Loftslagsveganismi

Screen Shot 2018-03-19 at 11.25.10.png

Umhverfismál eru brýnustu mál nútímans og sá málaflokkur sem mun hafa hvað mest áhrif á framtíðina. Jarðarbúar standa frammi fyrir loftslagsbreytingum, bráðnun jökla, hækkandi sjávarfalli og uppsöfnun rusls. Ljóst er að af mörgu er að taka þegar kemur að umhverfismálum en mörg þessara vandamála má rekja til sama orsakavaldsins, þ.e. aukins útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Slíkar lofttegundir eru náttúruleg fyrirbæri í lofthjúpi jarðar og í raun mikilvæg forsenda þess að líf þrífist hér á jörðu en það er þessi aukning í losun þeirra sem er áhyggjuefni. Koltvíoxíð hefur aukist um 29% í andrúmsloftinu frá árinu 1750, metan um 143% og nituroxíð um 11%. Þessa aukningu má að mestu leyti rekja til manna og breyttra lifnaðarhátta mannkyns og má þar nefna samgöngumáta, orkugjafa og ekki síst matvæla, þá fyrst og fremst kjötiðnaðarins. Kjötiðnaðurinn veldur mun meiri útblæstri gróðurhúsalofttegunda heldur en framleiðsla á öðrum mat og í raun má rekja 13-18% allrar losunar gróðurhúsalofttegunda til landbúnaðar.

Þessi gífurlega losun á gróðurhúsalofttegundum vegna kjötframleiðslu stafar af margbreytilegum ástæðum, enda er um langt ferli að ræða. Helstu áhrifavaldar eru mikil vatnsnotkun, magn af landi sem fer undir framleiðsluna og mengun.

Vatnsnotkun
Ef litið er fyrst á notkun vatns í kjötiðnaðinum sést það ógrynni af vatni sem fer í framleiðsluna. Notkunin felur í sér vatn fyrir fóðurræktun, vatn sem drykkjarvatn fyrir dýrin, til hreinsunar, og svo framvegis. Sem dæmi má nefna þarf um 20.200 lítra af vatni í framleiðslu á einu kílói af nautakjöti en til samanburðar þarf um 2.050 lítra í framleiðslu á einu kílói af tófú. Því er talið að einstaklingur sem gerist grænkeri (e. vegan) spari plánetunni um 829.000 lítra af vatni árlega.

Landneysla
Annar óumhverfisvænn vinkill á kjötneyslu er magnið af landi sem fer undir iðnaðinn. Í Bandaríkjunum einum og sér eru rúmir 227.000 km2 lands eingöngu notað í fóðurræktun og til samanburðar eru einungis 16.000 km2 notaðir í grænmetisræktun fyrir fólk. Að leggja slíkt land undir kjötframleiðslu er einstaklega óhagkvæmt og talið er að það taki um tuttugu sinnum minna land að fæða aðila sem er grænkeri heldur en kjötætu. Það er vegna þess að sá aðili neytir uppskerunnar milliliðalaust á meðan kjötframleiðsla ber með sér fæðukeðju þar sem okra tapast í hverju skrefi.

Mengun
Mikil mengun fylgir kjötiðnaðinum og er hún af ýmsum toga. Einn af þáttunum er magn saurs sem fylgir dýrum en vegna skorts á skólpúrræðum er það iðulega geymt í svokölluðum „úrgangslónum”. Leki úr slíkum lónum er einn helsti valdur mengunar í ám og stöðuvötnum Bandaríkjanna. Lónin bera með sér bakteríur og verða oft til mengunar á drykkjarvatni.

Að sjálfsögðu eru upptalin atriði ekki tæmandi listi yfir óumhverfisvæna vinkla kjötiðnaðarins en ljóst er að afleiðingar hans eru miklar. Til samanburðar á áhrifum kjötframleiðslu við aðra lifnaðarhætti okkar má nefna að á meðan flestar rannsóknir benda til þess að 13-18% losunar gróðurhúsalofttegunda eru vegna landbúnaðar eru 13% þeirra af völdum allra samgangna í heiminum. Landbúnaður skilur þannig eftir sig stærra spor á jörðinni heldur en allar samgöngur samanlagt. Sífellt fleiri stofnanir hamra á mikilvægi veganisma og telja hann helsta þáttinn sem kemur í veg fyrir ofgnótt losunar gróðurhúsalofttegunda.

