Menningarlegt jafnrétti undirstaðan

Pétur Halldórsson, formaður Ungra umhverfissinna. Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Pétur Halldórsson, formaður Ungra umhverfissinna. Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Ungir umhverfissinnar er vettvangur ungs fólks á Íslandi til að láta gott af sér leiða í umhverfismálum,“ segir á heimasíðu samtakanna. Samtökin voru stofnuð í mars 2013 og voru stofnmeðlimir um fjörutíu en í dag eru skráðir meðlimir 804 samkvæmt heimasíðunni. Pétur Halldórsson er formaður samtakanna og situr í fimm manna stjórn með tvo varamenn. Pétur hefur verið viðriðinn samtökin síðan haustið 2015. Þá höfðu Ungir umhverfissinnar komið auga á að Pétur var iðinn við að senda inn umsagnir við mál sem vörðuðu umhverfið og samtökin vildu fá hann til að leiðbeina sér hvernig þau gætu leikið leikinn eftir og sent inn umsagnir. Pétur hefur átt erfitt með að slíta sig frá samtökunum síðan þá.

Þverpólitísk samtök

Pétur segir samtökin hvíla á ákveðnum prinsippum. „Það er þrennt sem við leggjum áherslu á í okkar hagsmunagæslu: vera málefnaleg, starfa á landsvísu og vera þverpólitísk. Þetta er ákveðinn línudans að sameina þetta þrennt.“

Pétur segir mikilvægt að umhverfismál séu þverpólitísk „Annars verða þau pólitískt bitbein og hætt við að aðilar sem annars myndu berjast fyrir umhverfismálum færu að berjast á móti þeim vegna pólitískrar samkeppni - en ekki endilega vegna þess að þeir eru á móti umhverfismálum. Við viljum að allir sinni umhverfismálum, óháð skoðunum á útfærslu. Ástandið sem við erum að upplifa í heiminum í dag kallar á það,“ segir Pétur, og heldur áfram: „Umhverfismálin hafa einfaldlega ekki komist almennilega á dagskrá, og þegar þau komast á dagskrá eru staðreyndirnar ekki endilega uppi á borðum. Við tölum mikið um að Ísland sé umhverfisvænt en staðreyndin er sú að við erum með mestu umhverfissóðum heimsins.“

Verkefni Ungra umhverfissinna

Ungir umhverfissinnar eru með mörg verkefni á koppinum en það sem stendur félaginu helst fyrir þrifum er skortur á fjármagni. Eins og staðan er í dag er vinna samtakanna unnin í sjálfboðavinnu en Pétur segir að þau myndu vilja ráða starfsmann. „Við höfum verið að sækja um verkefnastyrki. Vandinn er að yfirleitt eru sjóðirnir það litlir að ekki er hægt að ráða starfsmann fyrir það. Við höfum óskað eftir rekstrarsamningi við menntamálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið en beiðnum okkar hefur verið hafnað. Við höfum í kjölfar þess sent erindi til forsætisráðuneytisins en því hefur enn ekki verið svarað. Við höfum hugleitt að krefjast gjalda af félagsfólki okkar, en okkur finnst það skjóta skökku við að láta ungt fólk borga brúsann.“

Pétur segir þrjú stór verkefni vera á oddinum hjá Ungum umhverfissinum sem stendur. „Framan af var stærsta verkefni okkar að heimsækja framhaldsskóla og halda kynningar um hvernig ungt fólk geti tekið þátt og haft jákvæð áhrif á umhverfismál. Framhaldsskólanemar tala um að það sé í raun ekkert efni um umhverfismál í framhaldsskólum. Unga fólkið upplifir það að vera sagt að heimurinn sé að líða undir lok en ekki hvernig hægt sé að leysa úr því. Rammi framhaldsskólakynningarinnar er að veita fræðsluna um umhverfismál og ef þú vilt síðan gera eitthvað í málunum eru Ungir umhverfissinnar vettvangur til þess.

