Að vera sjúklega ástfanginn
Átak til að vekja athygli ungmenna á einkennum heilbrigðra, óheilbrigðra og ofbeldisfullra sambanda var sett á laggirnar í upphafi árs. Stígamót standa fyrir átakinu og nefnist það Sjúk ást. Titillinn er tvíræður, annars vegar er hin jákvæða merking þess að vera sjúklega ástfangin/-ið/-inn dregin fram og allt hið fallega sem snýr að kærleika og væntumþykju, en hins vegar stendur titillinn fyrir óheilbrigt ástand, það að vera ,,sjúklega” ástfangin/-ið/-inn.
Á vefsíðu átaksins, www.sjukast.is, má nálgast alls kyns fróðleik um heilbrigð og óheilbrigð sambönd, kynlíf, mörk, jafnrétti og fleira. Þar er einnig að finna undirskriftasöfnun þar sem skorað er á menntamálaráðherra að ,,beita sér fyrir öflugri og markvissri kynfræðslu á öllum skólastigum“. Steinunn Ólína Hafliðadóttir, verkefnastýra hjá Stígamótum, er nemandi í íslensku við Háskóla Íslands. Hún hefur unnið hörðum höndum að því að koma átakinu á laggirnar ásamt Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur og Heiðrúnu Fivelstad. Stúdentablaðið hitti Steinunni Ólínu og fékk betri innsýn í vitundarvakninguna Sjúk ást.
„Sjúk ást er vitundarvakning um heilbrigð samskipti og einkenni ofbeldissambanda. Með sköpun vefsíðunnar höfum við verið að miða að því að upplýsingar um óljós mörk heilbrigðis og óheilbrigðis séu aðgengilegar.“ Steinunn segir mikilvægt að ungmenni hafi greiðan aðgang að upplýsingum sem þau geti samsamað sig við og áttað sig þannig á því hvað er rétt og hvað er rangt. Grunn- og framhaldsskólar landsins veiti sjaldan slíka fræðslu og því þarf að breyta: „Við viljum sjá félagslegri vinkil á kynfræðslu. Við viljum að börn og ungmenni fái fræðslu um heilbrigð og óheilbrigð samskipti, fái að læra um mörk, traust og virðingu, birtingarmyndir ofbeldis og fleira.“ Steinunn segir hræðsluáróður í kynfræðslu vera algengan og afar varhugaverðan: „Það fá auðvitað ekki allir eins kynfræðslu en í mínu tilviki var fræðslan byggð á hræðsluáróðri. Maður fékk að sjá einhverjar súmmaðar myndir af sýktum kynfærum og maður leit undan, kúgaðist einfaldlega. Okkur var sagt að við yrðum að nota smokkinn, annars yrðum við svona. Aldrei var rætt neitt sérstaklega um að kynlíf væri gott og engin hinsegin fræðsla var til staðar í mínu tilviki. Þegar við byrjuðum í þessu verkefni vorum við með rýnihópa og ég bjóst við því að mín saga væri gamaldags en svo kom í ljós að stelpur í tíunda bekk höfðu svipaða sögu að segja.“
Þrátt fyrir að ýmsar góðar áætlanir séu til um fyrirtaks kynfræðslu er þeim því miður ekki alltaf fylgt eftir. „Gagnrýni hefur komið frá þeim sem eru ekki sammála því að það vanti kynfræðslu. Skólar eiga að fara eftir ákveðinni reglugerð sem segir þeim hvað á að kenna. Í reglugerðinni er ýmislegt gott en það er bara spurning hvort það sé misjafnlega staðið að því að framfylgja henni. Auðvitað erum við öll að vinna að sama markmiði en skólakerfið er undirfjármagnað og það þarf að vekja athygli á kostum bættrar kynfræðslu. Við færum vitanlega ekki út í þetta átak nema vegna þess að það þarf svo sannarlega að bæta þá fræðslu sem börn fá um náin samskipti. Við erum búnar að kanna þá kynfræðslu sem er til staðar og niðurstaða okkar er sú að það er lögð miklu meiri áhersla á líffræðilegan þátt kynfræðslu en á þann félagslega.“ Steinunn segir mismunandi hvers konar kynfræðslu ungmenni fá: „Þó að allir meini vel þá er það sár staðreynd að það fer eftir skólahjúkrunarfræðingi í hverjum skóla fyrir sig, umsjónarkennaranum og foreldrunum hvaða barn fær hvaða fræðslu. Börn eiga að koma út úr menntakerfinu með sömu upplýsingar um kynlíf, samskipti, virðingu og þess háttar. Þó að sumum gangi kannski vel þá sigrar það ekki málstaðinn.“ Kynfræðsla þarf heldur ekki að vera kynferðisleg: „Varðandi svona fræðslu þá er hægt að koma inn fræðslu á skólastigin án þess að fræðslan snúist um eitthvað kynferðislegt. Það vantar alveg fræðslu um mörk og nánd. Ég held að það myndi bæta ýmislegt.“
