Mikið álag og lág kjör fráhrindandi
Yfirvofandi kennaraskortur er ein stærsta áskorun stjórnvalda þegar kemur að menntamálum. Kennaranemum hefur fækkað mikið síðustu ár en spár gera ráð fyrir að eftir tólf ár fáist ekki menntaðir kennarar í helming stöðugilda í grunnskólum Reykjavíkur. Þá hefur forseti kennaradeildar Háskóla Íslands, Baldur Sigurðsson, sagt að skólakerfið verði orðið óstarfhæft eftir tíu til tuttugu ár ef ekkert verður að gert.
Ljóst er að háskólarnir ná ekki að brautskrá nægilega marga kennara til að viðhalda eðlilegri nýliðun í kennarastéttinni. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir væntanlegan kennaraskort vera stærsta mál sitt á þessu kjörtímabili. Mennta- og menningarmálaráðuneytið verður að gera allt sem í valdi sínu stendur til að marka skýra stefnu um eflingu kennaramenntunar og stuðla að auknum gæðum kennslu á öllum skólastigum.
Aðsókn hrundi þegar námið var lengt
Eftir að kennaranám var lengt árið 2009 úr þremur árum í fimm minnkaði aðsókn talsvert. Kennaranemar voru flestir árið 2002 en þá komust færri að en vildu. Síðan þá hefur þeim fækkað og staðan varð grafalvarleg þegar námið var lengt í fimm ár árið 2009. Nýnemar í kennaranámi árið 2016 voru 60% færri en fyrir lengingu. Þess má þó geta að aðsókn í kennaranám við Háskóla Íslands jókst um 30% í ár en meira þarf ef duga skal. Árið 2017 sóttu 134 um nám við kennaradeild samanborið við 103 árið 2016.
Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að stjórnvöld hafa ekki hugað nægilega vel að dvínandi aðsókn í kennaranám og aðsteðjandi hættu á kennaraskorti. Þá kemur einnig fram í sömu skýrslu að auk kennaraskorts getur fækkun kennaranema haft í för með sér minni möguleika á sérhæfingu í kennaranámi og þar með einsleitari menntun þeirra. Það getur svo leitt til minni gæða í skólastarfi og haft slæm áhrif á námsárangur barna og unglinga.
Um helmingur menntaðra grunnskólakennara er við kennslustörf í grunnskólum landsins
Þá er talið að einungis um helmingur menntaðra grunnskólakennara sé við kennslustörf í grunnskólum landsins. Kennaraskortur verður því ekki einungis leystur með fjölgun kennaranema. Það þarf að bæta starfskjör og starfsvettvang kennara.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að mikilvægt sé að laða að menntaða kennara, ekki síst þá sem yngri eru, til starfa við skólana og búa þannig um hnútana að þeir endist í starfi. Þannig nýtist sú fjárfesting sem felst í menntun þeirra væntanlega best.
Í svari Háskóla Íslands kemur fram að ástæðan fyrir minnkandi aðsókn í kennaranám sé ekki aðeins að leita í menntuninni sjálfri heldur verður að horfa á málið í stærra samhengi. Þar kemur fram að skýrasti vitnisburður um áhrif þessa er sá mikli fjöldi brautskráðra kennara sem skilar sér ekki í skólana heldur leitar í aðrar atvinnugreinar. „Nauðsynlegt er að menntamálayfirvöld, sveitarfélög og háskólar vinni sameiginlega að umbótum á þeim vanda.”
Einungis þriðjungur leikskólakennara menntaður
Samkvæmt tölum frá Ríkisendurskoðun er um þriðjungur stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í leikskólum nú skipaður leikskólakennurum en lög kveða á um að þeir skuli að lágmarki vera tveir af hverjum þremur. Í desember 2015 störfuðu 1.758 menntaðir leikskólakennarar í leikskólum en 2.992 leyfisbréf hafa verið gefin út til þeirra frá árinu 2009. Ljóst er því að fjölmargir leikskólakennarar starfa heldur ekki við fag sitt.
Í 9. gr. laga nr. 87/2008 segir: „Að lágmarki 2/3 stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skulu teljast til stöðugilda leikskólakennara“. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Hagstofu Íslands voru menntaðir leikskólakennarar um 32,2% starfsmanna við kennslu, umönnun og uppeldi barna í leikskólum árið 2015 og hafði þeim fækkað um 202 frá árinu 2013 þegar þeir voru flestir.
Ófaglærðum starfsmönnum við leikskóla landsins hefur aftur á móti fjölgað stöðugt frá árinu 2011. Í desember 2015 skipuðu þeir um helming stöðugilda (49,3%) við uppeldi og menntun leikskólabarna.