Í kynningunum tölum við ekki bara um innlend heldur einnig alþjóðleg umhverfismál. Við tökum dæmi úr okkar starfi hvernig við höfum verið að hafa áhrif á þessi mál til að gefa þeim hugmynd um hvað þau geta gert. Í vetur förum við í alla 31 framhaldsskóla. Þetta hefur varið stigvaxandi, veturinn 2016-17 fórum við í tíu framhaldsskóla, síðasta vetur í 24 og nú munum við fara í alla.“

Ljóst er að mikil elja er í Ungum umhverfissinum en vinnan var öll unnin í sjálfboðastarfi. „Fyrsta árið höfðum við engan pening og borguðum í raun með okkur. Við fórum í tveggja vikna hringferð um landið! Þetta var hugsjónavinna félagsmanna. Við erum ekkert að grínast með þetta enda er krísuástand í málaflokknum. Núna, sem betur fer, náum við að borga einhver laun til þeirra sem sjá um fræðsluna.

Við stefnum síðan að því að þjálfa upp teymi víða um landið, svo það verði ódýrara að halda þessar kynningar. Það skapar líka betri tengingar inn í nærsamfélagið. Í fyrstu ferðinni sem við fórum þekktum við engan í skólunum og vorum að reyna að græja þetta einhvern veginn. Með núverandi uppbyggingu verður vonandi fljótt sjálfbært starf. Það er einfaldara að halda eina tvær kynningar en að fara í tveggja vikna hringferð.“

Pétur víkur frásögn sinni að næsta verkefni „Við erum komin með annað verkefni sem er alveg nýtt - námskeið í hagsmunagæslu fyrir sjálfbæra þróun. Námskeiðið á að veita tól til að vinna að grænni lausnum og miðla sérfræðiþekkingu innan félagsins, til dæmis um hvernig á að senda inn umsagnir um skipulagsmál. Málið sem tekið var fyrir á síðasta námskeiði var Hvalárvirkjun á Vestfjörðum. Þetta eru oft stór og flókin mál með mörgum aðilum, eins og yfirvöldum og framkvæmdaaðila. Stór hluti af vinnunni er að tala við fólk og fá allar mögulegar upplýsingar. Með því að tengja fólk saman geta Ungir umhverfissinnar náð betri árangri en með því að vinna að málinu sem einstaklingar.“

Þriðja verkefnið sem Pétur segir mér frá er metnaðarfullt verkefni en það snýst um að skapa Hið alþjóðlega tengslanet ungmenna um Norðurslóðir eða Global Arctic Youth Network. „Verkefnið er eiginlega orðið stærsta verkefnið okkar. Það varð til eftir að við hittum hóp frá Alaska á Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu árið 2017, en þau voru fyrst og fremst ungt fólk af frumbyggjaþjóðum.

Við vorum sammála um hversu lítið við vissum um hvað væri að gerast á öðrum stöðum svo við ákváðum að stofna alþjóðlegt tengslanet. Nú erum við komin með 100 manns í 28 löndum og erum að vinna í að mynda stjórn. Við viljum að þetta verði vettvangur fyrir ungt fólk frá öllum heimssvæðum og menningarsvæðum sem er sammála um að loftslagbreytingar, lífbreytileiki og menningarlegt jafnrétti tengist innbyrðis og beri að nálgast sem eina heild,“ segir Pétur, en starfsemi Hins alþjóðlega tengslanets á að hverfast um þessa þrjá lykilþætti og samspil þeirra.

Að lokum minnist Pétur á að félagið ætli að gera gangskör að því að standa fyrir reglulegum viðburðum hérlendis. „Við viljum byrja að halda reglulega viðburði til að fá fleiri í starfið. Viðburðirnir gætu til dæmis verið fundur um plastmengun, fundur um hjól og samgöngur eða námskeið í grænni eldamennsku. Það er úr ótalmörgu að taka enda umhverfismál gífurlega breiður málaflokkur.“

UU á Loftslagsráðstefnu SÞ

Ungir umhverfissinnar stóðu nýlega fyrir stóru og metnaðarfullu verkefni en þeir héldu pallborðsumræður á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, en hún fór fram í Katowice í Póllandi í lok síðasta árs. Pétur segist ætla að fá að kalla það „besta pallborðið á ráðstefnunni,“ þar til annað komi í ljós. Pallborðið var haldið á sérstökum degi þar sem ungmennasamtök fengu að halda slíkar pallborðsumræður.

