Ef ég væri viðburður væri ég karaoke kvöld á Gauknum
Alice Bower nemur meistaranám í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Hún vann nýlega keppnina Fyndnasti Háskólaneminn sem haldin var í Stúdentakjallaranum. Keppnin er haldin árlega af Félagsífs- og menningarnefnd Háskóla Íslands í samstarfi við Landsbankann og hefur fengið góðar undirtökur. Eftir sigurinn hefur Alice gert ýmislegt í tengslum við uppistand, þar á meðal tók hún þátt í uppistandssýningu Mið Íslands í Þjóðleikhúskjallaranum, fór á Húmorsþing á Hólmavík ásamt því að hafa verið í útvarps- og sjónvarpsviðtölum á RÚV og víðar. Stúdentablaðið ræddi við hana um keppnina, uppistandið og ferðina til Færeyja sem hún skipuleggur fyrir vinningspeninginn.
Gera heimskulega hluti á Jamaíka norðursins
“Ég skráði mig bara út af peningunum,” segir Alice aðspurð hvers vegna hún ákvað að taka þátt í keppninni. Draumurinn hennar er að fara til Færeyja með vinkonu sinni, sem hún kallar Kafteinn Stuð, en hana langar eiginlega ekkert til að fara þangað. “Ég spurði hana hvað ég myndi þurfa að gera til þess að fá hana með mér og hún sagði: ef þú þú vinnur fyndnasta háskólanemann, færð peningana og borgar fyrir mig þá fer ég með.” Þær eru búnar að kaupa miða á G festival í júlí þar sem æltlunin er að taka upp þáttaröð þar sem þær drekka og gera heimskulega hluti og á að bera nafnið “Jamaíka norðursins: Kapteinn stuð og Tröllið fara til Færeyja”.
Alice hafði aldrei áður komið fram sem uppistandari en segir að hún sé oft í trúðahlutverki meðal samnemenda sinna í þjóðfræðinni. Í fyrstu var hún kvíðin en það hjálpaði henni mikið að það komu margir að sýna henni stuðning.
“Það mætti fullt af fólki til að koma og styðja mig sem ég bjóst alls ekki við, fólk úr þjóðfræði, og ég hugsaði, já, ég er aðeins vinsælari en ég hélt! En þá kom í ljós að meirihlutinn af þeim var í námskeiði í háskólanum og það var semsagt verkefni hjá þeim að mæta. Svo ég var ekki eins vinsæl og ég hélt,” segir hún háðslega.
“Ég er aldrei feimin en ég þorði ekki alveg að taka þátt, af því að íslenska er ekki móðurmálið mitt og uppistandið var á íslensku. Það voru tvær stelpur sem fluttu á ensku og það heppnaðist bara mjög vel. Þær voru mjög fyndnar. En ég var smá kvíðin að ef ég gerði það á ensku myndu færri hlusta á mig,” segir hún um ákvörðun sína að hafa uppistandið á íslensku en ekki á móðurmáli sínu sem er enska en Alice ólst upp í London.
“Það var allavegna mikið af fólki þarna sem ég þekkti og það gaf mér mikinn styrk. Ég var ekki eins kvíðin því þetta var fólk sem ég þekkti og þá leið mér ekki eins og þetta væri eitthvað svaka stórt heldur bara eins og ég væri að hafa gaman á kjallaranum með vinkonum mínum.”
Aðallega kynlífssögur
Þó að í fyrstu hafi hún verið óörugg með að tala íslensku gerði hún einnig grín að íslenskunni sinni í uppistandinu. Hún þakkar velgengni sinni meðal annars því að áhorfendurnir voru búnir að drekka mikið áfengi. Aðspurð um hvað uppistandið hennar fjallar um svarar hún að það sé “aðallega kynlífssögur”.
“Ég er ekki með marga ‘one liner’ brandara, aðallega frásagnir, segi sögur og hermi eftir fólki. Ég geri grín af íslenskunni minni, tala um upplifun mína í störfum og ástarmálum og stundum fer ég aðeins í barnæskuna mína en það er aðeins erfiðara að þýða það yfir á íslensku.” Í uppistandinu segir hún meðal annars fyllirís sögur ásamt sögum úr atvinnulífi sínu en að hennar sögn er mikill húmor í láglaunastörfum. Mannleg samskipti eru viðfangsefni hennar ásamt því að endursegja vandræðalegar sögur um sjálfa sig.
“Ég geri svolítið grín af þeim fjölbreyttu afsökunum sem strákar hafa notað til þess að losna við mig. Til dæmis “ég þarf að fara að mála íbúð á Selfossi” eða “kannski ef þú spyrð mig á þriðjudegi” ekki á laugardegi eða föstudegi eða jafnvel fimmtudegi því þá ætti hann eitthvað aðeins betra að gera,” útskýrir hún. “Ef ég væri viðburður væri ég karaoke kvöld á Gauknum.”
Ekki hægt að taka sig of alvarlega sem þjóðfræðingur
Ásamt því að grína með Mið Íslandi í Þjóðleikhúskjallaranum og taka þátt á Húmorsþinginu á Hólmavík hefur Alice verið upptekin við að æfa uppistands beinið enn frekar. Meðal þess sem hún hefur gert er að koma fram á styrktarkvöldi kvennaathvarfsins og viðburði ungra athafnakvenna ásamt því að skemmta í stærðfræðikeppni grunnskólanna.
Á Húmorsþinginu á Hólmavík var Alice einn af fimm skemmtikröftum en hún segir að fjögur af þeim fimm hafi verið þjóðfræðinemar. Aðspurð hvort að þjóðfræði sé svona fyndið fag svarar hún: “já, það er ekki hægt að taka sig of alvarlega sem þjóðfræðingur afþví að fólk gerir stanslaust grín að manni fyrir að vera í þjóðfræði og gerir sér stundum ekki grein fyrir því hvað þetta er erfitt fag.”
En ekki öll kvöld jafnast á við að vinna fyndnasta háskólanemann. “Það var mikill hápunktur að vinna en sum kvöld eru ekki svona. Stundum eru ekki margir áhorfendur eða kannski ekki margir sem tala íslensku eða fíla minn húmor.” Hún segir að í keppninni hafi hún upplifað bestu stemninguna sem hægt er sem uppistandari og að það sé mjög skrítið að byrja ferilinn á svona miklu “ego boosti”. “Fólk var blindfullt, helmingurinn af salnum var skipað til að mæta af kennaranum sínum og þetta var bara óvenjulega góð stemning,“ segir hún hlæjandi.