Lands elds, íss og Venusar

Þýðing: Lísa Margrét Gunnarsdóttir


Það var mæðradagur á Íslandi. Ég var stödd í bakaríi, nýkomin ofan af Akrafjalli ásamt nokkrum vinum. Bakaríseigandinn sagði mér að þessi hátíðisdagur væri ástæðan fyrir þeim hógværa fjölda karlmanna sem litu inn með börn sín, konunum sem mættu ásamt vinum og vinkonum sínum, og einstaka konum sem kíktu einar. 


Þetta var áhugaverð og nokkuð furðuleg sjón að sjá. Ég fylgdist með eldri konum ganga á eftir stressuðum, fullorðnum dætrum sínum, mönnum ganga um gólf með hendur í vösum, og ungum konum rannsaka eftirréttaúrvalið fjarrænar á svip. Ég, meðvituð um það hvernig ég á það til að oftúlka svipbrögð annarra, ákvað að sleppa því að draga ályktanir um augnatillit ókunnuga fólksins í bakaríinu. Í staðinn ímyndaði ég mér hvernig ég gæti kryddað söguna um þessa gönguferð mína þegar ég segði ástvinum mínum hana seinna. 


Þremur dögum eftir þessa upplifun (öllum þótti mikið til gönguferðar minnar koma) fékk ég mér sæti í biðstofu Bjarkarhlíðar, þjónustumiðstöðvarinnar fyrir fullorðna þolendur ofbeldis á Íslandi, sem ég heimsótti sem hluta af vettvangsferð jafnréttisskóla GRÓ, þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu. Árið 2022 fjölgaði tilfellum heimilisofbeldis, en lögregluyfirvöldum á landsvísu bárust allt að sjö tilkynningar um heimilisofbeldi á dag. 


Á meðan ég hlustaði á fulltrúa Bjarkarhlíðar útskýra sálfræðileg áhrif ofbeldis á konur, hugsaði ég aftur til dagsins í bakaríinu og ímyndaði mér konurnar sem ég hafði séð á þessum hálftíma sem ég eyddi þar inni. Hvað voru þær að hugsa og hvernig leið þeim þegar þær vöknuðu um morguninn? Hvaða merkingu hafði þessi tiltekni dagur í huga þeirra? Voru þær einfaldlega að heimsækja uppáhalds bakaríið sitt, eða hafði heimsóknin einhverja dýpri merkingu fyrir þær? 


Á síðasta ári, eins og fjallað var um í fjölmiðlum um allan heim, átti sér stað kvennaverkfall á Íslandi sem hafði yfirskriftina: Kallarðu þetta jafnrétti? Ég rakst á svarið við þeirri spurningu þegar ég heimsótti Þingvelli síðastliðinn mars.


Mynd af minningarvarðanum í þjóðgarðinum, tileinkuðum drekkingarhylnum sem fjölda kvenna var drekkt í árið 1729.

Staðurinn þar sem elsta þing heims, Alþingi, var fyrst sett, reyndist líka vera staður þar sem 18 konum var eitt sinn drekkt fyrir dulsmál - sakamál þar sem konur ólu barn á laun og myrtu eða báru út. Á meðan ég las upplýsingarnar við minnisvarðann skynjaði ég sjálfsgagnrýna tóninn í orðunum sem þar stóðu, og hnyklaði brýrnar á meðan þúsund spurningar flugu í gegnum huga minn. Átti mannfólk alls staðar í heiminum virkilega svona erfitt með að líta á konur sem þenkjandi tilfinningaverur; jafningja sem ættu að hafa ákvörðunarrétt yfir eigin lífi?


Hver græddi á slíku misrétti? Hver hafði mesta hagsmuni af því að láta það viðgangast? Hversu rótgróið var það í samfélaginu? 


Og síðast en ekki síst, hversu langan tíma tók það okkur að brjóta það á bak aftur?


