UAK - Félag sem styður við upprennandi athafnakonur

Elísabet Erlendsdóttir.jpg

Staða kvenna í atvinnulífinu hefur verið mikið í umræðunni síðustu ár. Kynbundinn launamunur, kvenfjandsamlegt vinnuumhverfi, kynferðisleg áreitni og fleira hefur borið á góma í því samhengi og oftar en ekki er sagt að „konur þurfi bara að vera duglegri“ ætli þær sér að komast í sömu stöðu og karlar á vinnumarkaðnum. Árið 2014 var félagið Ungar Athafnakonur (UAK) stofnað og fer félagið ört vaxandi. Félagið vill meðal annars stuðla að auknu jafnrétti í samfélaginu og styðja við ungar konur sem hafa hug á að skara fram úr á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins. Það má því segja að félagið sé andsvar við lakri stöðu kvenna í atvinnulífinu. Stúdentablaðið hitti Elísabetu Erlendsdóttur, viðskiptastjóra UAK og ræddi við hana um félagið og tækifæri ungra kvenna í íslensku atvinnulífi.

Skapa vettvang þar sem ungar konur komast í kynni við sterkar fyrirmyndir
„Ungar athafnakonur er félagsskapur fyrir stelpur sem eru í námi, að ljúka námi eða að stíga sín fyrstu skref á atvinnumarkaðnum og vantar einhverskonar aðhald í kringum það. Sem ung kona skortir mann stundum sjálfstraust og sterkar fyrirmyndir, þær eru ekkert alltaf sjáanlegar í fjölmiðlum. Við reynum að búa til vettvang þar sem við, ungar konur, getum komist í kynni við sterkar fyrirmyndir og veitum það aðhald sem þarf til að  fóta sig í lífinu sem ung kona.“

Tengslanet kvenna veikari en karla
Markmið UAK eru háleit. Félagið leitast við að „styrkja stöðu og framtíð ungra kvenna sem leiðtoga og virkra þátttakenda í atvinnulífinu.“ Þær vilja einnig hjálpa ungum konum að skapa tengslanet en Elísabet segir tengslanet kvenna oft hafa verið minni en karla í gegnum tíðina. En hvernig ætla þær sér að ná þessum markmiðum? „Með fræðslu, umræðu og hvatningu. Við bjóðum til að mynda upp á ýmsa viðburði og námskeið. Á þessu starfsári höfum við tekið fyrir samfélagslega ábyrgð fyrirtækja í pallborðsumræðum, haldið örfyrirlestrakvöld um hvernig hægt er að þróast með góðum takti í starfi, boðið upp á fyrirtækjaheimsóknir og núvitundarnámskeið.“

Athafnakonur eru allskonar
Orðið athafnakona er mjög sterkt og eflaust margar ungar konur sem eiga erfitt með að skilgreina sig sem slíka. Elísabet segir þó að ungar athafnakonur geti verið af ýmsum toga, til dæmis þær „sem hafa verið virkar í sínu námi, félagsstörfum, íþróttum eða sjálfboðaliðastarfi og þrá að fá  eitthvað meira út úr öllu því sem lífið hefur upp á að bjóða.“ Félagið er því opið öllum þeim sem hafa í huga að ná árangri í lífinu og eru engin aldurstakmörk sett fyrir inngöngu í félagið. „Svo lengi sem þú finnur þig í félaginu þá ertu velkomin, yngsta stelpan tvítug og sú elsta er á fimmtugsaldri, meðal aldurinn er þó 27 ára.“ Karlmenn geta þó ekki gengið í félagið. „Við reynum klárlega að fá flottar karlkyns fyrirmyndir sem fyrirlesara hjá okkur en þeir viðburðir sem snúa að félagskonum eru lokaðir. Við höldum þó bæði opnunarviðburði á hverri starfsönn og opna viðburði þar sem við hvetjum unga karla sérstaklega til að mæta. Við viljum endilega fá karlmenn að borðinu en lokuðu viðburðir eru miðaðir að þörfum ungra kvenna.“

