Safnað af ástríðu

Kolfinna:

Kolfinna Elíasdóttir safnar öllu því sem skartar hlébarðamynstri. Hún er 23 ára og er á sínu fyrsta ári í mannfræði. Söfnunin hófst fyrir alvöru á fyrsta árinu hennar í menntaskóla. Nú á hún á tæplega hundrað hluti og erfitt er að sjá nokkuð annað þegar gengið er  inn í svefnherbergið hennar. Úr fataskápnum flæða allskyns flíkur í mismunandi dýramynstri.  Hlébarðamynstruð regnhlíf, hlaupaskór, sólgleraugu og handklæði er á meðal þess sem finna má í þessu stórbrotna safni. Á rúminu hvíla hlébarðarúmföt úr silki og koddar.

Kolfinna segist vera með innbyggða „hlébarðaratsjá“ og sér því hlébarðamynstur úr órafjarlægð. Einnig eru vinir hennar og fjölskylda byrjuð að tengja mynstrið við hana og gefa henni því ósjaldan hlébarðagjafir. Aðspurð að því hvort hún haldi að þessi ástríða muni nokkurn tíma rjátlast af henni, þá svarar hún: „Nei þetta er lífsstíll, eilífðar ást“.

Inga Björk:

Inga Björk Guðmundsdóttir er 21 árs gömul dama frá Álftanesi. Hún er að læra hótelstjórnun og veitingahúsarekstur í HR. Inga hefur safnað galakjólum frá því hún var lítil og á um það bil  fimmtán síðkjóla en tæplega hundrað kjóla í heildina. Afi hennar og amma áttu vefnaðarvöruverslun  þegar Inga var yngri og átti hún því oft sérsaumaða kjóla. Hana dreymdi alltaf um að vera prinsessa og sá því enga ástæðu til þess að hætta að ganga í fallegum síðkjólum þegar hún varð eldri.

Í dag notar hún þó aðeins kjólana við fínni tilefni, eins og á jólunum eða á árshátíðum. Inga leyfir sér að kaupa 1–2 kjóla á ári þar sem hún er með fínan afslátt í Prinsessunni í Mjódd enda fastakúnni. Eftirlætiskjólinn hennar er þessi blái sem hún klæðist á myndinni. Inga sér ekki fyrir endann á söfnuninni og getur ekki beðið eftir að kaupa brúðarkjólinn þegar rétti maðurinn er fundinn.

Texti: Birna Stefánsdóttir

Myndir: Håkon Broder Lund

LífstíllStúdentablaðið