Jafnvel þó að einhverjar gagnrýnisraddir hafi komið upp eru viðbrögðin mestmegnis jákvæð. „Viðbrögðin hafa verið betri en ég bjóst við, bæði frá ungmennum og eldra fólki. Eldra fólkið segir gjarnan að það hefði óskað þess að upplýsingar eins og þær sem við erum með á vefsíðunni hefðu verið til staðar þegar það var yngra.“ Steinunn segir gleðiefni að boðskapur átaksins sé nú þegar að breiðast út og hafi jafnvel náð til ungmenna sem virkilega þurftu á honum að halda: „Um daginn kom til mín stelpa sem hrósaði okkur og sagði að við værum allavega búnar að bjarga einni manneskju. Þá þekkti þessi stelpa strák og þessi strákur hafði verið í sambandi og orðið vitni að umræðunni og vefsíðunni. Það varð til þess að hann áttaði sig á að hann væri í ofbeldissambandi og ákvað að slíta því. Það vantaði, fyrir hann til dæmis, að fá staðfestingu á því að sambandið hans væri ekki heilbrigt. Við könnumst flest við að halda að maður sé bara að gera of mikið úr öllu en um leið og maður fær staðfestingu á því að það séu aðrir að pæla í sömu hlutum þá öðlast maður kjark til að segja stopp. Fólk stendur með þér ef þú segir stopp. Fólk skilur.“
En hver er helsta orsök þess að ofbeldi kemur fram í nánum samböndum ungmenna? Steinunn segir ýmsa þætti skipta máli en samfélagið og skilaboð þess séu stór þáttur: „Sýn okkar á sambönd er svolítið brengluð. Ég held hún sé helst brengluð vegna miðlanna sem við horfum á. Ég man eftir því þegar ég var á miðstigi eða unglingastigi í grunnskóla og það voru allir að horfa á Gossip Girl. Þar var einhver gæi með kjálkabein og hann var sætasti gæinn og hann átti kærustu og svona. Samskiptin sem voru sýnd á milli þeirra, sem dæmi, voru andlegt og líkamlegt ofbeldi, þar var að finna niðurlægingu og kúgun. Börn sem horfa á sambærilegt efni og sjá sæta stelpu og sætan strák í sambandi sjá hvernig það fer fram. Þau geta fylgst með óheilbrigðu sambandi og hugsað; „já, þetta er eðlileg framvinda í sambandi“. Svo fara þau kannski sjálf í sambönd og fatta einhvern veginn ekki ef framvindan er óheilbrigð.“ Fræðsla er besta forvörnin gegn óheilbrigðum samböndum að mati Steinunnar: „Ég held að skortur á fræðslu og brenglaðar birtingarmyndir sambanda geti leitt af sér að ungmenni haldi að ýmislegt sé í lagi sem er ekki í lagi, og að þau gangi yfir mörk hvert hjá öðru án þess að vita það. Einfaldlega af því að þau vita ekki betur. Maður sér þetta svolítið í klisjunni um gömlu kærustuna sem „treystir“ kærastanum en ekki vinkonum hans og vill því einoka hann. Það er dæmi um hegðun sem er óheilbrigð en samt sem áður samfélagslega samþykk. Ég held að börn skynji svona klisjur mjög fljótt og telji svona hegðun eðlilega.“
Þegar síðan sjukast.is er skoðuð er athyglisvert að sjá notkun íslenskunnar. Karllægni virðist vera kippt út úr málinu eins og hægt er og enginn er útilokaður. Þegar Steinunn er spurð út í þetta hlær hún og hristir hausinn, þetta var greinilega ekki einfalt mál. „Íslenska er svo karllægt tungumál að stundum leið mér bara eins og fávita að vera að skrifa ýmislegt þegar ég var að vanda mig við að minnka karllægnina. Það hljómaði eitthvað svo vitlaust þótt það væri það vissulega ekki. Við pössum auðvitað upp á að enginn sé útilokaður. Á síðunni notum við einfaldlega orðið „maki“ en mörgum finnst það eflaust svolítið fullorðinslegt. Það var samt einfaldara en að tala um kærustuna, kærastann eða kærastið. Þessi bévítans íslenska er allt of gegnumsýrð af karllægni. Við reyndum allavega okkar besta til að sjá til þess að allir væru með. Maður skilur ekki alveg af hverju það er svona erfitt að taka öll kynin til greina. Bara það að hætta að tala um „bæði kynin“ og fara þess í stað að tala um „öll kynin“ breytir miklu og tekur alla til greina en ekki flesta.“
