1984 árið 2017

photo-1496368077930-c1e31b4e5b44.jpeg

Ímyndaðu þér samfélag þar sem eru engin lög en allt er bannað. Hugsanalögreglan handtekur fólk fyrir að hugsa sjálfstætt. Útsendarar ríkisins fylgjast með öllu sem fólk tekur sér fyrir hendur. Fyrir ríkið starfar tungumálanefnd sem leitast við að einfalda tungumálið. Um leið er markmið hennar að útrýma hugsanavillum því hvernig er hægt að hafa byltingakenndar hugmyndir ef að slíkar hugmyndir rúmast ekki innan orðaforða tungumálsins? Í sannleiksráðuneyti ríkisins starfar fólk við að leiðrétta staðhæfingar og breyta sögunni. Eins og hendi sé veifað er tilvist uppreisnarfólks þurrkuð úr sögunni og aðrar betri fyrirmyndir eru uppdiktaðar jafnauðveldlega. Sannleikur er ekki til. Ríkið býr til sannleikann og sannfærir fólk um að það hafi aldrei haft það betra. En á sama tíma líður fólk skort. Slagorð ríkisins eru: Stríð er friður, frelsi er þrældómur og fáfræði er styrkur.

Þessi dystópíski heimur er hugarsmíð George Orwell í skáldsögunni 1984. Í fyrstu kann sögusvið bókarinnar og samfélagið sem hún segir frá virðast algjör fantasía. Fljótt má þó sjá hliðstæður við mannkynssöguna og ekki síður nútímann. Hugsanalögreglan á sér samsvörun við útsendara nasisma á tímum Hitlers. Söguritun sannleiksráðuneytisins á sér samsvörun við það hvernig saga hvíta mannsins var rituð í Bandaríkjunum. Í aldanna rás hefur sannleikanum oft verið hagrætt. Hinn dystópíski heimur 1984 á sér ekki síst hliðstæður við lífið í Norður-Kóreu í dag, árið 2017.

Yenomi Park, ung norðurkóresk kona, hélt nýverið erindi í Háskóla Íslands. Þar sagði hún sögu sína. Til að lýsa lífinu í Norður-Kóreu benti hún á líkindi við bækur George Orwell 1984 og Animal Farm og kvikmyndina The Truman Show. Áður en Yenomi tókst að flýja heimaland sitt var sýn hennar á heiminn takmörkuð af því upplýsingaflæði sem kom frá norðurkóreska ríkinu. Heimsmynd Norður-Kóreumanna takmarkast við Kína, Japan, Rússland og Bandaríkin, sem eru helstu óvinirnir. Þeim er sagt að allar aðrar þjóðir heimsins séu þeim óvinveittar. Aðeins eitt dagblað er í landinu og aðeins ein sjónvarpsstöð. Þar er fjallað um hversu frábær Norður-Kórea er. Á sama tíma sveltur fólk. Það var menningarsjokk fyrir Yenomi þegar hún sá í fyrsta skipti ruslafötu því í Norður-Kóreu er ekkert sem fer til spillis, engu er hent. Rottur narta í dauða mannslíkama sem liggja í stöflum við útiklósett spítala. Fólk er svo svangt að það borðar rottur, veikist af því og deyr.

Stuttu eftir að Yenomi flúði hélt hún að frelsi fælist í því að mega klæðast gallabuxum og horfa á kvikmyndir án þess að vera handtekin eða skotin fyrir það. Hún vissi ekki hvað fólst í því að vera frjáls. Fyrir henni var þetta flókið hugtak. Hún ólst ekki upp við að skoðanir hennar skiptu máli og henni var kennt að það væri bannað að hvísla því jafnvel fuglarnir og mýsnar gætu heyrt í henni. Eftir flóttann átti Yenomi bágt með að svara spurningum um það hver uppáhaldsliturinn hennar væri. Í Norður-Kóreu hafði henni verið sagt að uppáhaldsliturinn hennar væri rauður, litur uppreisnarinnar.

Sá boðskapur sem Yenomi vildi miðla til Íslendinga var sá að breytingarnar í Norður-Kóreu þyrftu að koma að innan. Hún sagði að Norður-Kóreubúar þurfi að átta sig sjálfir á því að þeir eru ekki frjálsir heldur þrælar. Til að leysa vítahringinn þurfi landar hennar að fá að hugsa sjálfstætt. Fólkið þurfi að átta sig á að það er til annars konar líf. Það eru til frelsi og mannréttindi. Í ljósi þess að vettvangur er fyrir umræður um dýravernd og áhyggjur af loftlagsbreytingum á Vesturlöndum vonast Yenomi til að skapa megi pláss fyrir umræðu um þau mannréttindabrot sem eiga sér stað í föðurlandi hennar.


- Karítas Hrundar Pálsdóttir