Herborg.is

photo-1464082354059-27db6ce50048.jpeg

Herborg.is er ný íslensk vefsíða þar sem hægt er að bera saman lánakjör mismunandi lánastofnana sem veita húsnæðislán. Vefsíðan er ein sinnar tegundar á Íslandi, en þar er hægt að skoða hámarkslán, vexti, uppgreiðslugjöld, lántökugjöld og skilyrði fyrir lánveitingu fyrir allar tegundir lána. Upplýsingar á vefsíðunni eru uppfærðar allt að nokkrum sinnum í viku í takt við breytingar á vöxtum eða útlánsreglum hjá öllum lánveitendum.

Stofnandi Herborgar, hagfræðingurinn Björn Brynjúlfur Björnsson, segir að við stofnun vefsíðunnar hafi tvennt komið honum mest á óvart. Í fyrsta lagi var það munur á kjörum sumra lífeyrissjóða og bankanna, en hann segir að það geti munað allt að 40% á vöxtum og mikilvægt sé fyrir hvern og einn að vera með hagstæðasta húsnæðislánið sem er í boði. Hins vegar kom fjöldi lánveitenda honum á óvart, en alls veitir 21 ólíkur aðili húsnæðislán hér á landi. Björn ræddi við Stúdentablaðið um vefsíðuna og gaf góð ráð.

Hvernig fékkstu hugmyndina að því að stofna Herborgu?
Hugmyndin kviknaði þegar ég vildi kaupa mína fyrstu íbúð fyrir þremur árum síðan. Til að finna hagstæðasta lánið þurfti ég að liggja yfir heimasíðum bankanna og lífeyrissjóðanna dögum saman til að átta mig fyllilega á ólíkum lánareglum og kjörum hvers og eins. Niðurstaðan úr þessari rannsóknarvinnu var einfalt Excel-skjal til að bera saman ólíka aðila. Vinir og kunningjar sem voru í sömu sporum báðu mig um að senda sér skjalið og eftir því sem beiðnum fjölgaði hugsaði ég að best væri að þessar upplýsingar væru einfaldlega aðgengilegar öllum.

Hver telur þú vera helstu vandamálin sem ungt fólk rekst á þegar það hyggst festa kaup á sinni fyrstu íbúð?
Grunnvandamálið er að þróunin á Vesturlöndum á 21. öldinni hefur verið sú að að ungt fólk hefur dregist aftur úr öðrum kynslóðum þegar kemur að kaupmætti. Á Íslandi hafa ráðstöfunartekjur einstaklinga undir þrítugu staðið í stað frá aldamótum, á meðan þær hafa aukist um 20% hjá þeim sem eru 30-65 ára og um 45% hjá 65 ára og eldri. Þetta veldur ungu fólki erfiðleikum þegar kemur að því að kaupa sér íbúð vegna þess að húsnæðisverð ræðst fyrst og fremst af því hvað fólk getur borgað mikið. Íbúar á öllum Norðurlöndum eyða um 20-30% af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði, óháð því hversu mikið þeir hafa á milli handanna. Þar af leiðandi hækkar húsnæðisverð þegar kaupmáttur eykst. Kaupmáttaraukning eldri kynslóða hefur ýtt húsnæðisverði verulega upp á síðustu árum - og þá sérstaklega á dýrari svæðum eins og í og í kringum miðborgina. Eldri kynslóðirnar hafa nú meira á milli handanna samanborið við þær yngri og vinna því kapphlaupið þegar kemur að því að kaupa íbúðir í fleiri tilfellum.

Annað sem felst í þessu, og margir átta sig ekki á, er að vaxtastigið á Íslandi breytir engu um þessa stöðu. Ef vextir á húsnæðislánum á Íslandi myndu lækka um helming á einum degi myndi fólk samt áfram vilja eyða um 20-30% af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði. Afleiðingin yrði því sú að húsnæðisverð myndi tvöfaldast, en mánaðarlegar afborganir af lánum væru áfram þær sömu í krónum talið. Lækkun vaxta gagnast því til skamms tíma og fyrst og fremst þeim sem eiga fasteignir nú þegar, en ekki þeim sem eru að reyna að komast inn á markaðinn. Til lengri tíma ýtir hærra fasteignaverð hins vegar undir fleiri nýbyggingar, sem ætti að koma öllum að gagni.

Nú á hinn hefðbundni háskólanemi yfirleitt ekki mikið uppsafnað fé fyrir útborgun fyrir fasteignaláni. Hvað ráðleggur þú ungu fólki í háskólanámi sem er í húsnæðislánahugleiðingum?
Best væri að sjá inn í framtíðina. Fasteignaverð um þessar mundir er nokkuð hátt í sögulegu samhengi, sérstaklega á ákveðnum svæðum. Ef það lækkar á ný er betra að vera á leigumarkaðnum á meðan og kaupa ekki fyrr en eftir að lækkunin á sér stað. Ef verðið í dag er hins vegar komið til að vera, og heldur jafnvel áfram að hækka á næstu áratugum, þá væri betra fyrir fjárhaginn að spara fyrir íbúð eins hratt og mögulegt er.

Þeir sem vilja kaupa en sjá ekki fram á að geta sparað nóg gætu líka skoðað hagkvæmari lausnir sem minni hefð hefur verið fyrir á Íslandi, en í flestum evrópskum borgum er algengt að ungt fólk leigi og búi saman í húsnæði á meðan það leggur fyrir fyrstu útborgun. Leiguverð á fermetra lækkar hratt eftir því sem húsnæðið er stærra og því er talsvert ódýrara að búa með öðrum þegar kemur að leigukostnaði.

Í lok dags eru húsnæðiskaup spurning um samkeppni. Þeir sem hafa lágar tekjur munu alltaf eiga í erfiðleikum með að kaupa vegna þess að þeir sem hafa hærri tekjur ýta verðinu áfram upp með sínum kaupum. Sá sem vill kaupa sér eigið húsnæði kemst því í bestu stöðuna til þess með því að afla sér hærri tekna en aðrir og leggja þær fyrir.

Fyrir háskólanema þýðir það að byrja strax að hugsa um atvinnu- og tekjuhorfur sínar. Sumar námsleiðir eru töluvert betri en aðrar hvað það varðar. Á meðan eru aðrar námsleiðir jafnvel neikvæð „fjárfesting“, ef vinnutapið á meðan á námi stendur verður aldrei vegið upp með hærra launuðu starfi eftir útskrift. Þá skiptir námsárangur ekki minna máli því bestu nemendurnir í hverju fagi munu alltaf eiga auðveldast með að finna góð störf.