin Cowspiracy fylgir umhverfissinnanum Kip Andersen í rannsóknarvinnu sinni um tengsl umhverfis og dýralandbúnaðar. Hann flettir ofan af skuggalegum áhrifum dýralandbúnaðar á umhverfið og kemst að því af hverju umhverfisverndarsamtök eru treg til að fjalla um eyðileggjandi afl landbúnaðarins. Heimildarmyndin er einstaklega þankavekjandi þar sem hún varpar ljósi á samsæri sem er nánast ótrúlegt. Þrátt fyrir að framhaldsmyndin What the Health, sem kannar áhrif neyslu dýraafurða á heilsu, hafi sætt ákveðinni gagnrýni kemur margt áhugavert fram í þeirri mynd og er alveg þess virði að kynna sér hana með gagnrýnið hugarfar að leiðarljósi.

Before the Flood stilla.jpg

Before the Flood

Leikarinn og kvikmyndagerðarmaðurinn, Leonardo DiCaprio, hefur um árabil barist fyrir umhverfisvernd og verið í hlutverki boðbera friðar (e. Messenger of Peace) hjá Sameinuðu þjóðunum síðan 2014 þar sem hann vinnur hörðum höndum að því að beina sjónum heimsins að yfirvofandi náttúruvá. Í þessari heimildarmynd National Geographic, frá árinu 2016, ferðast DiCaprio um heiminn til þess að kanna þær vægðarlausu breytingar sem nú þegar hafa orðið á náttúru, ræðir við vísindamenn og stjórnmálamenn og aðra sérfræðinga um ástandið og reynir að komast að raun um hvernig ástatt er og hvort einhver von sé um að hægt sé að snúa við blaðinu.  

Blue Planet II stilla.jpeg

Blue Planet II

David Attenborough er í uppáhaldi hjá mörgum. Heimildarþættir hans um fjölbreytt náttúrulíf heimshorna á milli hafa náð mikilli útbreiðslu og vinsældum. Baráttufólk fyrir umhverfisvernd varð því kampakátt þegar Attenborough vakti athygli á þeirri hættu sem steðjar að lífríki sjávar í þáttunum Blue Planet II (2017). Þættir Attenborough sýna fjölbreytileika og fegurð náttúrunnar og eru því góð áminning til almennings, sem dags daglega fær ekki tækifæri til að dást að undrum veraldar, um það hve mikið er í húfi þegar kemur að umhverfismálum. Það sama má segja um önnur verk Attenboroughs sem sýna króka og kima náttúrunnar í allri sinni dýrð.

Minimalism stilla.jpg

Minimalism: A Documentary About the Important Things

Við lifum í heimi þar sem okkur er stöðugt talið trú um að við verðum hamingjusamari ef við kaupum þetta og hitt, að meiri neysla þýði meiri lífsgæði. Í heimildarmyndinni Minimalism kynna félagarnir Joshua Fields Millburn og Ryan Nicodemus aðra leið til að nálgast lífið: naumhyggju (e. minimalism). Hugmyndafræði þeirra byggist á því að við það að losa sig við draslið sem fylgir manni þá tekst manni að einbeita sér að því sem skiptir raunverulegu máli. Hin gríðarlega neysla á óþarfa sem einkennir líf á Vesturlöndum hefur mikil áhrif á umhverfið og því ekki verra að sjá jákvæð áhrif þess að eiga minna á hamingju fólks.

Blackfish stilla.jpg

Blackfish

Þrátt fyrir að heimildarmyndin Blackfish snúist ekki beinlínis um umhverfismál þá má færa rök fyrir því að hún eigi heima á þessum lista. Hún fjallar um dýravernd sem er ekki síður mikilvægt efni. Heimildarmyndin sýnir hvernig inngrip manna í náttúruna getur haft alvarlegar afleiðingar. Hún fjallar um glæpsamlega framkomu skemmtanaiðnaðarins við háhyrninga. Það vill svo til að háhyrningar eru gríðarstór gáfuð rándýr og því hefnist mannfólkinu fyrir framkomuna. Maður spyr sig hvaða áhrif maðurinn hefur á önnur dýr sem hann hefur á sínu valdi. Blackfish er átakanleg mynd um stórfenglegar félagsverur sem verða fyrir barðinu á græðgi mannkynsins.

Chasing Chorals stilla.jpeg

Chasing Coral

Chasing Coral fjallar um áhrif hnattrænnar hlýnunar með því að einblína á átakanleg örlög kóralrifja. Við kóralrifin sést með berum augum hvaða áhrif hækkandi hitastig er nú þegar farið að hafa á lífríkið í sjónum. Höfin gleypa langmest af þeim hita sem safnast í andrúmsloftinu og því er hlýnun sjávar hröð. Það er erfitt að átta sig á alvarleika málsins þar sem hafdjúpið er úr augsýn dags daglega. Höfin eru hins vegar uppspretta lífs á jörðu og því nauðsynlegt að huga að heilbrigði þess. Chasing Coral er góð áminning um það.