Fagráð um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni, og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi

DSC00539.jpg

Árið 2014 var stofnað fagráð um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni innan Háskóla Íslands, þar sem einnig er tekið á kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Hlutverk fagráðsins er að taka til meðferðar mál sem varða slík brot starfsmanna eða nemenda Háskóla Íslands. Formaður þess skal vera einstaklingur sem hefur fagþekkingu og reynslu af þess háttar málum en er ekki fastráðinn við Háskóla Íslands. Núverandi formaður er Þóra Sigfríður Einarsdóttir sálfræðingur sem er sérhæfð í áfallamálum en hún starfaði auk þess í Barnahúsi í mörg ár. Auk hennar skipa ráðið Brynhildur G. Flóvenz úr lagadeild HÍ og Ragnar Pétur Ólafsson frá heilbrigðisvísindasviði HÍ. Þar sem hann er í námsleyfi situr Henry Alexander Henrysson í hans stað. Stúdentablaðið ræddi við Þóru Sigfríði Einarsdóttur, formann fagráðsins.

Tölfræðilega séð á að koma upp ákveðinn fjöldi af kynferðismálum í Háskólanum
,,Fagráðið var stofnað með það fyrir augum að vera farvegur fyrir mál sem varða kynbundna og kynferðislega áreitni, og kynbundið og kynferðislegt ofbeldi. Reynslan sýnir okkur að ef það er ekki einhver farvegur til staðar, þá týnast þessi mál oft. Tölfræðilega séð á að koma upp ákveðinn fjöldi af svona málum í Háskólanum, rétt eins og öllum öðrum samfélögum. Tölfræðin sýnir okkur að 20% kvenna verður fyrir einhvers konar kynferðislegri áreitni eða kynferðislegu ofbeldi og um 10% karla. Miðað við stærð háskólasamfélagsins ætti það að vera töluverður fjöldi mála sem á sér í stað. Fagráðið hefur hins vegar ekki séð nema brotabrot af því og það eru allar líkur á að það séu einhvers konar atvik að eiga sér stað sem koma ekki upp á yfirborðið.

Á því eru alls konar skýringar. Það virðist líka bara alltaf vera erfitt fyrir þolanda að stíga fram. Það getur verið af ýmsum ástæðum. Í háskólasamfélaginu er mikill valdamismunur á mörgum stöðum, til dæmis í hinu nærtæka dæmi um kennara og nemanda. Valdamismunurinn er einnig hjá starfsmönnum – flestir starfsmenn eiga einhvers konar yfirmann. Alls staðar þar sem það er einhvers konar misræmi í valdajafnvægi, er góður jarðvegur fyrir þessa gerð af ofbeldi.“

Allt gert til þess að tryggja hagsmuni þess sem leitar til fagráðsins
Þeir sem lent hafa í slíku eru hvattir til þess að leita til fagráðsins. ,,Í raun og veru er best fyrir viðkomandi að leita beint til fagráðsins en netfang þess er fagrad@hi.is. Ég fæ þann póst, enginn annar fær hann. Einnig væri hægt að snúa sér beint til mín og senda póst á thora@dmg.is. Þetta er beinasta leiðin en einnig er hægt að snúa sér til deildarforseta í sinni deild eða jafnréttisráðs sem myndi aðstoða viðkomandi við að koma málinu áfram.

Það fyrsta sem gerist þegar ég fæ póst eða símhringingu er að ég hef samband við viðkomandi og fæ aðeins að heyra um málavexti. Ef ástæða þykir til myndi ég boða hann á fund til fagráðsins þar sem hann gæti sagt okkur nánar frá málavöxtum.

Hægt er að fara fleiri en eina leið – það er hægt að fara í svokallað ,,formlegt ferli“. Þá myndi viðkomandi leggja inn kvörtun sem fæli að öllum líkindum í sér að kallað yrði á þann sem kvartað er yfir. Stundum þarf kannski að kalla fleiri til, ef það hafa verið vitni eða eitthvað slíkt. Ef í málinu hafa verið einhver gögn, tölvupóstar eða myndir, myndum við biðja um það en það væri auðvitað engin skylda að afhenda þau. En við biðjum um allt sem gæti hjálpað okkur að komast að einhvers konar niðurstöðu.

