Framtíðardagar

DSC00473.jpg

Framtíðardagar Háskóla Íslands, sem samanstóðu af dagskrá í boði Náms- og starfsráðgjafar HÍ, voru haldnir á Litla torgi vikuna 12. til 16. febrúar. Yfirskrift daganna að þessu sinni var Undirbúningur fyrir atvinnulífið og frá mánudegi til föstudags fengu áhugasamir nemendur hagnýtar upplýsingar um helstu skref sem taka þarf í atvinnuleit í formi fyrirlestra og kynninga. Dagskráin var sett upp eins og ferilskrá og hver dagur fjallaði um afmarkaðan hluta hennar. Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands, NSHÍ, fékk til sín ýmsa einstaklinga úr atvinnulífinu sem skarað hafa fram úr á sínu sviði til að fjalla um hvað þarf til að finna, sækja um og landa draumastarfinu auk þess sem framtíðarfærnikröfur og framtíðarhorfur á íslenskum vinnumarkaði voru kynntar.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti Framtíðardagana klukkan 11 þann 12. febrúar og flutti ávarp. Dagskráin sem fylgdi var svo ekki af verri endanum, en Jónína Kárdal frá NSHÍ fjallaði um nauðsyn þess að stjórna eigin starfsferli og huga að tækifærum sem gefast á meðan á háskólanámi stendur sem hægt er að nýta sér þegar á vinnumarkaðinn er komið. Í kjölfarið talaði Jóhanna Ella Jónsdóttir, mannauðsstjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ, um mikilvægi starfsánægju og að lokum fóru ráðgjafar frá Gallup, þau Sigurlaug Jónsdóttir og Atli Hrafn Sigurðsson, yfir lykilatriði sem vert er að hafa í huga við atvinnuleit.

Þann 13. febrúar nefndist dagskráin Menntun: Heima og að heiman, en þar sáu starfsmenn Skrifstofu alþjóðasamskipta um að segja frá þeim möguleikum sem opnast nemendum við það að fara erlendis í skiptinám eða starfsnám á háskólaárunum. Að því loknu fór Ragnheiður H. Magnúsdóttir frá Marel yfir það hvaða hæfileikar verða mikilvægir á vinnumarkaði næstu 10 til 20 árin – og mikilvægi þess að leggja meiri áherslu á nýsköpun hér á landi á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar.

Þann 14. febrúar var röðin svo komin að umfjöllun um íslenskan vinnumarkað en dagskráin hófst á kynningu frá Jónínu Kárdal frá NSHÍ um Tengslatorg HÍ, sem er atvinnumiðlun fyrir stúdenta. Næstur í pontu var Karl Sigurðsson, sérfræðingur frá Vinnumálastofnun, sem fjallaði um stöðuna á íslenskum vinnumarkaði í víðu samhengi, þróun starfa og menntunar vinnuafls. Davíð Þór Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka Atvinnulífsins, SA, sagði frá samtökunum og hvaða áhyggjur þau hafa helst af vinnumarkaðnum, sér í lagi varðandi ungt fólk. Að lokum fór Gyða Kristjánsdóttir, mannauðsráðgjafi hjá Hagvangi, yfir það hvernig ætti að landa starfinu þegar í atvinnuviðtal er komið. Nefndi hún meðal annars mikilvægi undirbúnings, þekkingar á fyrirtækinu og þekkingar á eigin styrkleikum og veikleikum.

Það var svo Fjármála- og atvinnulífsnefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands sem átti sviðið fimmtudaginn 15. febrúar, en nefndin fékk til sín núverandi og fyrrverandi nemendur HÍ til að segja frá reynslu sinni af félagsstarfi innan skólans og hvernig það hefur nýst þeim á vinnumarkaði. Eftirfarandi aðilar tóku til máls: María Rut Kristinsdóttir fyrrverandi formaður SHÍ sem nú starfar sem aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur formanns Viðreisnar, Málfríður Guðný Kolbeinsdóttir sem starfar í dag fyrir 3z Pharmaceuticals en árið 2016 tók hún þátt í verkefnastjórn Gulleggsins sem veitti henni gríðarlega reynslu og tækifæri, Kristín Edwald sem er fyrrverandi formaður Orators nemendafélags lögfræðinema sem er nú meðeigandi að lögmannsstofunni LEX auk þess sem hún sinnir stundakennslu við lagadeild Háskóla Íslands. Að lokum komu fulltrúar frá Team Spark og kynntu tækifæri sem þátttakendur skapa sér með þátttöku í 42 manna teymi sem árlega smíðar rafknúinn kappakstursbíl sem etur kappi í Formula Student. Dagskránni lauk svo með fyrirlestri frá Magnúsi Magnússyni sem heldur utan um rekstur bókunarsíðunnar Booking.com en hann sagði frá því hvernig hann komst í kynni við fyrirtækið og hvernig hann vann sig upp innan þess. Þá kynnti hann starfsemi Booking.com, kostina sem fylgja því að starfa fyrir fyrirtækið og síðast en ekki síst að hvaða eiginleikum fyrirtækið leitar í hinum fullkomna starfskrafti.

Síðasti dagskrárliður Framtíðardaga NSHÍ fór svo fram föstudaginn 16. febrúar, en þá fjallaði Ásta G. Briem, náms- og starfsráðgjafi, um mikilvægi faglegs orðspors í námi og starfi. Þar upplýsti hún áheyrendur meðal annars um að stór hluti atvinnuveitenda finni mögulega framtíðarstarfskrafta á Google og Facebook og því sé mikilvægt að halda góðri ímynd á samfélagsmiðlum.

Þó að Framtíðardögum sé lokið í ár ber ekki að örvænta því Náms- og starfsráðgjöf býður reglulega upp á námskeið í gerð ferilskrár og starfsferilsmöppu. Á síðasta ári var fulltrúi frá alþjóðlega netfyrirtækinu LinkedIn gestur NSHÍ og bauð upp á fyrirlestur um gagnsemi og notkun LinkedIn og hefur NSHÍ fylgt því eftir með vinnustofum, enda er LinkedIn orðinn stór aðili á ráðningarmarkaði. Þá bendir Jónína Kárdal hjá NSHÍ á að oft er fólk ráðið í störf eftir tilvísunum og störfin því ekki auglýst. Því séu tengslanet, líkt og hið alþjóðlega LinkedIn, mikilvæg fyrir þá sem vilja eiga sem mesta möguleika á atvinnumarkaði.

Þá má líka minna á að nemendur geta alltaf leitað til Náms- og starfsráðgjafar í opnum viðtalstímum og fengið aðstoð við allt sem lýtur að námi og starfi. Að sögn Jónínu hafa þau unnið markvisst að því undanfarin ár að auglýsa þjónustuna og leggja áherslu á að það sé hluti af því að stýra námi sínu og framtíðarstarfsferli að leita álits eða aðstoðar náms- og starfsráðgjafa við skólann. Í opna viðtalstíma þarf ekki að bóka fyrir fram, en þeir eru frá klukkan 13 til 15 mánudaga til fimmtudaga og frá klukkan 10 til 12 á föstudögum. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Náms- og starfsráðgjafar, www.nshi.hi.is, eða senda fyrirspurn á radgjof@hi.is. Þá má einnig finna Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands á Facebook.