Í heimsókn hjá Háskólanema: Gunnhildur Gunnarsdóttir
Hin 26 ára gamla Gunnhildur Gunnarsdóttir býr í fallegri íbúð við Garðastrætið í miðbæ Reykjavíkur en hún er í cand.pshych námi við Háskóla Íslands. Stúdentablaðið kíkti í heimsókn.
Hver er þinn uppáhaldsstaður í íbúðinni?
Það væri lygi ef ég segði ekki sturtan mín, þrátt fyrir eiturgrænar flísar þá er hún er fullkomin að mínu mati. Þar sem ég er mikill morgundundari þá er ekkert heilagra en morgunsturtan og yfirleitt nær kaffiilmurinn úr kaffikönnunni minni að smeygja sér undir baðherbergishurðina. Næsta stig á morgundundi er að taka kaffibrúsann með í sturtuna og það er án efa framtíðarplan.
Hver eru þín uppáhalds húsgögn í íbúðinni?
Ætli það sé ekki sófinn minn í stofunni og ullarteppið úr Finnsku búðinni sem er yfirleitt með í för þegar ég ligg þar við lestur. Ég kæmist ansi langt með að hafa aðgang að góðum sófa, góðri mokkakönnu og þykku ullarteppi. Svo er ég líka mjög hrifin af rúmgóða borðstofuborðinu mínu sem rúmar marga góða matargesti við góð tilefni.
Hvar sækir þú þér innblástur fyrir heimilið?
Ég held að innblástur minn komi aðallega frá skandínavískri hönnun og ég er líka mjög hrifin af stílhreinni hönnun frá 50´s tímabilinu. Þegar ég ferðast til Norðurlandanna þá reyni ég að fá góðar hugmyndir og tek eitt og eitt með mér heim svo lengi sem það rúmast í ferðatöskuna. Svo á ég frábæra vini og fjölskyldu sem gefa sniðugar hugmyndir og góð ráð.
Hvernig myndirðu lýsa draumaheimilinu þínu?
Draumaheimilið mitt er heimili með stórum gluggum, góðri birtu og hátt til lofts. Þar væri rými til þess að skapa dansgólf við góð tækifæri og líka garður þar sem hægt væri að snæða úti á sumrin (þessa tvo daga á ári á Íslandi). Draumaheimilið mitt væri líka í nálægð við vini, fjölskyldu og nátturu, hana vil ég helst bara hafa beint í bakgarðinum.
Myndir: Fríða Þorkelsdóttir