Ef mál er í formlegu ferli er viðkomandi deildarforseti eða deildarforsetar, ef aðilar eru úr hvor sinni deildinni, alltaf látnir vita. Það er gert til þess að það sé hægt að gæta hagsmuna þess sem leggur fram kvörtunina. Ef þetta væru kennari og nemandi væri til dæmis reynt að gæta þess að nemandinn yrði ekki fyrir neinni neikvæðri mismunun í kjölfar kvörtunarinnar. Það er auðvitað það sem nemendur eru oft hræddir við. Auðvitað hafa þeir áhyggjur af því hvaða áhrif það hefur á námsmat og annað að stíga fram. Ef um alvarlegt atvik er að ræða þarf kennari ef til vill að víkja á meðan málsmeðferð stendur. Ef um tvo nemendur er að ræða, sem eru kannski í sömu kúrsum, getur þurft að hagræða því ef þolanda finnst erfitt að vera í tímum eða hópvinnu með þeim sem kvartað er yfir. Þetta myndi gerast í formlegu ferli. Svo færi fagráðið yfir gögn í málinu, kæmist að einhvers konar niðurstöðu og sendir það til viðkomandi deildar eða deilda, og málsaðila.

Reglan er, og það er tekið mjög skýrt fram í verklagsreglum fagráðsins, að öll svona afskipti eru gerð með óskir þolanda í huga og með hans hagsmuni í fyrirrúmi.“

Hugsanlegar niðurstöður
,,Ég hef í raun verið að tala um mál sem eru ekki sakamál vegna þess að það eru mjög mörg mál sem eru áreitnismál en í raun og veru ekki sakamál. Ef um sakamál er að ræða myndum við alltaf hvetja til þess að það yrði einnig leitað til lögreglu. Um leið væri reynt að gæta hagsmuna viðkomandi í skólanum vegna þess að við vitum að svona rannsóknir geta tekið langan tíma. Þannig gæti fagráðið unnið með þeim sem kvartar ef um er að ræða sakamál.

Ef málið er ekki saknæmt geta niðurstöður verið margvíslegar. Allt frá því að athuga hvort sá sem kvartað er yfir sé tilbúinn til þess að koma til móts við óskir þess sem kvartaði, víkja úr tímum eða eitthvað slíkt. Í alvarlegustu tilvikum gæti málið leitt til einhvers konar áminningar. Niðurstaða fagráðsins er hins vegar alltaf bara leiðbeinandi, ráðið hefur ekki ,,vald“ til að áminna heldur getur það einungis komið með tilmæli til deildarinnar. Til dæmis að þess sé gætt að kennari og nemandi séu ekki á sama stað eða kennari kenni ekki nemanda og svo framvegis.“

Fjöldi mála sem fagráðið hefur sinnt
,,Málafjöldi er mismunandi eftir árum. Í augnablikinu erum við að vinna í þremur málum sem er svolítið mikið. Maður hefur það á tilfinningunni að fagráðið sé kannski að verða þekktara og þá fjölgar málum auðvitað, sem er það sem við viljum.

Frá 2014 hafa okkur borist ellefu mál, það er, ellefu mál sem hafa málsnúmer. Við höfum auðvitað fengið fullt af fyrirspurnum og slíku en þær fá ekki endilega málsnúmer. Tvö af þessum málum komu til okkar eftir #metoo-byltinguna og tengjast henni því í raun.“

Mikilvægt að stíga fram
Þóra segist vilja segja að lokum að hún skilji það vel að nemendur óttist að stíga fram þar sem þeir séu hræddir við afleiðingarnar. ,,Okkur hefur hins vegar tekist að leysa farsællega úr flestum málum. Viðhorfið í samfélaginu hefur breyst mikið. Ég held að fólk þurfi ekki að óttast það jafnmikið og það gerir að stíga fram. Það er bara svo ofboðslega mikilvægt að gera það. Við vitum líka að þrátt fyrir að kynferðisofbeldi og kynferðisleg áreitni séu algeng, þá er það ekki endilega meirihluti fólks sem stundar slíka hegðun. Oft á sá sem kvartað er yfir sögu um fleiri slík tilvik. Ég er viss um að þið þekkið til einhverra ákveðinna kennara eða nemenda sem eru þekktir fyrir að koma með skrítnar athugasemdir eða vera óviðeigandi, en enginn stígur fram. Ég held hins vegar að umræða eins sú sem og fylgdi #metoo minnki þolið gagnvart svona hegðun, sem er frábært. Vonandi verða alltaf fleiri og fleiri sem stíga fram.“