Konan alltaf fyrst og fremst kona

Emily Wilson.jpg

ἄνδρα μοι ἔννεπε, μοῦσα// Sönggyðja, segðu mér frá manni...

Í nóvember síðastliðnum var gefin út ný ensk þýðing á Ódysseifskviðu Hómers. Slíkt er þó varla í frásögur færandi - enskar þýðingar á hinni forngrísku Ódysseifskviðu eru um sjötíu talsins og það var ekki lengra liðið en rúmt ár frá annarri nýrri þýðingu á Ódysseifskviðu. Það sem þykir hins vegar markvert við þýðinguna frá nóvember 2017 er einkum tvennt: í fyrsta lagi þykir hún ,,fersk“ og í öðru lagi er þýðandinn, breski fornfræðingurinn Emily Wilson, kona. Hún er fyrsta konan til þess að þýða Ódysseifskviðu yfir á ensku.

Athyglin sem þýðingin fékk náði langt út fyrir fornfræðiheiminn og var fjallað um hana í blöðum eins og Guardian og New York Times, sums staðar margsinnis. Wilson vann að þýðingunni í fimm ár og við vinnsluna setti hún sér ýmsar skorður. Á grísku er Ódysseifskviða í bundnu máli, bragarhættinum hexameter, og vildi Wilson halda reglubundnum bragarhætti í þýðingunni. Hún gerði það með því að nota jambískt pentameter (e. iambic pentameter) en það þykir falla betur að ensku en hexameter. Mun algengara er að þýðendur þýði snari kviðunni á óbundið mál. Einnig er markvert að þýðing Wilson er nákvæmlega jafnmargar línur og kviða Hómers, en yfirleitt eru þýðingar á kviðunni töluvert lengri en hún sjálf.

 

“Tell me about a complicated man.

Muse, tell me how he wandered and was lost

when he had wrecked the holy town of Troy,

and where he went, and who he met, the pain

he suffered in the storms at sea, and how

he worked to save his life and bring his men

back home. He failed to keep them safe; poor fools,

they ate the Sun God᾽s cattle, and the god

kept them from home. Now goddess, child of Zeus,

tell the old story for our modern times.

Find the beginning.”


 

,,Af hverju hefur það tekið konur svona langan tíma að þýða Ódysseifskviðu?“

Emily Wilson hefur veitt ýmis viðtöl um þýðinguna og það virðist varla bregðast að í hverju viðtali sé fjallað sérstaklega um það að hún sé kona og hvaða áhrif það hafi á þýðingu hennar. Í einu þeirra var hún spurð af áköfum spyrli hvers vegna það hafi tekið svona langan tíma að fá þýðingu á Ódysseifskviðu eftir konu. Þegar Wilson fékk orðið tók hún upp hanskann fyrir kynsystur sínar og nefndi ýmsar ástæður og þær aðstæður sem hafa gert konum erfitt fyrir. Til að mynda það að fáar konur höfðu aðgang að því að læra grísku allt fram á nítjándu og tuttugustu öld, að erfiðara væri fyrir konur að komast áfram í fræðiheiminum og þá væri eins gott að gera eitthvað sem þykir vera fræðimönnum til framdráttar (en þýðingar þykja víst ekki nægilega fræðilegar) og að mikill hluti tíma kvenna fer í að sinna öðru: börnum, foreldrum, heimilisstörfum. Segja mætti að spurning af þessu tagi - hvers vegna það hafi tekið svona langan tíma að fá þýðingu á Ódysseifskviðu eftir konu - geri í raun lítið úr jafnréttisbaráttu kvenna síðustu aldirnar. Svarið við spurningunni liggur vissulega í augum uppi.

Konan er alltaf fyrst og fremst kona

Úr viðbrögðunum við þýðingu Wilson má lesa þá hugmynd að konur hljóti að vera alltaf fyrst og fremst konur, áður en þær geti verið eitthvað annað eins og fræðimaður, stjórnmálamaður, læknir o.s.frv. Svo virðist sem sá eiginleiki, þessi kven-leiki, sé talinn vera öðrum eiginleikum yfirsterkari. Í viðtali við Chicago Review of Books sagði Emily Wilson að það kæmi ekki á óvart hversu margir hefðu spurt hana hvernig kyn hennar hefði áhrif á þýðinguna. ,,Það kemur heldur ekki á óvart, en það veldur miklum vandkvæðum, að næstum enginn (nema ég hingað til!) virðist spyrja karlkyns fornfræðinga og þýðendur hvernig kyn þeirra hafi áhrif á verk þeirra.“

Kyn þýðenda og kvenfjandsamlegar hugmyndir virðast hins vegar vissulega hafa flækst fyrir í sumum þeirra þýðinga sem karlar hafa gert á Ódysseifskviðu hingað til. Wilson hefur sjálf bent á staði í enskum þýðingum kviðunnar þar sem þýðendurnir virðast sjálfir hafa lagt eigin merkingu í hlutlaus grísk orð. Nálægt lokum kviðunnar er frægur kafli ,,Biðlavígin“, þar sem Ódysseifur, sem loksins er kominn aftur heim, drepur biðla eiginkonu sinnar Penelópu. Þegar hann hefur drepið biðlana tekur hann til við að hengja ambáttir heimilisins sem höfðu sofið hjá eða verið nauðgað af biðlunum. Í þeim kafla bendir Wilson á að margir þýðendur innleiði kvenfjandsamleg orð líkt og ,,druslur“ og ,,hórur“ þar sem þau sé ekki að finna í upprunalega textanum.

Emily Wilson sjálf hefur ekki gert lítið úr stöðu sinni sem kona, því sjónarhorni sem það veitir henni eða því að vera móðir og í kynningartextum um hana er jafnan tekið fram að hún eigi þrjár dætur. Segja mætti að hún hafi hálfvegis undirstrikað þá stöðu sína á samfélagsmiðlinum Twitter með því að tísta til dæmis stundum um uppátæki dætra sinna.  Hins vegar má þó velta fyrir sér hvort hún, og aðrar konur, sé ekki orðin þreytt á því að eftir vinnu undangenginna fimm ára (og doktorsprófið sem gerði henni kleift að vinna þýðinguna) sé það að vera kona það sem fólki finnist hún helst hafa fram að færa.