Meiri áhuga á sögum en sögu
Á miðvikudagsmorgni í byrjun apríl tekur Vera Illugadóttir á móti blaðamanni og ljósmyndara Stúdentablaðsins í húsi Ríkisútvarpsins. Vera er þekkt fyrir hina vönduðu þætti Í ljósi sögunnar sem notið hafa mikilla vinsælda en þeir eru vikulega á dagskrá Rásar 1 og einnig aðgengilegir á hlaðvarpinu. Á eftir seiðandi tónum þemalagsins Black Sands með Bonobo fjallar Vera um margvísleg málefni nútímans í ljósi sögunnar, allt frá dularfullum afrískum sjúkdómum til frægra stjórnmálamanna eins og Hillary Clinton og Angelu Merkel. Stúdentablaðið langaði til þess að vita bæði meira um þættina og konuna á bak við þá.
Veit ekki hvort hún yrði góður sagnfræðingur
Vera hefur unnið á Ríkisútvarpinu í sex ár og verið með þættina Í ljósi sögunnar í næstum þrjú, sem og innslög í Morgunvaktina. ,,Áður var ég á fréttastofunni. Ég er með háskólapróf í arabísku frá Háskólanum í Stokkhólmi en ég var þar í námi í þrjú ár frá 2010 til 2013. Svo vann ég líka á tímaritinu Skakka turninum áður en ég fór í nám. Það var svipað, um söguleg efni. Ég er hins vegar ekki menntuð í sagnfræði og ég veit ekki hvort ég yrði neitt rosalega góður sagnfræðingur. Ég er meira fyrir alþýðusagnfræði heldur einhver rosaleg fræðistörf. Ég hef kannski meira áhuga á sögum en sögu - áhuga á að segja einhverja sögu frekar en að tína til sagnfræðiupplýsingar eins og tölur og ártöl.“
Aðspurð hvernig það kom til að hún hafi farið að læra arabísku segir Vera að það hafi eiginlega verið út af ömmu sinni, Jóhönnu Kristjánsdóttur sem lærði einnig arabísku. ,,Hún var blaðamaður á Morgunblaðinu í erlendum fréttum. Þegar hún hætti þar flutti hún fyrst til Kaíró í Egyptalandi og lærði arabísku þar; bjó þar lengi og líka í Sýrlandi og Jemen. Þegar hún kom aftur heim stóð hún fyrir félagsskap til þess að vekja áhuga Íslendinga á Mið-Austurlöndum og Arabaheiminum. Hún skipulagði líka lengi hópferðir til landa eins og Sýrlands. Ég fór í nokkrar slíkar ferðir með henni og hún hafði mikil áhrif á mig. Ég ætlaði svo alltaf að gera pásu á náminu mínu í Svíþjóð og fara út til Arabalands til þess að læra tungumálið betur. Ég ætlaði til Sýrlands sem var aðallandið þá, ódýrir skólar og gott að vera. Ég ætlaði akkúrat að fara þegar borgarastyrjöldin byrjaði svo það varð ekkert úr því. Ég kláraði þess vegna bara námið og kom mér heim. Ég fór svo að gera Í ljósi sögunnar eftir að yfirmaður minn, dagskrárstjóri Rásar 1, sem vildi fá þátt um söguleg málefni kom til mín og spurði hvort ég væri til í að gera slíka þætti. Ég byggði Í ljósi sögunnar svolítið á þáttum sem ég hafði verið með áður, Leðurblökunni en þeir fjölluðu um ráðgátur, morð og glæpi úr sögunni. Ég vissi að ég vildi segja einhverja sögu í hverjum þætti. Ég fann strax að það féll mjög vel að mér og mínu áhugasviði að gera svona sögulega þætti og ég fílaði það strax. Ég hef alltaf verið mikil áhugamanneskja um sögu og les mikið af bókum um sögu. Ég les eiginlega aldrei skáldsögur lengur.“
Fimmtán síðna ritgerð í hverri einustu viku
