Innblástur listamanns tölublaðsins : Korkimon
Listafólki er margt til lista lagt. Þau hafa unun á listum. En til þess að geta blásið út þarf listafólk fyrst að fá innblástur. Hér er því listi eftir listamanneskju yfir verk eða listamenn sem hafa veitt henni innblástur undanfarið. Mælt er með við viðkomandi að valið sé eitt verk úr hverjum af eftirfarandi flokkum; tónverk, myndverk, textasmíð, kvikmynd og hönnun - en taumlausum listamönnum í flóknum skóm er þó leyft að fara frjálsum höndum um hvaða listform eru valin til að fylla sætin 5.
Melkorka Katrín eða Korkimon er ung myndlistarkona sem opnaði nýverið sína fyrstu einkasýningu, Metnaðargræðgi, í Geysi Heima og stendur hún yfir til 30. apríl. Hún útskrifaðist úr myndlistarnámi við Sarah Lawrence skólann í New York 2017. Verk hennar eru fjölbreytt, allt frá skúlptúrum yfir í verk unnin úr ljósmyndum, en bera með sér ýmis sameiginleg stíleinkenni. Oft á tíðum eru þau hrá eða ókláraður bragur yfir þeim, og aflagaðir líkamshlutar eru algengt viðfangsvefni.
Glucose Guardian
Kiddi týndi veskinu sínu um daginn þannig ég var að borga allt fyrir hann í svona viku og svo er besta vinkona mín Anna Maggý svakalega dugleg að týna kortinu sínu (hún er búin að fá sjö ný kort á þessu ári) þannig ég borga mjög oft fyrir hana. Grínið hefur þar af leiðandi verið það að ég sé “sugar mama” þeirra, en eftir að ég rakst á þetta meme finnst mér “glucose guardian” miklu betra. Þó að þetta sé “grín” þá er ákveðin alvara í þessu, ég spái mikið í kynjaðri orðræðu og reyni alltaf að nota kyn-hlutlaus orð til þess að jafna hana út. Ég tók eftir að um daginn sendi Stúdentaráð HÍ frá sér fréttatilkynningu varðandi uppfærða titla og starfsheita innan Stúdentaráðs sem mér finnst nauðsynlegt og frábært framtak!
“Virile” - The Blaze
Þetta myndband kom út í janúar 2016 en ég var fyrst að sjá það fyrr í apríl. Ég fýla hvernig vinasambandi þessa tveggja manna er lýst á náttúrulegan og er laus við eiginleika “toxic masculinity.” Lagið er á playlista sem ég er búin að vera að hlusta á upp á síðkastið.
The Pumpkin Eater - Penelope Mortimer
Bókin sem ég er að lesa núna. Ég les alltaf með penna eða blýant á mér til þess að undirstrika setningar sem sitja í mér. Síðan skrifa ég þær allar niður í bók sem ég hef alltaf á mer. Þessar setningar verða oft að titlum á verkunum mínum eða nýttar í skrif um listina mína.
@louisecehofski
Þessi stelpa er að gera góða hluti á instagram. Það er algjör prakkaraskapur og “cheekiness” í því sem hún gerir sem höfðar til mín og ég vinn einnig með.
Fiorucci englarnir
Fiorucci er ítalskt merki sem var stórt á áttunda og níunda áratugnum. Búið var að loka öllum búðunum árið 1989. Mamma mín rakst síðan á Fiorucci búð fyrr á árinu í London, en hún man vel eftir New York búðinni sem er lýst sem “the daytime Studio 54.” Þessir englar voru einkennandi Fiorucci merki og ég varð alveg brjáluð í þá. Þeir minna líka mikið á gamlar glansmyndir sem kennarinn minn í 3. bekk gaf oft út. Ég á núna peysu og málmöskju með englunum og þeir eru einnig bakgrunnurinn á símanum mínum. Ætla að halda áfram að bæta í safnið.