Hvernig á að tapa öllum peningunum sínum á 10 dögum: fjármálaráð fyrir háskólanemendur
Ef ég þyrfti að veðja myndi ég skjóta á að það væri auðveldara að tapa mánaðarlaunum á 10 dögum heldur en karlmanni… Hér koma nokkur fjármálaráð sem þú ættir líklegast ekki að fylgja, innblásin af klassísku myndinni How to Lose a Guy in 10 Days.
Fyrst og fremst skalt þú splæsa eins og enginn sé morgundagurinn! Ertu vakandi klukkan 23:45 á þriðjudegi? Ekki gleyma að fá þér þriðjudagstilboð á Dominos jafnvel þó klukkan sé skriðin yfir miðnætti því það er endalaust af tilboðum til þess að velja úr! Og ef þig langar ekki í pizzu er það orðið auðveldara en nokkurn tíman áður að fá matinn beint að dyrum með þjónustu eins og Wolt. Sendingarkostnaður er æðisleg leið til að fleygja fjármunum.
Fjöldi fyrirtækja og stofnanna eru með námsmannaafslátta því ættir þú að nýta þér hvert tækifæri. Þú ættir í rauninni að hafa það að leiðarljósi að nota stúdentaafsláttarlistann eins og gátlista! En í fullri alvöru, hver hefur tíma til þess að elda ofan í sjálfan sig? Þú gætir alveg eins farið út að borða í hverri máltíð, það sparar svo mikinn tíma að þú kemur bara út á jafnt. Svo eru margir staðir með alls konar sniðug tilboð svo ef þú ert að fá þér mat, ekki gleyma að fá þér drykk!
Ef þú ert ekki að fara út á lífið hverja helgi hvað ertu eiginlega að gera við lífið þitt? Og ekki gleyma að þú getur ekki látið sjá þig í sömu fötunum oftar en einu sinni þess vegna eru búðir eins og NewYorker og H&M bestu vinir þínir. Hver þarf vandað þegar þú getur keypt ódýrt og oft! Gleymdu svo ekki að hægt er að versla föt á netinu og fengið heimsent, ein besta leiðin til að koma bankareikningnum í núllið.
Þú skalt forðast það að fylgjast með útgjöldunum eins og heitan eldinn Það gerir engum gott að upplifa slíka vanlíðan. Ef kortinu er hafnað skaltu bara að skipta um kort! Sem kemur okkur að næsta punkti, ég ætla rétt svo að vona að þú sért að nota debetkort vegna þess að það er snilldar leið til þess að tapa peningum. Það fer auðvitað eftir kortinu en debetkortafærslur eru ekki gjaldlausar og í lok mánaðar greiðir þú fyrir notkunina.
Borga alla reikninga strax! Hverjum er ekki sama um smáaurana sem þú getur ávaxtað þegar þú geymir það að greiða reikningana? Talandi um það þá skiptir engu máli hversu háa vexti þú ert með á bankareikningnum þínum vegna þess að markmiðið er hvort eð er að eyða eyrinum 10 dögum eftir útborgun. Og hvað sem þú gerir, ekki leggja fyrir og ekki gera þér markmið, þannig ertu bara að takmarka sjálfan þig.
Þú þarft ekki að vera ríkur til þess að eyða eins og þú sért það. Kreditkort og smálán eru góð leið til þess að eyða eins og þér sýnist. Hafðu ekki áhyggjur af því að borga gjöldin fyrr en að því kemur. Þetta er það sem við í bransanum köllum seinnitímavandamál. Og eins og Andie segir undir lok myndarinnar: „´cause you cant lose something you never had“.
Ef þú ert ekki með neina fíkn þá er kominn tími til að næla sér í eina, snus, kaffi eða hvað annað því þetta er geggjuð leið til þess að tryggja að þú sért með stöðug útgjöld. Og gleymdu því að borga í stöðumæli, það er svo miklu meira spennandi að sjá hvort þú komist undan því að borga sekt. Þetta er í rauninni bara eins og að taka þátt í happdrætti.
Það er alls ekki erfitt að tapa öllum peningnum sínum á 10 dögum. Samblanda þess að hunsa fjárhagslega ábyrgð og að tileinka sér ógætilegar fjárhagsákvarðanir getur tryggt velgengni í slíku markmiði.