10 lélegar hugmyndir sem ég vona að enginn muni framkvæma árið 2018

1. David Lee Roð

Heilsusnakk unnið úr þorsksroði sem gefur frá sér lágvær „aaah yeeaa“, „runnin with the devil“, „might as well jump“ og fleiri David Lee Roth-gól þegar þú bryður það.

2. Hmm-us

Hummus án innihaldslýsinga með óvæntu viðbótarbragði, mismunandi í hverjum pakka. Smjörhummus, lummuhummus (lummus), eða tannkremshummus, svo einhver dæmi séu nefnd.

10 lelegar hugmyndir - hmmus.jpg

3. Innkaupapokar úr gleri

Vistvænir, vegan og glúteinsnauðir.

4. Þreyttur rjómi

Ímyndið ykkur rjóma sem er búið að þeyta en hefur eftir það staðið á borði í gegnum langa fermingarveislu og húkt inn í ísskáp í nokkra daga. Hann er orðinn svipað lúinn og upprunalegi rjóminn í fernunni, bara talsvert subbulegri. Þessi rjómi er eftirsóttur í ýmsa matargerð, hvort sem það er í ísuppskriftir, pizzuídýfu eða út á morgunkorn. Í raun er búið að þeyta og afþeyta rjómann. Í stað þess að fara í gegnum allt þetta ferli gæti nú verið hægt að versla þennan þreytta rjóma tilbúinn í verslunum.

10 lelegar hugmyndir - þreyttur.jpg

 

5. Fantanýl

Purple drank er svo árið 2015. Til að nýta sér vinsældir hipp-skopps og sljóvgandi lyfja gæti Vífilfell aka. Coca Cola Europe Official International English Name sett á markað fentanýlblandað Fanta með lakkrísbragði.

10 lelegar hugmyndir.jpg

6.Seðla

Eðla, nema gerð úr serbneska asnaostinum Pule, salsasósu úr þurrkuðum Morita chile-pipar, hvítum Alba trufflu-blönduðum rjómaosti og kampavíni. Garnish-að með nokkrum 10.000 króna seðlum.

7. Krampavín

Flog í fljótandi formi.

8. Brauðvín

Blóð og líkami Krists saman í einum crunchy pakka. Eitthvað í ætt við appelsínusafa með aldinkjöti, blautir brauðmolar gefa rauðvíninu aukna fyllingu. Mmm.

9. Suðudiskó

Plötusnúðar þeyta skífum hver í kapp við annan, fjórir saman í gufubaði. Engir gestir leyfðir.

10. Tröllabíó

Kvikmyndahús fyrir tröll. Risavaxnir aðgöngumiðar, popppokar stærri en gestirnir og hvert poppkorn á stærð við mannshöfuð. Ef þú breiðir út faðminn nærðu ekki í sætisarmana og lappirnar dingla rétt niður fyrir sætispulluna. Sætisbakið líka víðsfjarri, og tjaldið vitaskuld ógnarstórt.