Vilja auka við fjölbreytni innan hópsins
Elísabet leggur samt sem áður áherslu á að allar konur séu velkomnar í félagið, hver svo sem bakgrunnur þeirra er, og vill stjórn UAK gjarnan auka fjölbreytni innan hópsins. „Íslendingar eru einsleitir, við erum einsleitar en við viljum gjarnan bæta úr því, til dæmis með því að halda viðburðina okkar þar sem er aðgengi fyrir einstaklinga í hjólastól eða einstaklinga með fötlun. Á þessu starfsári höfum við verið að horfa á uppruna kvenna og hvernig við fáum stelpur af erlendum uppruna til að sækjast í þennan félagsskap vegna þess að það er hópur kvenna sem við viljum að sæki í auknum mæli í félagið.“

Glerþakið í fjármála og stjórnendaheiminum hnausþykkt                                                                Mikill fjöldi ungra kvenna mætir á viðburði UAK, það gefur til kynna að félagsskapurinn sé þarfur og vandinn sem ungar konur standa frammi fyrir, kynbundinn launamunur og fleira honum tengt, sé mikil hindrun. Elísabet virðist mjög vongóð þegar hún er spurð út í þær hindranir sem ungar konur þurfa að yfirstíga til að ná langt í atvinnulífinu. „Svo virðist sem glerþakið í fjármála og stjórnendaheiminum sé alveg hnausþykkt og fáar sprungur sjáanlegar. Það sem við getum gert er helst að horfa inn á við og skoða hvað við getum gert til að breyta ástandinu.“

Hunsa samfélagið og einblína á kosti sína
Elísabet segir skilaboð samfélagsins til ungra kvenna lýjandi og þau snúi gjarnan að útliti þeirra og efasemdum um gáfur. „Við í UAK reynum að hunsa þessi skilaboð og horfa frekar inn á við, einblína á kosti okkar og það að bæta úr því sem okkur finnst virkilega að við getum og þurfum betrumbæta. Til dæmis með því að fara á sjálfstraustsnámskeið ef eitthvað vantar upp á sjálfstraustið, læra að tala fyrir framan fólk ef það er eitthvað sem er að hindra okkur o.s.frv. Við leitumst við að svara þörfum þeirra sem eru í félaginu og bjóðum upp á fræðslu og námskeið í því sem við sem ungar manneskjur höfum gott af að læra til að ná árangri. Í UAK reynum við að vinna út frá þörfum hverrar og einnar og skapa þor til að sækjast eftir tækifærum og ganga á eftir þeim.“

Skóli lífsins
Í UAK kenna þær praktísk atriði sem ekki eru kennd í skóla. „Við lærum ekki að semja um laun í skóla, við lærum ekki að sækja um stöðuhækkun í skóla. Oft reynir fólk að segja kynbundinn launamismun vera því að kenna að konur séu svo lélegar í að krefjast bættra kjara. Við svörum slíku einfaldlega með því að þjálfa konur í að sækja um launahækkun!“

Árangur sýnilegur
Námskeið og fræðsla á vegum UAK skilar sér greinilega til þeirra sem sækja í félagið. „Stelpur  fyllast oft eldmóði eftir viðburðina hjá okkur og við fáum gjarnan sögur af því hvernig námskeið hjá okkur hafa eflt ungar konur til að sækja í sig veðrið í íslensku atvinnulífi. Ein kona deildi því með okkur að eftir námskeið hjá UAK hafi hún lært svo góða tækni við það að krefjast betri launa að hún fékk miklu meiri hækkun en hún hefði getað ímyndað sér. UAK hjálpar því ungum konum að efla sjálfstraustið til að t.d biðja um betri laun og gefur þeim einnig rétt tæki og tól til að  krefjast betri kjara.“

Leikur einn að skrá sig
Að ganga í UAK er afar einfalt, skráning fer fram á www.uak.is og árgjaldið er 6.000 krónur en einnig er hægt að skrá sig í hálft ár fyrir 3.000 krónur, félagskonur fá aðgang að öllum viðburðum UAK. Opnir viðburðir eru einnig á dagskrá reglulega en á þá eru allir velkomnir.

www.UAK.is

Facebook:  Ungar Athafnakonur

Instagram:  @Ungarathafnakonur

Twitter:      @Ungarathafna