Bóksala stúdenta: Verslunarstjóri mælir með
Líkt og haustlaufin hafa námsbækurnar gjarnan tilhneigingu til að glata lit sínum þegar sígur á seinni hluta haustmisseris. Jafnvel áhugasömustu nemendur verða fráhverfir þeim og markmið um að lesa eins og eina fræðigrein fyrir svefninn fara út um þúfur. Þegar svo er komið er fátt annað í stöðunni en að skipta um gír og færa sig yfir í aðra sálma – til dæmis yndislestur!
Fegurðin við yndislestur liggur í orðinu sjálfu: þú lest þér til yndis og ánægju. Lesturinn fer fram á þínum eigin hraða og forsendum, og þú veist fyrir víst að þú verður hvorki krafinn um ritgerð né fyrirlestur upp úr efni bókarinnar. Á hrollköldum haustdegi er fátt betra en að vefja sig inn í hlýtt teppi, jafnvel kveikja á kerti, og gleyma sér í heimi frásagnarinnar.
Stúdentablaðið rak á dögunum inn nefið í Bóksölu stúdenta og hitti fyrir verslunarstjórann Óttar Proppé. Hann tíndi til og sagði frá nokkrum vel völdum bókum úr hillum Bóksölunnar sem hann mælir sérstaklega með fyrir háskólanema.
Skiptidagar eftir Guðrúnu Nordal
„Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, segir frá upplifun sinni af Íslandssögunni og bókmenntunum á mjög skemmtilegan hátt. Með því að nota ritgerðarformið tekst henni að stikla á stóru sem smáu á mjög persónulegan og hressilegan hátt. Hugleiðingar höfundar eru sannarlega nesti handa nýrri kynslóð, eins og segir í undirtitlinum, og svo sem handa hvaða kynslóðum sem er ef því er að skipta. Þetta er bók sem kom mér á óvart og á eftir að meltast lengi í hausnum á mér.“
Auður eftir Vilborgu Davíðsdóttur
„Vilborg er einn af okkar stóru rithöfundum og alltof margir sem eiga enn eftir að kynnast henni. Hér skrifar hún um æsku landnámskonunnar Auðar djúpúðgu og opnar manni fjarlæga tíma og heima svo manni líður eins og ekkert sé eðlilegra meðan maður flettir dáleiddur. Vilborg er sögumaður af guðs náð.“
Factfulness eftir Hans Rosling
„Hvað er raunverulega að gerast í heiminum? Er allt að fara til andsk... eða fer heimurinn hægt og sígandi batnandi? Sænski læknirinn Hans Rosling vann lengi að þróunarmálum í Afríku. Honum blöskraði hvað hugmyndir samlanda hans um ástandið í þróunarlöndunum voru fjarri raunveruleikanum. Seinni árin sérhæfði hann sig í að lesa úr tölfræði og skýra ástandið fyrir fólki á mannamáli, meðal annars í frægum Ted fyrirlestrum. Í þessari bók er hann búinn að sjóða þetta allt saman í læsilegan texta. Bill Gates var svo hrifinn af þessari bók að hann gaf hana öllum útskriftarnemendum í Bandaríkjunum.“
Kalak eftir Kim Leine
„Stundum finnst manni nóg um allar bækurnar sem fjalla um ófullkomleika höfundarins og vandann við að lifa í nútímanum. En svo koma bækur sem grípa mann algjörlega svo maður tætir þær í sig eins og spennutrylla. Kalak er ein af þessum bókum. Leine segir frá því hvernig honum tókst illa að fóta sig sem ungum manni sem endaði á því að hann réð sig til vinnu sem hjúkrunarfræðingur á Grænlandi. Grænland er undraheimur sem opnast fyrir manni í gegnum þessa þroskasögu sem er vægðarlaus og erfið á köflum, en heldur manni fram á síðustu síðu.“
Þetta breytir öllu eftir Naomi Klein
„Umhverfismálin eru stærsta áskorun nútímamannsins. Loftslagsbreytingarnar eru þar efst á blaði. Naomi Klein er snillingur í að taka flókin mál og gera þau skiljanleg. Hún er óhrædd við að tala fyrir róttækum lausnum og notar skýr dæmi til þess að skilgreina vandamálin. Fyrri bækur hennar hafa haft mikil áhrif, þessi gæti breytt heiminum. Ef þú ert að velta fyrir þér að kynna þér loftslagsmálin betur án þess að bæta á þig háskólagráðu gæti þetta verið bókin fyrir þig.“
Secondhand Time: The Last of the Soviets eftir Svetlana Alexievich
„Nóbelsverðlaunahafinn Svetlana Alexievich skrifar bækur upp úr viðtölum sem hún tekur við alls konar fólk. Fólk sem hefur lifað óvenjulega tíma, óvenjulegt fólk, venjulegt fólk, nafntogað fólk og andlitslaust. Hér safnar hún saman sögum fólks af lífinu í Sovétríkjunum, Rússlandi kommúnismans. Þessar frásagnir soga mann inn og gera söguna ljóslifandi. Bók sem kemur aftur og aftur á óvart. Ég fór ósjálfrátt að skammta ofan í mig köflunum til að klára hana ekki of fljótt. Það er huggun að Alexievich hefur skrifað þær allnokkrar.“
Room to Dream eftir David Lynch og Kristine McKenna
„Kvikmyndaleikstjórinn David Lynch er einhver áhrifamesti listamaður síðari tíma. Hann þykir kynlegur kvistur og skautar á mörkum hins skiljanlega. En alltaf tekst honum að snerta við taug og fá mann til að spyrja: Hvað næst? Hér er komin ævisaga þar sem McKenna tekur fyrir tímabil í lífi og starfi Lynch á hefðbundinn hátt eftir heimildavinnu og viðtöl við samstarfs- og samferðafólk leikstjórans. Það sem er skemmtilegt við þessa bók er að í lok hvers kafla McKenna kemur kafli sem Lynch skrifar sjálfur, hugleiðir sama tíma, svarar því sem kemur fram, leiðréttir sumt, bætir við annað o.s.frv. Bókin einblínir miklu frekar á sköpunarferlið heldur en sölutölur og upptalningar á dollaramerkjum eins og kvikmyndabækur hafa tilhneigingu til. Það er nóg af sterku kaffi í þessari bók.“