Ljóðasamkeppni Stúdentablaðsins 2017

Sigurvegari ljóðasamkeppni.jpg

Stúdentablaðið efndi til ljóðasamkeppni nú á haustdögum í aðdraganda Alþingiskosninganna. Allir nemendur Háskóla Íslands voru hvattir til að senda inn ljóð en ljóðin þurftu á einn eða annan hátt að tengjast komandi kosningum eða atburðum síðustu mánaða sem leiddu til stjórnarslitanna.

Fjöldi ólíkra ljóða bárust blaðinu og voru þau hvert öðru betra. Sum voru hnyttin á meðan önnur voru alvarleg og enn önnur ljúfsár. Sum þeirra lutu hefðbundnum ljóðformum með rími, ljóðstöfum, hrynjandi, vísuorðaskilum og tilheyrandi á meðan önnur voru óbundin og án reglubundinnar skipunar.

Vandasamt var því fyrir dómnefnd að velja í verðlaunasætin þrjú en leysti hún það vel af hendi. Dómnefndina skipuðu Eydís Blöndal, ljóðskáld og heimspekinemi, og Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum.

Lárus Jón Guðmundsson hlýtur fyrstu verðlaun sem eru tveir miðar í Borgarleikhúsið og ljóðabók Dags Hjartarsonar, Heilaskurðaðgerðin, árituð af höfundi. Annað sætið hlýtur Anna Helga Guðmundsdóttir en það þriðja hlýtur Ragnheiður Ósk Ákadóttir. Stúdentablaðið óskar þeim innilega til hamingju með glæstan árangur.


1. sæti: Ég kaus

Ég kaus brjóstið
    - strax eftir fæðingu
Ég kaus móður mína
    - í æsku
Ég kaus föður minn
    - þegar ég stálpaðist
Ég kaus vini mína
    - um fermingu
Ég kaus djammið
    - á unglingsárunum
Ég kaus frið um allan heim, frelsi, jafnrétti og bræðralag

- á þröskuldi lífs míns -

Ég kaus fé
Ég kaus frægð
Ég kaus frama

Ég kaus mig
  - uns stjórnin féll

Í dag
kýs ég
þig

        Lárus Jón


2. sæti
Í hringiðunni stend ég
vitlaus, barnsleg.
Læt bjóða mér
gull og græna skóga
í skiptum fyrir trúgirni.
Svínin, hrægammarnir, smeðjulegu refirnir,
hænsnin, asnarnir og stæltir stóðhestarnir,
standa í kringum
hræddan lýðinn.
Öskra á okkur
og metast um
hver er best til þess fallin
að stjórna dýraríkinu
undir yfirumsjón makkalausa ljónsins.
Sá á kvölina
Sem á völina.

        Anna Helga Guðmundsdóttir


3. sæti

Íslensk stjórnmál: Er þetta djók?
Sjálfumglaðir karlmenn í órenndri brók
Og virðulegar konur með nefin upprétt,
Svo hljóðar okkar virðulega stétt.

Framtíðin skiptir máli, fjórða hvert ár
Nema fnykurinn mikli kalli fram tár
Þing var rofið, hvernig gat þetta gerst?
Þjóðin fylgist með er ríkisstjórnin ferst.

En gráttu ei meir, bíttu á kjálkann
Einblínum á flísina en hunsum bjálkann
Meðan þau líta niður frá sínum háa tindi
Og ákveða hver á mest skilið almenn mannréttindi.

„Sandkassaleikur,” tautar hún amma
Er fullorðið fólk bendir og skammar
En þó veit ég fyrir víst að börnin smá
Af einlægni afsaka sig sem sökina á.

Kosningar eru boðaðar, land og þjóð
Kjósum nú rétt og leggjum í sjóð
Rifrildi vakna: hver á skilið kjör?
Mikilvægt próf með engin rétt svör.

                     Ragnheiður Ósk Ákadóttir

MenningStúdentablaðið