Vetrarspá
Frostið er komið, vefðu þig vel inn.
Þýðing: Guðný Brekkan
Þetta er opinber neyðarútsending frá Stjórn heimsins. Kjarnorkuveturinn heldur áfram og hiti á jörðinni er ennþá í sögulegu lágmarki. Vinsamlegast haldið ró ykkar. 0R4CL3-gervigreindarútreikningsþjónustan hefur spáð fyrir um bestu mögulegu niðurstöðurnar fyrir ykkur öll. Þær eru sem hér segir.
Steingeit (22. desember - 19. janúar)
Við vissum að það væri kalt, kæra steingeit, en í þessum mánuði verður þú að vera kaldlynd. Þar sem forsætisráðherrann er nú frosinn fastur, verður þú að bregðast hratt við ef þú vilt næla þér í sæti í þessari hrynjandi heimsstjórn.
Vatnsberi (20. janúar - 18. febrúar)
Vatnsberi, þennan mánuðinn mun allt ríða á herðum þér. Þú ferð einn yfir frosið Norður-Íshafið í von um að finna fræbankann á Svalbarða. Vonandi mun óþjálfað framferði þitt valda minni skaða á fræjunum en kjarnorkusprengjurnar.
Fiskar (19. febrúar - 20. mars)
Fiskar, í þessum mánuði mun reyna á samningshæfileika þína. Sjókrabbar norðurslóðanna munu rísa upp úr djúpinu til að gera tilkall á yfirborðið. Aðeins þú getur komið í veg fyrir þessa eyðileggingu af völdum krabbadýra.
Hrútur (21. mars - 19. apríl)
Þitt glaðlega eðli færir öllum í kring um þig gleði, hrútur. Hins vegar hefur þú verið í byrginu með sömu tólf manneskjunum í átta mánuði. Þær vilja að þú haldir kjafti. Réttara sagt: Þær þurfa að þú haldir kjafti.
Naut (20. apríl - 20. maí)
Þú hefur alltaf haft djúpa, andlega og annars heims tengingu við náttúruna. Nei, þú mátt ekki knúsa ísbjörninn. Láttu hann vera. Ég vara þig við. Hann mun éta þig.
Tvíburar (21. maí - 20. júní)
Tvíburar, þennan mánuðinn fyllist þið nýjum og björtum hugmyndum. En þrátt fyrir að fæðuframboð okkar fari dvínandi, uppskeran hafi brugðist og engin björgun í sjónmáli, gæti mannát verið slæm hugmynd.
Krabbi (21. júní - 22. júlí)
Í þessum mánuði mun þér takast að frysta forsætisráðherrann, vinna skemmdarverk á fræbankanum á Svalbarða, sleppa ísbirni lausum á nautið og tæla sporðdrekann. Vel að verki staðið. Allir fagna snjókrabbanum. Megi gripkló okkar myrkva sólina.
Ljón (23. júlí - 22. ágúst)
Ljón, í þessum mánuði þarftu að velja fyrir okkur öll. Hrúturinn hættir ekki að tala og bogmaðurinn hættir ekki orðaleikjunum. Það er ekki nægur matur fyrir okkur öll tólf. Hvern munum við reka út í auðnina? Sem leiðtoginn verður þú að velja, ljón. Atkvæði mitt fær hrúturinn.
Meyja (23. ágúst - 22. september)
Meyja, þú ert með djúpa, meðfædda tengingu milli líkama og hugar. Svo, þegar líkami þinn verður fyrir geislun á marga hryllilega vegu í þessum mánuði, munt þú vita það. (Ábending: Þú átt ekki að vera með þrjátíu og eitt auga). Þú verður annaðhvort að yfirgefa byrgið sjálfur eða vera rekin út. Bið að heilsa voginni.
Vog (23. september - 22. október)
Mér þykir fyrir því vog, en ég hef ekki góðar fréttir fyrir þig. Þú munt deyja í snjónum; í kuldanum, týnd á fjöllum undir berki ískaldra trjáa mun líkami þinn liggja frosinn. Þú getur huggað þig við þá staðreynd að þú lítur svolítið út eins og Jack Torrence í lokin á The Shining.
Sporðdreki (23. október - 21. nóvember)
Þú þarft að hafa stjórn á aðstæðunum, sporðdreki. Þennan mánuðinn munt þú ekki geta leynt svívirðilegu ástarsambandi þínu við snjókrabbafólkið frá restinni af hópnum. Þau munu komast að því, við skulum bara vona að þau séu opin fyrir krabbameinsmyndun.
Bogmaður (22. nóvember - 21. desember)
Bogmaður, ég þarf að fá þig til að hætta að segja „Hættu að væla, komdu að kæla”. Það er bókstaflega heimsendir, öllum er kalt og bjartsýni þín særir mig. Ég ætla að gefa þér kalda öxlina. Fjandinn! Nú hefur þú fengið mig til að gera þetta.
Þetta var neyðarútsending frá Stjórn heimsins. Þetta eru lokaskilaboð okkar, þar sem hitarinn bilaði í útvarpsturninum. Þar til hitastigið hækkar aftur, hafið það svellkalt og gott. Sjáumst.