Innleiða skordýraát í vestræna menningu: Búi og Stefán segja frá sinni Gulleggshugmynd
Frumkvöðlasetrið Klak Innovit stendur árlega fyrir nýsköpunar- og frumkvöðlakeppninni Gullegginu. Háskóli Íslands er einn af styrktaraðilum keppninnar sem er vettvangur fyrir athafnafólk sem vill öðlast þjálfun og reynslu í mótun viðskiptahugmynda og rekstri fyrirtækja. Þátttakendur koma úr ýmsum áttum og hugmyndirnar sem taka þátt eru jafn misjafnar og þær eru margar. Hugmyndir geta verið á frumstigi eða lengra komnar en þáttaka í keppninni er orðin eins konar gæðastimpill á viðskiptahugmyndir og er þess vegna stökkpallur frumkvöðla til að koma hugmyndum sínum á framfæri.
Þátttaka í Gullegginu er ókeypis fyrir nemendur Háskóla Íslands en til þess að taka þátt þarf að senda stutta lýsingu á hugmyndinni fyrir 20. janúar 2016 á www.gulleggid.is. Þann 26. febrúar verða síðan tíu bestu hugmyndirnar valdar til frekari þátttöku. Samhliða keppninni er þátttakendum boðið upp á námskeið, ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga. Þetta er tækifæri fyrir háskólanema að fá aðstoð við að þróa hugmyndir sínar og fá þjálfun í samskiptum við alls konar ráðgjafa.
Fjölmargar frábærar hugmyndir hafa tekið þátt í Gullegginu en ein þeirra kom frá félögunum Stefáni Atla Thoroddsen og Búa Bjarmari Aðalsteinssyni, stofnendum fyrirtækisins Crowbar. Strákarnir tóku þátt í Gullegginu síðastliðið vor og höfnuðu í 3. sæti en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Hugmyndin að baki Crowbar er að innleiða skordýraát í vestræna menningu. Þeir framleiða prótínstangirnar Junglebar úr skordýraprótíni, blanda því saman við súkkulaði, döðlur, trönuber og fræ og fá almenning til að borða þær.
Þessi hugmynd á rætur sínar að rekja til listnáms Búa en hann lærði í vöruhönnun við LHÍ. „Mig langaði að vinna eitthvað sem tengdist sjálfbærni í framleiðslu og skordýr, sveppir og bakteríur var það þrennt sem ég skoðaði mest. Mig langaði líka að breyta viðhorfi fólks til matvælaframleiðslu.“ Úr varð sú hugmynd að nýta skordýr til prótínframleiðslu, en sú framleiðsla er einmitt mun umhverfisvænni og sjálfbærari en mörg önnur matvælavinnsla, eins og til dæmis nautgripaframleiðsla. Búi hafði síðan samband við Stefán, vin sinn sem stundaði nám í viðskiptafræði á þessum tíma, og hugmyndin um að vinna prótínstangir úr skordýraprótíni kom fram á fyrstu stigum verkefnisins.
Síðan þá hafa viðbrögðin við vörunni verið ótrúlega góð að sögn Stefáns. „Við höfum haldið margar prófanir á mismunandi stöðum þar sem mikið af fólki hefur komið og fengið að smakka vöruna og líkað vel.“ Vöruna þróuðu þeir vinir í samstarfi við kokkinn Hinrik Ellertsson. Það virðist hjálpa til við markaðssetningu vörunnar hversu spennandi og ný hugmyndin um skordýraát sé. ,,Það er eins og fólk hafi verið að bíða eftir þessu, umræðan um að borða skordýr hefur einhvern veginn alltaf verið rædd sem framtíðarlausn og nú er vonandi komið að því.“
En sjálfbærnis- og umhverfissjónarmið eru þó ekki það eina sem getur selt Junglebar og segir Búi því bragð og áferð vörunnar skipta miklu máli. ,,Þegar upp er staðið velur fólk það sem því finnst gott. Auðvitað skipta til dæmis umbúðirnar líka máli og þegar þú spyrð kúnnahóp hvort að hann myndi vilja kaupa sjálfbærar vörur þá myndi meirhlutinn eflaust segja já. En svo þegar fólk er að drífa sig á leiðinni í sund, með öll börnin, þá tekur það þá vöru í hillunni sem er kunnugleg og fljótleg.“
Margir velta því eflaust fyrir sér hvernig skordýraprótín sé eiginlega á bragðið. Þar segir Búi: ,,Skordýr eru jafn mismunandi og þau eru mörg. Kosturinn við skordýr er að það er oft hægt að stjórna bragðinu af þeim. Ef þú lætur þau borða súra sítrusávexti getur það til dæmis haft mjög mikil áhrif á bragðið. En krybburnar sem við notum í prótínstangirnar eru mjög bragðlitlar. Þetta er svolítið eins og með hugtakið ,,tastes like chicken“. Það er ekki mikið bragð af hráefninu sjálfu, heldur skiptir eldunaraðferðin þar mestu máli.“ Stefán tekur undir og segir lítið bragð af skordýraprótíninu þar sem það er unnið og framleitt í duftformi. ,,Þetta er svolítið eins og hveiti, það er eiginlega ekkert bragð af hveiti.“ Nemar Háskóla Íslands þurfa ekki að bíða þess lengi að prófa sjálfir þessa nýstárlegu vöru en von er á henni í verslanir á Íslandi á næstu mánuðum.
