Hvers virði er móðurmálið?

IMG_7780.jpg

Því er eins farið með íslenska tungu og íslensk stjórnmál að sitt sýnist hverjum. Sumir geta ekki hugsað sér að „það hafi verið hrint þeim“ eða að „þeim hafi vantað eitthvað“ en öðrum þykir ekkert athugavert við slíkt málfar. Fyrri setningin sem er innan gæsalappa er dæmi um nýju þolmyndina, m.ö.o. nýju setningagerðina, en sú seinni um hina svokölluðu  þágufallshneigð. Hvorug þeirra telst til góðs máls þar sem þær brjóta í bága við íslenska málhefð. Sögnin „vanta“ stýrir hefðbundið þolfalli, ekki þágufalli, og „þeim var hrint“ styðst við gamalgróna málvenju en „það var hrint þeim“ gerir það ekki. Hvort tveggja er hins vegar eðlilegt talmál þótt nýja málvenjan þyki óviðeigandi í vönduðu ritmáli. Einhverja hryllir kannski við þeirri tilhugsun að nýja þolmyndin og þágufallshneigðin muni einhvern tíma þykja gott mál en í raun gildir það einu hvernig Íslendingar tala íslensku. Höfuðatriðið er að þeir tali hana áfram.

Hins vegar er óvíst hve lengi þeir koma til með að gera það. Tölvu- og netvæðing þessarar aldar hefur gjörbreytt svip mannlífsins á fáeinum árum. Fólk er tengt Netinu nær öllum stundum. Flestir eru gjörsamlega háðir því í hversdagslífinu. Efni á Netinu er auk þess að langmestu leyti á ensku og víkur íslenskan því fyrir enskunni á æ fleiri sviðum. Enn sér ekki fyrir endann á þessari þróun en ef ekki er brugðist við henni á íslenskan líklegast eftir að láta undan ásókn enskunnar að lokum.

Slangur og enskuslettur eru aðeins fyrsta skref málbreytinga. Með auknum umsvifum fer enskan að hafa meiri áhrif á mál Íslendinga. Formið á málinu tekur stakkaskiptum og  beygingum fækkar, setningagerð afmyndast og framburður breytist. „Actually“ kemur fyrir í annarri hverri setningu, ræðumenn „gefa“ ræður og gömul íslensk orð gleymast. Ef ekki er reynt að hamla á móti frekari málbreytingum gæti íslenskan brátt komist í útrýmingarhættu, en því hefur verið haldið fram að lífvænleiki hennar sé nú þegar viðkvæmur ef miðað er við mælikvarða UNESCO.

Aukin tölvu- og snjallsímanotkun barna er sérstaklega mikið áhyggjuefni. Eiríkur Rögnvaldsson og Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessorar í íslenskri málfræði, hafa undanfarin ár varað við því að börn á máltökuskeiði noti snjallsíma eftirlitslaust. Íslensk börn nota ensku í síauknum mæli og innan nokkurra ára verða þau ef til vill tvítyngd, en það getur verið hættulegt fyrir mál með jafnfáa málhafa og íslenskan. Í grein sinni, Snjalltækjavæðingin og máltaka íslenskra barna, á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, skerpir Sigríður Sigurjónsdóttir á þessu og tekur írsku sem dæmi um tungumál sem lotið hefur í lægra haldi fyrir enskunni. Íslenskan á allt undir máltöku og málþroska ungra barna, eins og Sigríður bendir á, og hlúa verður að hvoru tveggja ef styrkja á stöðu tungunnar. Það hvílir því mikil ábyrgð á herðum upprennandi foreldra en fleiri þurfa samt að leggja sitt af mörkum til að íslenskan haldi velli.

Ef íslenskan á að eiga sér viðreisnar von verður hún að vera nothæf á öllum sviðum íslensks samfélags. Á tímum örar tækni- og samfélagsþróunar er erfitt og kostnaðarsamt að sjá til þess að íslenska sé nothæf í tölvuheimum og á alþjóðavettvangi. En að öllu óbreyttu á íslenskan að lokum eftir að reynast málnotendum sínum frekar hamlandi en nytsamleg og því liði ekki á löngu þar til Íslendingar hættu að mestu að tala hana. Til hvers að tala tungumál sem kemur ekki að neinu gagni í hversdagslífinu? — Af hverju að halda lífi í íslenskunni? Algeng rök fyrir því eru að án hennar gætum við ekki lengur skilið íslensku fornhandritin, menningararf Íslendinga. Þar með rofnaði þúsund ára samhengi í íslenskri málþróun. Ef til vill er samt nærtækara fyrir unga Íslendinga að hugsa til þess að ef ekkert er að gert gæti íslenskan sem við tölum og skrifum á í dag verið óskiljanleg eftir aðeins hundrað ár.

Eiríkur Rögnvaldsson fjallar um lífsskilyrði íslenskunnar í grein á Hugrás frá árinu 2015, Er hrakspá Rasks að rætast, og minnist þar á tíu ára áætlun um uppbygginu íslenskrar máltækni. Með henni er stefnt að því að tæknivæða íslenskt mál. Í áætluninni er gert ráð fyrir um hundrað milljóna króna kostnaði á ári, en Eiríkur segir að minna megi það ekki vera ef íslenskan á að nýtast á öllum sviðum samfélagsins. Í síðastliðnum ágústmánuði var svo ný verkáætlun kynnt um máltækni fyrir íslensku á árunum 2018-2022. Í fjárlagafrumvarpi fráfarandi ríkisstjórnar voru sextíu milljónir króna lagðar til áætlunarinnar. Fyrirheit voru gefin um hærri upphæð á næstu árum en allar áætlanir ríkisstjórnarinnar runnu snögglega í sandinn við stjórnarslit í september. Í komandi kosningum mættu íslenskir málnotendur því velta fyrir sér: Hvers virði er móðurmálið?


- Oddur Snorrason

SjónarmiðStúdentablaðið