Máltökurannsóknir Sobegga afa

Íslenskuoddur.jpg

Hvenær fóru Íslendingar að skoða barnamál?

Lengi vel var talið að máltaka barna væri auðskýranlegt, og í raun ómerkilegt, viðfangsefni. Börn þóttu tala ófullkomið mál sem væri ekki þess virði að rannsaka. Þetta viðhorf til barnamáls breyttist hins vegar á sjötta áratug seinustu aldar þegar málfræðingar sneru sér að meðfæddri málkunnáttu mannsins. Þá fóru þeir í auknum mæli að skoða máltöku barna sem upphafsstig þessarar innbyggðu málhæfni.

Fyrsta skipulagða máltökurannsóknin á Íslandi var gerð á árunum 1980-1983. Hins vegar mætti segja að áhugi Íslendinga á máltöku barna hafi kviknað þó nokkuð fyrr. Það var nefnilega um 30 árum áður sem rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson hóf óformlegar barnamálsrannsóknir sínar fyrir bókina Sálminn um blómið. Sú bók hefur lengi verið fræg fyrir kostulegar lýsingar á barnamáli en fram að þessu hefur bókin ekki verið skoðuð sem heimild um máltöku íslensks barns.

Máltökurannsóknir Þórbergs Þórðarsonar

„Sjálfsævisögulega“ skáldsagan Sálmurinn um blómið eftir Þórberg Þórðarson kom fyrst út í tveimur bindum á árunum 1954 til 1955. Þar segir frá lítilli stúlku sem heitir Helga Jóna og býr í sömu blokk og Þórbergur, á hæðinni fyrir neðan hann. Í bókinni segist Þórbergur hafa skrifað þessa „dálítið öðruvísi“ bók um Helgu Jónu (sem kallar sig lillu Heggu) að beiðni Guðs. Engu að síður hafi skrifin gengið illa í fyrstu. Hann hafi fljótlega áttað sig á því að til að geta miðlað heimssýn litlu stúlkunnar yrði hann að hugsa og tala eins hún. Í kjölfarið fór hann að fylgjast betur með því hvernig lilla Hegga talaði svo að hann gæti skrifað bók á hennar máli.

Hljóðin (og orðin) í máli lillu Heggu
Fremur en að lýsa tali lillu Heggu skrifar Þórbergur einfaldlega upp það sem hann hefur eftir henni. Hann tekur það reyndar fram að sjálfur eigi hann heldur bágt með að skilja stúlkuna, en að Margrét, eiginkona hans, sé töluvert sleipari í barnamáli. Hún taki jafnframt að sér að túlka orð sem þessi fyrir Þórberg:

(1) Mál Heggu Merking
a. gukka dúkka
b. Sobeggi afi Þórbergur
c. Mammagagga Margrét
d. Ossi afi Bjössi
e. dödö bíll
f. syst þyrst
g. umba drekka

Þórbergur skrásetur þó ekki aðeins orðin hennar lillu Heggu segir heldur einnig heilu setningarnar:

(2) Mál Heggu Merking

a. vuvva uvva hundurinn (voffi?) sefur (lúllar?).
b. Egga la na Hegga litla (er) hérna
c. Oss af eima? (er) Bjössi afi heima?
d. sjonda séppa vonda stelpan
e. a bupp   allt búið.
f. umbasyst   þyrst, vil drekka (mjólk).

Setningarnar sem Þórbergur skráir eru reyndar oft töluvert lengri en þær sem eru hér fyrir ofan, samanber eftirfarandi setningar:

(3) a. Egga la na dödö unda ess   Litla Hegga hérna er að fara út í bíl. Bless.
b. tusta keke á sóra saf tuskan á stóra stafnum flýgur eins og fluga

Eins og sést á áðurnefndum dæmum er samræmi í því sem Þórbergur hefur eftir lillu Heggu. Setningin „Egga la na dödö unda ess“ er meðal annars mynduð úr „Egga la na“ og „dödö“ og orðin „syst“ og „umba“ renna saman í „umbasyst“ og svo framvegis. Þórbergur virðist því hafa vandað til verka þó svo að hann skrifi ekki sérlega fræðilegan texta (hann hvorki hljóðritar orð né greinir þau). Sálmurinn um blómið er heldur ekki fræðigrein heldur skáldsaga.

Þórbergur vinnur hins vegar úr þessu efni á frumlegan máta. Frásögn hans litast nefnilega öll af orðavali, setningargerð og „framburði“ lillu Heggu. Höfundur talar til að mynda aldrei um sjálfan sig sem Þórberg heldur minnist hann aðeins á Sobegga afa. Bókin er þannig að stóru leyti skrifuð á þessu barnamáli:

(4)

„Þar að auki hafði hún þann kost, að þar voru engir dödöar á ferðinni, og það sem mest var um vert: þar lét Vondi skafarinn aldrei sjá sig“ (Þórbergur Þórðarson, 1954, bls. 74).

„Það var talað um róluvöllinn og handriðabrun og teikningar og málaralist, um Biddu systur, sem steldi kleinu frá henni ömmu sinni og stelpuskömmina, sem lemdi lillu Heggu og hann Hauk, sem mígði í hana og skítti á fiðluna“ (Þórbergur Þórðarson, 1954, bls. 211).

Fræðandi og skemmtileg saga

Sálmurinn um blómið er í senn heillandi uppvaxtarsaga lítillar stúlku og áhugaverð heimild um málþroska barna. Þar lýsir Þórbergur Þórðarson ekki aðeins því hvernig lilla Hegga talar heldur skrifar hann stóran hluta bókarinnar á því máli til að veita lesandanum raunverulegri innsýn inn í líf lillu Heggu.

Þórbergur gerðist í raun fyrstur hér á Íslandi til að rannsaka máltökuferlið þar sem viðfangsefnið var ekki orðið jafn vinsælt þá og það varð skömmu síðar. Þrátt fyrir það hefur nær ekkert verið skrifað um Sálminn um blómið í ljósi máltökufræði. Undirritaður hvetur því áhugasama málfræðinga til að skoða mál lillu Heggu betur en hér er gert.