Eftir því sem ég hugsaði meira um þessa þætti kynjamisréttis, áttaði ég mig á því að misrétti náði aftur til forngrískra bókmennta. Í leikritinu Medeu eftir Euripides segir aðalsöguhetjan, Jason, eftirfarandi við ástkonu sína - konuna sem valdi að styðja hann á kostnað þess að svíkja samfélagið sem hún tilheyrði:

„En þið konur / hafið komist á það stig að ef allt leikur í lyndi í kynlífi ykkar, / hafið þið allt sem þið gætuð óskað ykkur, en ef það fer úrskeiðis, fuðrar allt sem er gott og göfugt samstundis upp. Það vildi ég, að gætu karlmenn getið börn á annan hátt, og engar konur væru til, / svo ekki hefði á mönnum dunið bölvun nein!“

Það er óhætt að segja að álit söguhetjunnar Jason á konum hafi einkennst af djúpstæðu hatri og fordómum. Reyndar kannast mörg okkar ábyggilega við að hafa þekkt okkar eigin Jason. Vinur okkar, bróðir, faðir, maki, samstarfsmaður, nágranni, ókunnugur einstaklingur á internetinu, gangandi vegfarandi, yfirmaður, læknir, vísindamaður, búðareigandi, leigubílstjóri, bakarísgestur, og svo mætti lengi áfram telja. 

Tilvist allra þessara Jasona og líkindin á milli þeirra um allan heim fékk heimspekinginn Kate Manne til þess að skilgreina kvenhatur (e. misogyny) sem menningarlega aðferð til að knýja fram og viðhalda kynjuðu valdaójafnvægi - feðraveldi. Kynhyggja sem kerfi úthlutaði ójöfnum kynhlutverkum vegna þess að kynjatvíhyggja felur í sér að annað kynið sé hinu æðra. 

Á meðan karlmenn trónuðu uppi á Lögbergi til að ræða mikilvæga hluti varðandi lög landsins, lágu konur niðri í Drekkingarhyl og reyndu að troða marvaða í kynjakerfi sem hélt þeim niðri tilfinningalega, líkamlega og andlega. 

Ég kom til Íslands í þeirri trú að hér myndi ég læra meira um mannlega reisn og lýðræði. Því lengur sem ég bjó hér, áttaði ég mig betur og betur á því að undir frosnu yfirborði jafnréttisins logaði eldur. Mér varð ljóst að jafnrétti kynjanna er draumur sem er ekki fyllilega orðinn að veruleika og er enn útópísk von í hjörtum margra. 

Og þó (ah, hið feminíska „og þó“!) hefur tilvist eldsins kennt mér dýrmæta lexíu: að kafa dýpra ofan í upptök jafnréttisbaráttu og takast á við rætur hatursins. Að leyfa glóðum spurninganna sem brenna á okkur að bræða ísinn. Þegar við spurðum spurningarinnar „Kallarðu þetta jafnrétti?“ voru konur, kynsegin einstaklingar og hinsegin minnihlutahópar á Íslandi í rauninni að spyrja sig sjálf og hvert annað hvort staða kynjajafnréttis í íslensku nútímasamfélagi væri feminíska útópían sem okkur dreymdi um? Erum við komin þangað? Er þetta nóg?

Á sama tíma og kvennaverkfallið átti sér stað hér á landi var jafnréttisbaráttan á Indlandi komin mun styttra. Við vorum rétt að byrja að ræða þann lúxus að vera ekki misnotuð í strætó, fjarstæðukennda og útópíska drauminn um að labba ein að kvöldi til, og fyrir þau okkar sem fá aldrei að opna augun, drauminn um að koma inn í þennan heim umlukin hlýlegum brosum ástvina okkar. Þegar ég fylgdist með Íslandi takast á við þessi grundvallaratriði kynjajafnréttis bráðnaði frosna brosið á vörum mér. Rétt eins og konurnar í bakaríinu, komum við inn á mismunandi tíma og báðum um ólíka hluti, en vorum sameinuð í hugmyndafræði okkar, og þeirri trú að það er okkar að ákveða hvað við teljum jafnrétti vera.

Og það er svo sannarlega ekki þetta.

Hameeda Syed