Hinsegin sambönd eru sérstaklega tekin fyrir á vefsíðu verkefnisins. Steinunn segir ástæður þess vera einfaldar: „Ofbeldi í gagnkynhneigðum samböndum og ofbeldi í hinsegin samböndum þarf í raun ekki að vera neitt ólíkt. Í hinsegin samböndum þarf samt sem áður að taka til greina að samkynhneigð er enn þá tabú í samfélaginu og því er hægt að nota það gegn einstaklingi, til dæmis með því að hóta maka sínum að segja frá því að hann sé samkynhneigður ef hann hættir með viðkomandi. Aðili í hinsegin sambandi getur sömuleiðis vanvirt hina manneskjuna með því að nota ekki rétt fornafn yfir hana eða að gera einhvern veginn lítið úr maka út frá kynhneigð hans. Það er auðvitað ekki eitthvað sem gagnkynhneigð pör upplifa, ef stelpa ætlar að fara frá strák þá getur hann ekki hótað henni með því að hún sé gagnkynhneigð. Það liggur ekki eins mikið tabú þar. Okkur fannst gott að taka hinsegin sambönd sérstaklega fyrir svo fólk geti séð titilinn og kannski tengt við hann. Þótt ofbeldið geti verið af sama meiði þá eru þessi sérstöku atriði í hinsegin samböndum sem þarf líka að bera kennsl á.“
Þrátt fyrir að átakið sé undir formerkjum Stígamóta er ekki mögulegt fyrir ungmenni sem eru yngri en 18 ára að leita þangað áður en þau hafa leitað til sérstakra stofnana sem ná til barna. „Þegar við vorum að hefja herferðina fannst okkur þetta ákveðinn galli, hún snýr að 13-20 ára ungmennum en þau geta í raun ekki leitað til Stígamóta. Við höfum verið að benda á Barnahús og barnaverndarnefnd fyrir þau sem eru yngri en 18 ára. Málið er bara að ungmenni, sem eru 15 eða 16 ára, horfa ekkert á sig sem börn. Ef þú ert fimmtán ára og lendir í ofbeldissambandi langar þig kannski lítið að fara í eitthvað barnahús þar sem þú lítur varla á þig sem barn. En svona er þetta auðvitað, ef þú ert yngri en 18 ára þá ertu strangt til tekið barn og barnaverndarnefnd þarf að koma að málinu. Við sjáum á Stígamótum að 70% þeirra sem sækja til Stígamóta hafa orðið fyrir ofbeldi fyrir 18 ára aldur svo að ofbeldið er greinilega oft að byrja snemma. Þess vegna er mjög mikilvægt að reyna að ráðast á ofbeldið snemma.“
Femínismi er að sjálfsögðu nátengdur verkefninu og segir Steinunn femínisma vera grundvöll vitundarvakningar sem þessarar. „Vitanlega tengist femínismi því að komið sé fram við alla af virðingu og allir fái sömu tækifæri. Jafnrétti er leiðarljósið. Það sem við viljum gera er að vekja athygli á ójafnrétti, og vonandi breyta því, og þar er femínismi vissulega að verki. Á síðunni fjöllum við bæði um femínisma og aktívisma af því að við vildum líka sýna fólki að það er töluvert auðveldara að hafa áhrif en maður heldur. Það að vera aktívisti þarf ekki endilega að þýða að viðkomandi grýti eggjum og taki þátt í háværum mótmælum. Það að vera aktívisti getur líka falist í því að standa upp frá borðinu þegar einhver segir nauðgunarbrandara. Það er aktívismi. Femínismi er undirstaða fyrir svona vitundarvakningu og herferðum.“
Ef þú hefur áhuga á að fræðast enn frekar um átakið þá er Sjúk ást á öllum helstu samfélagsmiðlum. Við hvetjum lesendur einnig til að skrifa undir ákall til menntamálaráðherra um bætta kynfræðslu á www.sjukast.is.