„Pallborðið fjallaði um hvernig loftslagsbreytingar, líffræðilegur fjölbreytileiki og menningarlegt jafnrétti tengjast innbyrðis. Um leið og maður horfir á þetta sem eina heild nær maður fram samlegðaráhrifunum í því hvernig má leysa þessi mál. Það er ekki nóg að einblína á einstök málefni heldur þarf að skoða hvernig þau tengjast og hvernig má leysa þetta sem eina heild. Annars munum við ekki leysa þau.“ Í pallborðsumræðunum voru málin skoðuð út frá þeim þáttum sem áður voru nefndir - loftslagbreytingum, lífbreytileika og menningarlegu jafnrétti.

„Í pallborðsumræðunum voru fulltrúar frá Grænlandi, Madagaskar, Austur-Rússlandi, Álandseyjum og Íslandi. Þau töluðu um eitthvað málefni frá sínum heimahögum, einhverjar áskoranir. Þegar við vorum búin að tengja saman málefni þessara ólíku einstaklinga frá ólíkum heimshlutum kom svolítið í ljós að þau voru þau sömu. Næst fengum við salinn til að nefna eitthvað sem þau töldu að væri ekki búið að leysa og við, þá á staðnum, komum með tillögur að því hvernig hægt væri að leysa það. Svo alveg í lokin kom umhverfisráðherra Svíþjóðar í pallborðið.“

Menningarlegt jafnrétti

Pétri fannst sannast í gegnum pallborðsumræðurnar að loftslagsbreytingar eru komnar á dagskrá, lífbreytileiki að einhverju leyti en menningarlegt jafnrétti er ekki komið jafn langt. „Það er einfaldlega ekki í orðfæri fólks.“

„Að heyra sögur af tvítugum einstaklingi sem talar ekki móðurmálið sitt vegna þess að foreldrar hans voru sett í heimavistarskóla og bannað að tala móðurmálið sitt setur þetta í samhengi. Pólitískt er þetta þó viðkvæmt mál, því þetta tengist því hvernig ákveðnir hópar hafa valtað yfir aðra. Við erum í krísu og allt er að fara til fjandans en frumbyggjaþjóðirnar eru löngu búnar að fullkomna það hvernig lifa á í sátt við náttúruna. Valdhafar í heiminum eru hins vegar ekki að hlusta á þau. Aðilarnir sem hafa völdin hafa enga hugmynd um hvernig á að lifa sjálfbært.

Ef jafnrétti ríkir milli ólíkra menningarhópa er auðveldara fyrir frumbyggjaþjóðirnar að miðla því hvernig við lifum sjálfbæru lífi. Við getum ekki leyst umhverfismálin án þess að veita þessum sjónarmiðum að minnsta kosti sama vægi og þeirra sem hafa enga hugmynd um hvernig á að leysa þetta. Í raun eru ótrúlega mörg vandamál til vegna þess að ekki er hlustað á frumbyggja. Til dæmis á núna að leggja lestarteina í Norður-Svíþjóð í gegnum svæði þar sem hreindýr Samanna lifa og það mun hafa virkilega neikvæð áhrif á hreindýrastofnana og þar af leiðandi neikvæð áhrif á menningu Sama,“ segir Pétur, en Samar eru frumbyggjaþjóð sem búa í norðanverðri Skandinavíu.

„Það er talið að á næstu árum muni gífurlegur fjöldi tungumála deyja út. Það er til dæmis ein sem er með okkur í alþjóðasamtökunum, sem er frá Austur-Rússlandi, og í hennar máli eiga þau sérstakt orð fyrir hvert aldursskeið hreindýrs. Það er í gegnum tungumálið sem þau þekkja náttúruna og kunna að lifa í takt við hana.

Ef þú missir tungumálið þá missirðu þessa beinu tengingu við hvernig þú lifir í sátt við náttúruna. Og það er akkúrat þetta sem er svo mikilvægt fyrir frumbyggjaþjóðir, ekki bara að leyfa fólkinu að lifa heldur að veita menningunni og tungumálinu jafnrétti við aðrar, að þau séu ekki að deyja út. Þetta er auðvitað flókið viðfangsefni, en á sama tíma spennandi. Við teljum að þetta sé eina leiðin til að leysa loftslagsmálin, og heimsmálin yfir höfuð.“

Það er ljóst að Ungir umhverfissinnar eru stórhuga og með mörg stór verkefni framundan og spennandi verður að fylgjast með því hvort að þeim takist til með að koma menningarlegu jafnrétti á dagskrána og inn í almenna orðræðu.