Sigurverk leikþáttasamkeppni Stúdentablaðsins
Stúdentablaðið efndi til leikþáttasamkeppni í byrjun skólaársins. Fjölmörg verk bárust en sigurverkið, ,,Lambakjöt” er birt hér. Don Ellione er höfundur verksins og hlýtur í verðlaun gjafabréf fyrir tvo á sýningu að eigin vali í Þjóðleikhúsinu.
Hávar Sigurjónsson, leikskáld, valdi sigurverkið. Í umsögn Hávars segir: ,,Lambakjöt er leikþáttur sem nær að fanga hvorutveggja 19. aldar rómantík og nútímann á bráðskemmtilegan hátt. Textinn er ljóðrænn og stuðlaður en gerir um leið góðlátlegt grín að þeirri hefð og er fyndinn og vel skrifaður. Leikurinn er fyrirhafnafnarlaust ofinn í textann og býður upp á skemmtilegar útfærslur sem gerir þetta áhugavert til sviðsetningar.”
Lambakjöt
Persónur:
Salka, ung og fríð stúlka
Hreggviður, ungur smaladrengur
SALKA
19. öld. Salka situr dreymin út í móa með blóm í hendi.
Ó hve mig dreymir um að hitta ungan smaladreng hér í haganum, sveipa hann örmum mínum og finna ást í augum hans.
SALKA
Hún sprettur á fætur æst
Sjá hann stökkva stein af steini, klett af kletti og kalla: Hó! Hó! Hó! - Hó! Hó! Hó
Hún sýnir hvernig hann stekkur og kallar. Hreggviður birtist, tekur eftir Sölku og mjakar sér laumulega nær. Hann er með smalastaf í hendi.
SALKA
Hó! Hó! Hó! Komið til mín allar mínar kindur! Ó hvílík lukka væri að hitta slíkan dreng ein og umkomulaus fjarri bæjum.
Hún stekkur enn. Hreggviður setur sig í stellingar og leikur eftir henni með miklum tilburðum, klaufalega
Hó hó, komið til mín sauðir og safarík lömbin stór og smá
Hreggviður stekkur til móts við hana og sýnir sig sperrtur og hoppandi. Salka sér hann ekki
HREGGVIÐUR
Hó hó, komið til mín stúlkur og fjallageitur. Hó hó hó,
komið til mín meyjar og marineraðar steikur.
SALKA
Svo liti hann yfir grundina og sæi hjálparvana, fríða stúlku afvelta milli þúfna, gráti nær yfir óförum sínum.
HREGGVIÐUR
Hvað er að sjá, stúlka sem grætur á grúfu.
SALKA
Sjá hann stökkva léttum skrefum með smalastaf að vopni til hennar, krjúpa og rétta fram sterka arma til bjargar og taka hana í fang sér
Hreggviður stekkur til hennar og krýpur
HREGGVIÐUR
Gráttu ei viðkvæma blóm
Hreggviður ætlar að taka hana í fang sér en þá sprettur hún upp.
SALKA
Hann sveiflar henni mjúklega og dansar eins og vindurinn um grænan völlinn
Hreggviður grípur í hendi hennar og ætlar að sveifla henni en dettur og fleygir henni um koll. Hún sér hann ekki enn, stendur upp og dustar af sér
Nei, ussum fuss og svei. Hvað þýða slíkir draumar. Svona ævintýri eru ekki til í raun.
HREGGVIÐUR
Stúlkan mín fríð, sjalla la la la, ævintýri enn gerast.
Víst er einn slíkur drengur til sem fyllir þína drauma.
Hreggviður fer til hennar og ætlar að taka utan um hana en í þann mund færir hún sig frá og hristir hausinn yfir eigin draumum. Hann gengur aftan að henni og ætlar að taka í hönd hennar en hún snýr sér við og slær hann utan undir hraustlega
SALKA
Hreggviður, ertu ekki að skilja þetta. Þú ert ekki mín manngerð. Þetta er aldrei að fara að ganga hjá þér.
HREGGVIÐUR
Já en Salka. Ég er smaladrengur, og stekk hóandi milli kletta og get alveg komið þér til bjargar. Ég útbjó mér meira að segja staf, bara fyrir þig
SALKA
Ég vil alvöru hraustan hrút, ekki seinheppinn sauð. Alvöru karlmann með dökkann makka og stóra, fagurmótaða handleggi, stinnan maga og fallegan limaburð, lítið eitt sólríkan á hörund. Trúðu mér, þú hefur ekki það sem til þarf.
HREGGVIÐUR
Svona menn munu aldrei verða til.
SALKA
Hvað veist þú um það. Hættu svo að elta mig dag og nótt. Mér leiðist trýnið þitt á glugganum allar nætur. Bara að það væru til einhver lög sem banna svona áreiti.
Salka labbar burt í fússi, Hreggviður stendur eftir sár