Screen Shot 2018-03-19 at 11.23.28.png

Huga þarf að heildarvistspori - ýkingar hjálpa engum
Ljóst er að ef lögum yrði breytt og lagst yrði í stórtækar breytingar á matvælaframleiðslu um heim allan, með það að markmiði að útrýma kjöt- og dýraafurðaframleiðslu á mat, gæti það haft umtalsverð áhrif á útblástur gróðurhúsalofttegunda. En getur ein manneskja haft einhver raunveruleg áhrif með því að hætta kjötáti?

Heimildamyndir á borð við Cowspiracy og What the Health hafa fýrt upp í fjölda fólks og fengið það til að líta öðrum augum á mataræði sitt, annars vegar með tilliti til umhverfisáhrifa og hins vegar til næringar. Verst er að í myndunum er farið heldur frjálslega með staðreyndir, sem grefur undan málstaðnum. Það er nefnilega alveg satt að kjötframleiðsla veldur mun meiri útblæstri gróðurhúsalofttegunda heldur en framleiðsla á öðrum mat. Vandamálið er að þegar myndin Cowspiracy vill til dæmis rekja hátt í 50% allrar losunar slíkra lofttegunda til kjötframleiðslu á einhvern hátt, er hlutfall slíkrar framleiðslu af heildarútblæstri gróðurhúsalofttegunda í raun nær 10-15%. Það er umhugsunarvert að aðstandendur kvikmyndarinnar hafi ákveðið að leggja slíka áherslu á tölfræði úr einni rannsókn sem er svo langt frá því að vera í takt við aðrar rannsóknir, þegar viðurkennda hlutfallið er svo gríðarlega hátt hvort sem er. 50 prósenta fullyrðingin gæti þvert á móti hvatt fólk til þess að sleppa því bara að borða dýraafurðir og láta þar við sitja í baráttunni við gróðurhúsaáhrifin, þegar langmestu skaðvaldarnir eru enn þættir á borð við notkun kola og gass við orkuframleiðslu (sem Íslendingar þurfa reyndar lítið að hafa áhyggjur af), útblásturs bíla og annarra farartækja.

Vilji maður hætta neyslu dýraafurða vegna umhverfisáhrifa, fremur en samúðar, er mikilvægt að gæta að því hvers er neytt í staðinn. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt fram á að umhverfisávinningur af „grænni“ neyslu sé lítill sem enginn; „grænir“ og „brúnir“ neytendur mælast iðulega með svipað vistspor. Ástæðan virðist vera sú að neyslan eykst eftir því sem hún verður grænni. Fólk fer þá ef til vill oftar í frí til útlanda, með tilheyrandi flugvélakolefnisspori, þótt það borði mestmegnis mat sem er án dýraafurða og framleiddur innanlands. Á Íslandi er einmitt sérstaklega mikilvægt að reyna að neyta sem mest matar sem er ræktaður eða framleiddur hér á eyjunni, þar sem kolefnisspor allra aðfluttra vara er mjög stórt.

Þó að ákveðnir stjórnmálaflokkar berjist á öðrum „röngum“ forsendum fyrir því að hömlur séu settar á innflutning neysluvöru sem hæglega má framleiða hér á landi, þá hafa þeir mikið til síns máls. Frá umhverfisverndarsjónarmiði væri best að skerða sem mest innflutning neysluvöru, þar sem skipin og flugvélarnar sem flytja vörurnar hingað til lands eru gríðarstór þáttur í útblæstri gróðurhúsalofttegunda af völdum Íslendinga. Ekki má þó gleyma að helstu útblásturssökudólgarnir hér á landi eru gúmmífættir fararskjótar okkar, ásamt álverunum okkar góðu og öðrum iðnaði.

Eflaust er mjög gagnlegt að minnka neyslu dýraafurða í baráttunni við gróðurhúsaáhrifin. Ef nægilega margir gera það getur það jafnvel haft einhver sýnileg áhrif. Þá verður þó líka að gæta að annarri neyslu. Það hjálpar lítið að sleppa hamborgara framleiddum hér á landi ef maður fær sér kjötlíkisborgara frá Hälsans Kök í staðinn sem framleiddur er í Ísrael og fluttur þaðan til landsins (burtséð frá siðferðisvandanum við að versla við Ísrael yfir höfuð). Við skulum bara binda vonir við það að útreikningur sótspors þess sem við neytum verði auðveldari í nálægri framtíð svo það verði auðveldara að gera grein fyrir því hvort lífsstíll okkar geti mögulega haft áhrif. Þá eigum við ekki lengur eins auðvelt með að flýja hárbeitt samviskubitið sem fylgir vitneskjunni um framleiðsluferli nýja snjallsímans okkar.