Nauðsynlegt að kennarar einblíni fyrst og fremst á kennslu
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir í samtali við Stúdentablaðið að yfirvofandi kennaraskortur sé ein stærsta áskorunin sem hún standi frammi fyrir í embætti. Þá segir hún að aðgerða sé að vænta.
„Við erum búin að fá tillögur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, menntavísindasviði Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og kennaraforystunni. Nokkrar tillögur hafa litið dagsins ljós,” segir hún.
Nefnir hún þá tillögu að setja inn hvata sem tengjast endurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna með þeim hætti að tímabundið myndi lán breytast í styrk. Önnur tillaga er að hluti af meistaranáminu, fimmta og síðasta árið, verði launað vettvangsnám.
Þá segir hún mikilvægt að skilgreina betur hlutverk kennarans. „Það eru búnar að vera miklar samfélagslegar breytingar. Til að mynda má nefna mikla fjölgun varðandi alls konar greiningar og annað slíkt hjá börnum og það er alveg ljóst að við þurfum að styðja kennara betur hvað þetta varðar. Það er það sem stendur uppi úr í samtali mínu við kennara hvað það er gríðarlegt álag í starfi. Þeir vilja kenna en ekkert endilega gegna öllum þessum hlutverkum sem þau eru þjálfuð í að gera. Ég er sammála þeim. Það þarf að styrkja þetta umhverfi kennara og að þeir einblíni fyrst og fremst á kennslu,” segir hún.
Háskóli Íslands hefur lagt ríka áherslu á að laða nýnema að
Í svari Háskóla Íslands við ábendingum Ríkisendurskoðunar segir að Háskóli Íslands hafi á síðustu árum lagt ríka áherslu á að laða nýnema að kennaranámi við skólann. „Í því skyni var meðal annars efnt til viðamikillar auglýsingaherferðar vorið 2015, auk þess sem kennaranámið hefur verið kynnt sérstaklega í tengslum við Háskóladaginn.”
Þá kemur fram að árið 2015 hafi farið fram úttekt alþjóðlegra sérfræðinga á árangri sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands árið 2008 og stöðu kennaranáms við hinn sameinaða háskóla. „Í kjölfarið var hafin endurskoðun á skipulagi námsins og um þessar mundir er unnið að áætlun um frekari eflingu þess. Skilgreindar verða aðgerðir til að fjölga nýnemum (m.a. afburðanemendum og starfsfólki í skólum sem er án kennsluréttinda), draga úr brottfalli og auka stuðning við starfandi kennara og möguleika þeirra til símenntunar að námi loknu.” Áætlað er að kynna þessar aðgerðir á þessari önn.
Launin eiga snaran þátt í að ungt fólk sækir ekki í kennslustörf
Ragnar Þór Pétursson, sem tekur við formennsku í Kennarasambandi Íslands í apríl, hefur ítrekað sagt að bæta þurfi laun og starfsskilyrði ef það á að sporna við brotthvarfi úr kennarastéttinni. Laun íslenskra kennara hafa lengi verið með þeim lægstu innan OECD.
Í könnun sem gerð var á meðal útskriftarárganga úr kennaranámi HÍ og HA árin 2000 til 2012 kemur fram að innan við 10% þeirra sem hafa réttindi til að kenna í grunnskólum landsins en kjósa að starfa á öðrum vettvangi telja einhverjar líkur á að snúa aftur til kennslu á næstu tveimur árum. Í könnuninni kemur fram að 49% þeirra sem útskrifuðust úr kennaranámi á þessum árum hafa ekki starfað við kennslu að námi loknu. Af þeim segja 75% að launakjör hafi haft mikil áhrif á ákvörðun sína og 64% nefndu vinnuálag sem áhrifaþátt.
Laun kennara eru lág í samanburði við laun annarra launþega í fullu starfi með svipaða menntun. Það á snaran þátt í því að ungt fólk sækir ekki í kennslustörf. Þótt laun hækki eftir því sem ofar er komið í menntakerfinu eru þau engu að síður aðeins um 78% til 94% af launum fólks í fullu starfi með háskólamenntun.
Þá má geta þess að ef miðað er við neysluviðmið velferðarráðuneytisins geta grunn- og leikskólakennarar á höfuðborgarsvæðinu ekki lifað eftir hefðbundnum framfærsluviðmiðum. Kennarar, sem hafa vel að merkja lokið fimm ára háskólanámi, neyðast til að lifa eftir lágmarksviðmiðum til að ná endum saman.