Strákarnir hafa öðlast mikla reynslu í þeirri umgjörð sem búið er að skapa nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum á Íslandi, meðal annars með þátttöku í Gullegginu, Startup Reykjavík og Climate launchpad. Stefán segir Gulleggið hafa hjálpað þeim mikið. ,,Þetta er fyrst og fremst mjög hvetjandi og frábært tækifæri til að kynnast nýju fólki sem er að gera það sama og þú.“ Í keppninni fá þátttakendur tækifæri til þess að ræða við fjárfesta og ráðgjafa og kynna hugmyndir sínar fyrir þeim. ,,Svo hjálpaði þetta mikið með kynningu á fyrirtækinu, þetta fólk sem er að sinna ráðgjöf í keppninni er margt úr þessum sjóðum sem þú þarft að leita til seinna meir. Þá er gott að fólk hafi heyrt af hugmyndinni þinni áður.“ Búi segir þó að ferlið sé líka mjög erfitt og mikilvægt að þetta passi inn í ferilinn hjá þínu frumkvöðlafyrirtæki, þar sem þetta sé mjög tímafrekt líka. ,,Það er gott að hafa hugsað vel um hvað þú vilt gera með hugmyndina þína svo þú vitir hvernig þú getur nýtt þér Gulleggið. En í keppninni fengum við til dæmis frábært tækifæri að kynnast hugbúnaðargeiranum sem við þekktum lítið sem ekkert svo það er margt jákvætt við hana.“
Gulleggið hefur einnig hjálpað Crowbar með fjármögnun. Þó að peningaverðlaun í keppninni sjálfri séu ekki himinhá þá segir Stefán að Gulleggið hafi aðstoðað þá mikið við framhaldið. ,,Það hjálpaði til með fjármögnunina að taka þátt í Gullegginu og Startup Reykjavík. En þátttakan hjálpaði líklega mest til undirbúnings fyrir Kickstarter, að hafa góða hugmynd um hvernig átti að ,,pitcha“ hugmyndinni.“ Kickstarter er alþjóðleg hópfjármögnunarsíða sem frumkvöðlar og ný fyrirtæki um allan heim hafa nýtt sér. Strákarnir ákváðu að athuga hvort að alþjóðasamfélagið tæki vel í vöruna og fóru því þessa leið í stað þess að fara í gegnum Karolina Fund, sem er íslensk hópfjármögnunarsíða. Fjármögnunin gekk vonum framar og safnaðist meira en upphaflega var gert ráð fyrir. Stefán segir einnig að Gulleggið hafi hjálpað þeim að byggja upp tengslanet sem þeir segja eitt það mikilvægasta í ferlinu öllu.
En frumkvöðlastarfi fylgir mikil vinna sem er oft ólaunuð til að byrja með og getur það tekið á. Er það ómaksins virði? Stefán segir að þeirra markmið sé í rauninni að færa fólk nær þeirri hugsun að nota skordýr í matvæli. ,,Við viljum breyta heiminum aðeins. Fá fólk til að breyta hugsun sinni og borða skordýr. Ef peningur fylgir þessu að lokum er það bara plús.“
„Svo erum við þakklátir fyrir allt ótrúlega skemmtilega fólkið sem við höfum fengið að kynnast í gegnum ferlið. Bæði erlendis og hérna á Íslandi. Allt fólkið sem hefur gefið sér tíma frá vinnu til að aðstoða okkur og veita ráðgjöf,“ bætir Búi við. Búi segir jafnframt að það sé aldrei dauður tími og þetta sé ótrúlega gaman. ,,Við Stefán erum búnir að vera vinir síðan í menntaskóla og þekkjumst vel. Það er mikilvægt að mórallinn sé góður í teyminu og að það sé gaman í vinnunni. Ég lendi til dæmis aldrei í þannig vinnudegi að ég horfi á klukkuna og vona að tíminn líði hraðar. Svo mun þessi þekking á ferlinu líka nýtast vel í framtíðinni. Flest fyrirtæki á Íslandi koma eitthvað að, annað hvort þjónustu eða framleiðslu, og við höfum núna reynslu af hvoru tveggja.“
Texti: Sunna Mjöll Sverrisdóttir
Myndir: Håkon Broder Lund og Axel Sigurðarson