Stúdentablaðið spyr Veru hvað það liggi mikil vinna að baki hverjum þætti. ,,Einn þáttur á að teljast hálf vinnuvika en það er nú stundum talsvert meiri vinna sem fer í þættina. Þetta er auðvitað rosalega mikið grúsk; það þarf að lesa bækur fyrir hvern þátt, skoða hljóð og heimildir. Síðan geta sjálf skrifin tekið mjög langan tíma. Mér finnst þetta stundum vera eins og að skrifa fimmtán síðna ritgerð í hverri einustu viku. Það er stundum svolítið þreytandi, en það er samt yfirleitt það auðveldasta. Það sem er erfiðara er undirbúningurinn og ekki síst að fá hugmyndir og að meta hvaða hugmyndir virka og hverjar ekki. Ég held, ef við værum í útlöndum gæti svona þáttur verið alveg fullt starf og jafnvel fleiri sem kæmu að honum. En maður lagar sig að íslenskum aðstæðum.“
Vera segist fá hugmyndir að efni í þættina alls staðar að. ,,Ég er alltaf að hugsa, alltaf með í kollinum hvað geti verið þáttur. Grunnhugmynd þáttarins er auðvitað að reyna að tengja við samtímann og það sem er að gerast. Þá skannar maður fréttasíður, fylgist með fréttum og reynir að kveikja á einhverju þar. En oft dettur mér eitthvað í hug eða einhver nefnir við mig eitthvað eins og: ,,Heyrðu, ég veit ekkert um Kongó? Ertu ekki til í að fjalla um það?“ Ég fæ líka hugmyndur út frá bókum sem ég les og fullt af hugmyndum frá hlustendum sem senda mér tillögur. Stundum langar mig líka að gera eitthvað sérstakt, hugsa kannski um helgi þegar ég þarf að fara að ákveða efni næsta þáttar: ,,Já, nú væri ég ótrúlega til í að skrifa um hrakfarir á Suðurskautslandinu“ og þá fer ég og finn eitthvað sem passar í þann anda.
Þegar maður er með alla mannkynssöguna sem viðfangsefni eiginlega er ekkert erfitt þannig séð að fá hugmyndir. En það þurfa að vera nægar heimildir, hægt að nálgast þær, skemmtilegt að segja frá og hugmyndin þarf að passa í þáttinn.“
Leikur sér með málið
Í ljósi sögunnar þykja vera á ákaflega góðu máli. Stúdentablaðið spyr Veru hvort hún geri miklar kröfur til sín um vandað mál.
,,Já, ég reyni að vanda mig mjög mikið,“ segir Vera. ,,Ég reyni líka að hafa þá á skemmtilegu máli, hafa málið fjölbreytilegt og lifandi. Ég hugsa mikið um hvernig það er að skrifa texta fyrir útvarp vegna þess að það er öðruvísi en að skrifa texta fyrir ritaðan miðil. Það þarf ryþma og flæði fyrir texta sem á að lesa upp, sérstaklega þegar maður er að lesa fjörutíu mínútur af texta. Það er líka gaman með útvarpið að þar er hægt að leika sér með málið - blanda saman formlegheitum og óformlegheitum. Mér finnst mjög gaman að vera til dæmis með einhverja formlega setningu og sletta svo kannski smá, vitandi að þetta er Rás 1. En ég er líka á nálum með málfarið, ég tek það nærri mér ef ég geri málfarsvillur eða slíkt. Það er náttúrulega fólk sem fylgist mjög mikið með málfari fólks í útvarpinu og í fjölmiðlum. Alltaf ef ég geri einhverja smá villu fæ ég tölvupóst eða símtal frá einhverjum sem leiðréttir mann. Maður fær næstum því meiri svoleiðis viðbrögð en við einhverju efnislegu í þættinum. Ég er alltaf hálfhrædd við það. Við erum með prófarkalesara hér sem ég læt þess vegna alltaf lesa yfir og svoleiðis til þess að tryggja gott málfar.“
Sagan karllæg
