Allt um flugelda á Íslandi: Er kostnaðurinn þess virði?

Í landi elds og íss birtist náttúra og fjölbreytileiki í sinni fegurstu mynd. Frosin stöðuvötn, kraumandi hverir og allt þar á milli gerir Ísland að ómótstæðilegum áfangastað fyrir ferðafólk um allan heim. Hverir, eldgos, íshellar og svartir sandar heilla á landi, á meðan himininn skartar Aurora Borealis, norðurljósunum, dansandi sjónarspili ljóss og lita. 

Það er hins vegar ekki eina aðdráttarafl landsins. Undir lok hvers árs, þegar jólin hafa komið og farið, hefst undirbúningur við næstu hátíð. Íslenska þjóðin hefur einsett sér að gera sem mest úr gamlárskvöldi, enda ekki vön því að vera umkringd hinu venjulega.

 

Hvað á sér stað á gamlárskvöldi? 

Fyrir utan fjölskylduboð og nýársdjamm, er íslenska flugeldahefðin óneitanlega þess virði að upplifa. Hafandi upplifað íslensku flugeldana sjálfur, er ég fullviss um það að Íslendingar taka nýársfögnuð skrefinu lengra en margar þjóðir. Fólk byrjar að sprengja um 20:00 og heldur áfram þar til um miðnætti. Ef þú fagnar nýju ári á Íslandi, verður þér bent á að kíkja út og upplifa annars konar ljósadýrð en norðurljósin. Það sem kemur mér mest á óvart er að flugeldar eru ólöglegir á Íslandi, nema á þessum tímamótum þar sem gamalt ár er kvatt og nýtt ár boðið velkomið. 

Þessi hefð er nátengd björgunarsveitum landsins, þar sem öll flugeldakaup renna óskipt til styrktar starfi þeirra. Íslenska náttúran er vissulega fögur, en að sama skapi ægileg þar sem allra veðra er von. Á hverju ári svara björgunarsveitirnar yfir þúsund neyðarútköllum, og fer þeim útköllum sífellt fjölgandi vegna vaxandi ferðamannaiðnaðarins. Þar svara björgunarsveitirnar sannarlega kallinu.

Í mínum augum tákna flugeldarnir meira en nýtt ár. Þeir vísa til allra þeirra mannslífa sem björgunarsveitinar hafa bjargað og munu halda áfram að bjarga með dyggum stuðningi samfélagsins. Íslendingar kaupa yfir 500 tonn af flugeldum sem sprengdir eru upp á gamlárskvöldi. Því má segja að gamlárskvöld sé birtingarmynd af ástríðu þjóðar, viðbragðshæfni og eldmóði þegar nýtt ár er framundan. Flugeldadýrðin er alls ótengd yfirvöldum eða sveitarfélögum, og snýst fyrst og fremst um eftirvæntingu fólks fyrir nýjum tímum og hækkandi sól auk skýlauss stuðnings við björgunarsveitir landsins. 

 

Eru flugeldar eina leiðin til þess að fagna nýju ári?

Ef þér er annt um umhverfið, ætti ekki að koma þér á óvart að staðfestan og samheldnin sem felst í flugeldahefð Íslendinga felur í sér talsverðan kostnað. Kostnað í formi hljóð- og svifryksmengunar vegna linnulausra sprenginga. Þó að ég hafi notið flugeldanna, átti ég sem stúdent mjög erfitt með að sofna, meira að segja daginn eftir, þar sem fólk átti enn flugelda afgangs (og ég þurfti að mæta í tíma snemma næsta morgun).


Flugeldar geta verið táknrænir á marga vegu, en þeim fylgir óhjákvæmilega mikil umhverfismengun. Ef markmiðið er að styðja við starfsemi björgunarsveita, er hægt að veita þann stuðning á sjálfbærari hátt. Árin 2010 - 2022 leituðu 248 manns læknisaðstoðar vegna flugeldaslysa. Rannsókn í Læknablaðinu sýndi að 39% þeirra slysa urðu vegna gallaðra flugelda. Rannsóknin greindi einnig frá því að 22 hefðu verið lögð inn á Landspítala í kjölfar slysa. Hér erum við einungis að tala um eitt kvöld þar sem hægt er að sprengja ótakmarkað magn flugelda, sem sýnir glöggt að vandinn er stærri en hann virðist ef til vill vera.


Lausnin við þessu er hlægilega einföld - engar undantekningar ættu að vera heimilar hvað varðar flugeldabann. Ef flugeldar eru ólöglegir í landinu, ætti ekki að beygja lögin vegna einnar kvöldstundar, sérstaklega ef allsherjarbann dregur úr mengun og slysum. Í hvert sinn sem við sprengjum upp flugeld, töpum við möguleikanum á því að tryggja grænna og öruggara umhverfi fyrir íslenskt samfélag.


Flugeldar eru ekki bara skaðlegir umhverfinu, þeir hafa veruleg áhrif á fólk með öndunarfæraörðugleika- og sjúkdóma og fólk frá stríðshrjáðum svæðum. Ef ætlunin er að stuðla að frelsi, er kannski kominn tími til þess að skipta um gír.


Hvað björgunarsveitirnar varðar, er hægt að finna fjölda annarra leiða til þess að styrkja þær - ljósasýningar, tónlistarhátíðir, skipulögð hátíðarhöld leidd af fagfólki, gróðursetning trjáa og margt fleira. Markmiðið er jú að fagna frelsinu, ekki takmarka það til lengri tíma litið.