Afleiðingar „hraðtísku"
Hinn týpíski íslenski túristi tiplar á tánum milli stóru fataverslananna í hvítu Nike Air Force skónum sínum og ASOS fatnaðinum á meðan hann sýpur á vanilluíslatte frá Starbucks. Hann kaupir sér nokkrar flíkur í Forever 21 og Zara sem hann telur sig bráðvanta og enn fleiri flíkur í H&M enda munar hann ekkert um það. Þú hristir kannski hausinn yfir þessari frásögn. Eða ef til vill kannast þú við þennan einstakling, er ég kannski að lýsa þér? Hver sem þú ert þá er þér ekki gefið leyfi til þess að dæma þennan einstakling, því ef mér skjátlast ekki þá leynast H&M-brækur í nærbuxnaskúffunni þinni eins og hjá svo mörgum öðrum? Hef ég rétt fyrir mér?
Þau vörumerki sem fram komu hér að ofan tilheyra hinni svokölluðu „fast fashion“ stefnu en þá er átt við fatnað sem er framleiddur í stíl við dýran tískufatnað nema í mun verri gæðum sem gerir þeim kleift að selja fötin ódýrt. Fatnaðurinn endist í styttri tíma sem gerir það að verkum að við þurfum að kaupa fleiri föt og fleiri föt enda í ruslagámunum. Þær keðjur sem tilheyra „fast fashion“ stefnunni vilja einmitt að þú fallir í þessa gildru. Markmið þeirra er að fá þig aftur í búðina, bæði til þess að klæðast nýjustu tískunni og einfaldlega vegna þess að fatnaðurinn sem þú keyptir áður fyrr í búðinni er orðinn ónothæfur. Keðjurnar framleiða þennan klæðnað vísvitandi þar sem flestir eru frekar tilbúnir að kaupa fleiri mjög ódýr föt en eina rándýra flík. Jafnvel þegar kostnaðurinn er dreginn saman hefði ef til vill borgað sig að kaupa frekar dýrari flíkina og um leið væri hún umhverfisvænni. Fötin eru ódýr fyrir okkur en kosta jörðina mikið.
Eitruð framleiðsla
Við lifum í vestrænu neyslusamfélagi sem í sífellu matar okkur þegnana af vitleysu í gegnum samfélagsmiðla og á öðrum vettvangi. „Ég get ekki mætt í sama bolnum og ég klæddist í gær, þau dæma mig!“. Við teljum okkur trú um að við þurfum hluti eða fatnað til þess einfaldlega „að lifa af“. Þetta eru að sjálfsögðu eintómar alhæfingar en samt sem áður algengur hugsunarháttur hérlendis. Í þessum hugsunarhætti gleymist oft að taka tillit til umhverfisins. Mikilvægt er að hafa umhverfið í huga þegar kemur að því að kaupa fatnað. Því ekki nóg með það að stór hluti þess fatnaðar, þá aðallega sá sem tilheyrir „fast fashion“ stefnunni, lendi í rusluagámum heldur er framleiðslan á þessum fatnaði að eitra umhverfið.
Keðjurnar nota mikið magn af eitruðum efnum sem menga það svæði þar sem framleiðslan fer fram og hefur bein áhrif á bæði umhverfið og lífverur þess. Pólýester er til dæmis vinsælt efni í fatnaði „fast fashion“ stefnunnar af því það er afar ódýrt og auðvelt að vinna með. Hins vegar hefur það mjög slæm áhrif á jörðina. Pólýester er gert úr óendurnýjanlegum auðlindum og tekur rúm 200 ár fyrir það að sundrast. Í framleiðslu pólýesters þarf einnig meira en 9,33 milljónir tonna af olíu á hverju ári. Því væri næstum því hægt að setja samasemmerki milli polýester og plasts þar sem þau hafa mörg sameiginleg einkenni. Bómull er einnig afar algengt efni í fatnaði en til þess að búa til til dæmis einn stuttermabol þarf um það bil 958 lítra af vatni. Mikið af „fast fashion“ fatnaðinum er einnig unninn úr ýmsum skaðlegum gerviefnum og í sérhverjum þvotti fara plastörtrefjar úr fatnaðinum sem enda síðan í vatnsveitunni og valda þar miklum skaða á sjávarríkinu. Stór hluti fæðu okkar fæst úr sjónum og því væri hægt að segja að við séum bókstaflega að eitra fyrir okkur sjálfum. Á meðan við kaupum fatnað úr „fast fashion“ stefnunni styðjum við þær keðjur sem taka virkan og meðvitaðan þátt í því að eitra fyrir jörðinni. Einnig er gott að hafa í huga að þar sem þessar keðjur þurfa að framleiða svo mikið magn af fatnaði á svo litlum tíma er algengt að þær svindli á starfsmönnum sínum, jafnvel komi ómannúðlega fram og setji þá í lífshættulegar aðstæður.
Hvað í ósköpunum er hægt að gera?
Í stuttu máli, ekki styðja við stóru keðjurnar sem taka þátt í „fast fashion“ stefnunni. Lítil þumalfingursregla sem hægt er að hafa í huga þegar þú ferð að versla föt er að ef fataverslunin er þekkt en þrátt fyrir það eru fötin ódýr og til eru fleiri en fimm eins gerðir af hverri flík tilheyrir hún líklega „fast fashion“ stefnunni. Þetta á þó auðvitað ekki alltaf við og því er lang besta leiðin að kynna sér verslunina áður. Annar kostur væri að kaupa notuð föt, ENDURNÝJA!
Hérlendis eru margar verslanir sem selja notuð föt, þar á meðal Spútnik, Gyllti kötturinn og Rauði krossinn. Með því að kaupa notuð föt ertu til dæmis að koma í veg fyrir alla þá mengun sem fylgir framleiðslunni. Einnig eru til verslanir sem eru að vinna algjörlega úr endurnýjanlegum efnum og sauma ný og nýtískuleg föt úr þeim eins og t.d. verslunin USEE STUDIO og Aftur.
Ef þú ert orðinn þreytt/ur á fatnaðinum þínum þá er einnig alltaf hægt að fá lánað hjá vini sínum og kannski verður það framtíðarlausnin. Í stað þess að selja föt þá leigjum við fötin í ákveðinn tíma og verðum þar með ekki þreytt á þeim. Erlendis hefur þessu verið komið af stað og vakið mikla lukku. Það er auðvelt að losa sig við fatnað hérlendis og um leið styrkja gott málefni. Þú getur til dæmis gefið fötin þín til Rauða krossins eða í Konukot. Mikilvægt er að taka það fram að það er enginn að banna einum né neinum að kaupa föt en vandaðu val þitt. Framtíðin er óljós en tíminn er á þrotum og taka þarf til aðgerða til þess að hlúa að okkar dýrmætu jörð.