Vera minnist á að hún fái stundum gagnrýni fyrir hve marga þætti hún hefur gert um karlmenn. ,,Það er kannski dálítið einkenni sögunnar, það er svo ótrúlega mikið af körlum í sögunni og endalaust af körlum í fréttum. En ég reyni að taka fyrir konur. Vinkona mín hlustar til dæmis bara á þættina ef ég tek fyrir einhverjar konur. Hún hlustaði á þættina um Angelu Merkel, Hillary Clinton og fleira slíkt. Auðvitað vil ég hafa konur í þáttunum. En ef maður tekur bara eitthvað af forsíðum blaðanna vill þetta verða dálítið karllægt.“
Er með blæti fyrir útvarpsleikhúsi
Vera segist ekki liggja yfir hlustendatölum en að hún viti að það séu alls konar ólíkir hópar að hlusta. ,,Bæði ungt fólk sem er meira að hlusta í podcastinu og svo er rosalega mikið af eldra fólki sem eru kannski hinir týpísku útvarpshlustendur í dag. En það er bara alls konar fólk og ég hef rosalega gaman af því að heyra að þættirnir nái til ólíkra hópa. Það er líka gaman að vekja athygli á útvarpi og flottum verkefnum sem verið er að gera hér.
Stúdentablaðið spyr Veru hvort hún eigi uppáhaldsþátt af Í ljósi sögunnar. ,,Ja, það eru nokkrir sem mér hefur þótt skemmtilegra að vinna og sem ég hef verið ánægð með. Ég held upp á þátt sem ég gerði um egypsku byltinguna núna fyrir nokkrum árum. Það var mjög skemmtilegur þáttur því það voru svo margir Íslendingar á vettvangi í Kaíró og þeir voru alltaf í fréttaviðtölum á þessum tíma, 2010. Þá fór ég aftur í fréttaklippin, fann viðtölin og gat búið til frásögn í gegnum orð þeirra án þess að ég þyrfti alltaf að vera að segja frá öllu. Það er rosalega sjaldgæft í mínum þáttum af því að maður vill hafa allt á íslensku. Það er svo ótrúlega sjaldan að Íslendingar séu á vettvangi stórviðburða í mannkynssögunni. Það er gaman að fá að heyra aðrar raddir þannig að það sé ekki bara alltaf ég að rausa í fjörutíu mínútur.
Sömuleiðis held ég alltaf dálítið upp á þætti þar sem ég hef getað nostrað við hljóðmynd, atburðarás og svoleiðis. Ég er með smá blæti fyrir útvarpsleikhúsi og mér finnst alltaf gaman að setja upp smá leikhús ef efnið býður upp á það - með hljóðum, röddum annarra á lestri og svoleiðis. Allt slíkt finnst mér ofsalega aman að gera. Núna nýlega gerði ég þætti um geimskutluna Kólumbíu og morðið á Alexander Litvinenko, rússneska njósnaranum. Það voru þættir þar sem maður gat búið til smá leikræna aksjón.“
Vera segist ekki hafa einhverja beina fyrirmynd að þáttunum. ,,Þátturinn varð eiginlega bara til í þessu formi á fyrstu vikunum. Auðvitað á ég fyrirmyndir í einhverjum sagnfræðilegum þáttum. Það eru ógeðslega margir flottir sagnfræðiþættir á BBC og ég tek ákveðnar fyrirmyndir þaðan, til dæmis hljóðanotkun og annað slíkt. Ég hlusta á mikið af breskum sagnfræðiþáttum og líka sænskum. Svíar gera flotta sögulega þætti.“ Vera bendir hins vegar á að töluvert auðveldara sé að fá aðrar raddir inn og sérfræðinga til að segja frá í hinum enskumælandi heimi. ,,Ég tók þá ákvörðun að taka ekki viðtöl við fólk af því að ég ímyndaði mér að það gæti orðið einhæft, að það yrði alltaf sama fólkið sem væri sérfræðingar. Þátturinn mótaðist því þannig að það er bara ég sem skrifa og segi frá.“