Fimm staðreyndir um svefn

Stúdentablaðið/Unsplash

Stúdentablaðið/Unsplash

Svefn er ein af grunnþörfum mannsins og er ekki bara mikilvægur heldur nauðsynlegur fyrir heilsu okkar og vellíðan. Þrátt fyrir það virðist mikilvægi svefnsins oft gleymast en hann á það til að lenda aftarlega í forgangsröðun fólks þegar kemur að heilsu. Staðreyndin er sú að svefn er alveg jafn mikilvægur og næring og hreyfing þegar kemur að heilsu og því er mikilvægt að temja sér góðar svefnvenjur.

1. Hefur jákvæð áhrif á minnið

Í svefni eru upplýsingar fluttar á milli heilasvæða og heilinn sér um að flokka þær og festa þær í sessi. Heilinn sér einnig um að raða saman nýjum upplýsingum og gömlum og hjálpar þér þannig að setja það sem þú lærðir yfir daginn í samhengi. Heilastarfsemin sem á sér stað á meðan þú sefur getur þannig skipt sköpum þegar kemur að námi og því er sérstaklega mikilvægt fyrir námsmenn að tileinka sér góða svefnrútínu.

 

2. Afköst verða meiri

Svefnskuld hefur slæm áhrif á einbeitingu og rökhugsun. Erfitt getur þó verið að átta sig á svefnskorti, vegna þess að afleiðingarnar geta verið óljósar og oft er maður orðinn vanur því að vinna í því ástandi. Nægur svefn skilar sér í meiri orku yfir daginn og þar af leiðandi auknum afköstum. Eftir hæfilegan nætursvefn er heilastarfsemin mun skarpari, viðbrögð sneggri og einbeitingin töluvert betri. Nægur svefn gerir okkur auðveldara fyrir að takast á við verkefni og dregur úr frestunaráráttu svo um munar. 

 

3. Betra fyrir geðheilsuna

Á meðan við sofum vinnur heilinn úr tilfinningum okkar. Heilinn nýtir þennan tíma til að gera grein fyrir tilfinningum og bregðast við þeim á réttan hátt. Þegar við fáum ekki nægan svefn höfum við því tilhneigingu til að sýna fleiri neikvæð tilfinningaleg viðbrögð og færri jákvæð. 

Ef svefnskortur er langvarandi getur hann jafnvel stuðlað að lyndisröskunum eins og depurð og kvíða. Rannsóknir hafa sýnt fram á sterk tengsl milli svefns og geðheilsu en talið er að þeir sem þjáist að svefnleysi séu allt að fimm sinnum líklegri til að þróa með sér þunglyndi og eru líkurnar á kvíðaröskunum jafnvel ennþá meiri.

 

4. Gerir okkur auðveldara fyrir að borða hollt og hreyfa okkur

Svefnleysi eykur matarlystina og fær þig til að sækjast meira í skyndiorku. Slíka orku má meðal annars finna í sætindum, gosi og orkudrykkjum. Þessi skyndiorka endist ekki lengi og fljótlega ferð þú að finna til svengdar á ný og sækist þá í ennþá meiri skyndiorku. Þessi hringrás getur verið skaðleg til lengri tíma og haft slæmar afleiðingar. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli ofþyngdar og langvarandi svefnskorts. Góður nætursvefn auðveldar þér að viðhalda hollu mataræði og stuðlar einnig að hreyfingu. Þegar við erum úthvíld höfum við meiri orku og erum líklegri til að veita henni útrás með hreyfingu.

 

5. Betra fyrir líkamlega heilsu

Á meðan þú sefur lækkar blóðþrýstingurinn og gefur þannig hjartanu og æðunum smá hvíld. Því minni svefn sem þú færð, því lengur helst blóðþrýstingur uppi yfir sólarhringstímabil. Hár blóðþrýstingur getur leitt til ýmissa hjartasjúkdóma, til að mynda heilablóðfalls.

Einnig lækkar magn glúkósa í djúpsvefni. Ónægur djúpsvefn hefur þær afleiðingar að líkaminn fær ekki þá pásu sem hann þarf til að endurstilla þetta magn. Þar af leiðandi á líkaminn erfiðara með að bregðast við þörfum frumnanna og blóðsykursgildum.

Til þess að hjálpa þér að komast hjá veikindum greinir ónæmiskerfi þitt skaðlegar bakteríur og veirur í líkama þínum og eyðir þeim. Viðvarandi svefnleysi breytir virkni ónæmisfrumna og dregur úr viðbragðshraða þeirra. Þar af leiðandi eiga þær erfiðara með að bregðast við þessum skaðlegu bakteríum og veirum og fyrir vikið veikist þú oftar.

 

Of mikið af því góða?

Svefnþarfir eru breytilegar eftir einstaklingum en almennt er talið að meiri en níu tíma nætursvefn geri meira illt en gott. Best er að stefna að sjö til átta tíma nætursvefni til að hámarka heilsufarslegan ávinning.