Innblástur listamanns tölublaðsins : JÓHANN KRISTÓFER
Listafólki er margt til lista lagt. Það hefur unun á listum. En til þess að geta blásið út þarf listafólk fyrst að fá innblástur. Hér er því listi eftir listamann yfir þau verk sem hafa veitt henni innblástur undanfarið. Mælst er til þess við viðkomandi að valið sé eitt verk úr hverjum af eftirfarandi flokkum: tónverk, myndverk, textasmíð, kvikmynd og hönnun - en taumlausum listamönnum í flóknum skóm er þó leyft að fara frjálsum höndum um hvaða listform eru valin til að fylla sætin fimm.
Listamaðurinn að þessu sinni er Jóhann Kristófer, einnig þekktur sem Joey Christ. Jóhann Kristófer hefur komið víða við, er útskrifaður sviðshöfundur en hefur unnið við fatahönnun, textasmíðar og fleira, en er hvað þekktastur fyrir tónlistarferil sinn. Sólóferill hans hófst eins og þruma úr heiðskíru lofti með einum af slögurum þessa árs, Joey Cypher, þar sem einvalalið íslensku hip-hop senunnar leggur honum lið. Í kjölfarið kom út platan Anxiety City þar sem rappað er á ensku og mixteipið Joey sem er á íslensku. Áður hafði hann þó verið meðlimur 101 boys þar sem Sturla Atlas fer fremstur í flokki.
Lil Uzi Vert - LUV is Rage 2
Lil Uzi er uppáhalds listamaðurinn minn þessa dagana af nokkrum ástæðum. Hann er með geggjað skýra og afgerandi fagurfræði sem einkennir allt sem hann gerir. Tónlistin hans er mjög afslöppuð og skemmtileg en á sama tíma full af alvöru tilfinningum. Á LUV is Rage 2 gerir Lil Uzi allt sem ég dýrka við hann og meira til. Svo er XO Tour Life besta lag allra tíma.
No Tomorrow
Dansverkið No Tomorrow var frumsýnt inni á sýningunni Fórn, undir stjórn Íslenska dansflokksins í Borgarleikhúsinu á síðasta leikári. Höfundar No Tomorrow eru þau Margrét Bjarnadóttir og Ragnar Kjartansson, en verkið sýnir fullkomið jafnvægi milli tónlistar og hreyfingar. No Tomorrow er fullkomið dæmi um að list þarf alls ekki að vera flókin til þess að vera fullkomin.
Nathan For You
Einir frumlegustu og bestu grínþættir sem ég hef séð. Nathan Fielder tekur að sér að koma hallandi rekstri fyrirtækja í Los Angeles í rétt far með ótrúlega langsóttum og skrítnum hugmyndum. Spurningin um hvort þættirnir séu leiknir eða alvöru dúkkar upp aftur og aftur og heldur áhorfendum við efnið á meðan hegðun Nathans gerir manni erfitt að anda vegna hláturs.
Sigmundur Davíð
Okkar fyrrum forsætisráðherra er í raun eins og þáttur af Nathan For You. Sigmundur heldur áfram að koma öllum á óvart með sínum sturluðu ranghugmyndum og réttlætingum fyrir sína veruleikafirrtu hegðun. SDG er listaverk sem enginn getur skáldað.
Lil Wayne - The Carter III
Ein besta rappplata allra tíma frá einum besta rappara allra tíma. Fullkomlega sett saman og eldist betur en húsmóðir af Nesinu. Get alltaf hlustað á þessa plötu, frá upphafi til enda.