Jaðarsetning, tungumál og nýir Íslendingar
Það eru margar hindranir sem útlendingar mæta þegar þeir vilja læra íslensku. Það getur til dæmis verið miserfitt eftir því hvaða móðurmál fólk hefur. En máltaka fer líka eftir samfélaginu – samfélagið getur hjálpað þér eða það getur eyðilagt fyrir þér. Því miður hef ég upplifað hið síðarnefnda.
Flóttamenn fá kennitölu en eru oft um leið dæmdir ásamt börnum sínum til að lifa á þröskuldi fátæktar og vera alltaf í þjónustugeiranum – og það getur líka verið hulinn tilgangur.
Í skólum er mikill námsbrestur af hálfu útlendinga. Til dæmis á ég dóttur í menntaskóla og það var ekki auðvelt fyrir hana að komast þangað. Í hennar bekk eru þrír nemendur af erlendum uppruna og allir kvenkyns, tvær fæddust hér og dóttir mín kom níu ára gömul til Íslands.
Í grunnskólanum er eins og innflytjendur séu dæmdir til að eiga líf í undirheimunum. Fyrst eru erlendu börnin einangruð frá íslensku börnunum. Það er sagt vera til að hjálpa þeim að tileinka sér tungumálið. En svo fylgir ekki nægileg áætlanagerð eða markmið í náminu né eru skólarnir alltaf tilbúnir til að veita þessa aðstoð á þann hátt að hún beri árangur.
Íslendingum þykir vænt um tungumálið sitt og stundum heyrast áhyggjur þeirra af því að íslenskan deyi með þessu nýja fólki sem kemur hingað. En vandamálið er ekki bara hvort nýja fólkið tali íslenska tungu eða ekki, vandamálið er stærra en þetta.
Ég veit af unglingum af erlendum uppruna sem eiga slæma reynslu úr grunnskólunum, síðan alast þessir Íslendingar af erlendum uppruna upp við beiskju gagnvart samfélaginu. Maður getur spurt sig hvort manneskja sem hefur þjáðst á þennan hátt í bernsku sinni og á unglingsaldri muni hafa áhuga á menningunni í nýja þjóðfélaginu og siðum samfélagsins sem hjálpaði henni ekki í félagslegri aðlögun?
Sjálf hef ég mætt margs konar erfiðri reynslu varðandi þetta. Einn daginn var ég á göngu með fjölskyldu minni sem kom frá Sviss til að heimsækja okkur. Þetta var um fjörutíu dögum eftir að ég fæddi yngstu dóttur mína. Allt í einu kom að okkur maður um fimmtugt og hóf að móðga mig og sagði mér að fara af Íslandi, Ísland væri kristið land og svo framvegis. Skömmu síðar birtist pólskur maður sem hélt áfram að móðga mig og hrækti á okkur. Dóttir mín, sem þá hefur verið tólf ára, sagði honum að trufla okkur ekki en maðurinn fór að elta okkur og hélt áfram að tala niðrandi til okkar. Þessi atburður var sem greyptur í huga barnanna minna upp frá þessu.
Auðvitað ræðum við foreldrarnir við börnin okkar og kennum þeim að bera virðingu fyrir hverri manneskju. En ekki eru allir tilbúnir til að laga svona vandamál.
Ef sex ára barn elst upp við þessa reynslu, að sjá foreldra sína verða fyrir illri meðferð af fáfróðu fólki og lendir síðan í sömu meðferð í skólanum, hvers konar fullorðinn manneskja myndi það verða?
Við verðum að læra af reynslu sumra evrópskra landa þar sem hluti af skemmdarverkunum stafar af ungum innflytjendum sem hafa aldrei fundist þeir vera hluti af samfélaginu vegna þess að þeir ólust upp jaðarsettir, kaffærðir af þeirri staðreynd að vita ekki hvar þeir tilheyra. Því að í landinu sem tók á móti þeim – eða þar sem sumir jafnvel fæddust – var aldrei tekið á móti þeim sem fullgildum borgurum. Þessir unglingar alast margir upp án hvers kyns menntunar en þeirra eina leið er að vekja athygli á því á einhvern hátt og getur sú leið verið verst.
Viljum við jákvæða borgara í samfélagið? Auðvitað, en við verðum að vinna í því, við verðum að brjóta niður þær hindranir sem koma í veg fyrir félagslega aðlögun eins og rasisma og skort á umburðarlyndi. Það þarf líka að forðast samþjöppun innflytjenda á afmörkuð svæði, þó að það sé erfitt vegna þess að fleiri útlendingar búa í hverfum þar sem húsnæði er ódýrara.
Félagsleg aðlögun er lykilatriði fyrir manneskjulegra og sameinaðra samfélag. Við innflytjendur viljum vera hluti af félagslegu umhverfi og leggja okkar af mörkum til að framfylgja þeim viðmiðum og gildum sem skilgreina íslenska þjóðfélagið sem við búum í.
Kæru Íslendingar, verið ekki hrædd við okkur nýju, við komum ekki til að taka frá neinum vinnu, við komum til að vinna í þeim störfum sem þú vilt ekki. Íslenska tungumálið mun heldur ekki hverfa með okkur, þvert á móti, ef við höfum tækifæri og það verður auðveldara fyrir okkur að læra íslensku verðum við fleiri sem tölum íslensku og leggjum okkar af mörkum til að byggja upp þetta heimaland. Við þurfum bara tíma, góða meðferð og tækifæri. Ef þú eignast nágranna, vinnufélaga eða fjölskyldumeðlim af erlendum uppruna sem talar ekki íslensku, ekki einangra hann, ekki hunsa hann, kannski bíður hann eftir að geta hafið einfalt samtal til að hlusta og læra smá íslensku.