Orðræða og öðrun: Um vægi tungumálsins í stjórnmálafræðilegu samhengi
Ég heyri oft sem stjórnmálafræði- og málvísindanemi að fólki finnist námið mitt skrítin blanda, sem er skiljanlegt því þetta eru ólíkar greinar á mismunandi sviðum innan háskólans. Hins vegar skarast málvísindi og stjórnmál töluvert meira en fólk grunar. Stór hluti náms míns í málvísindum snýst um að velta fyrir mér orðum; hvaðan þau koma og hvað þau þýða. Að sama skapi er orðræðugreining mikilvægt verkfæri til að skilja viðhorf þjóða gagnvart ýmsum málefnum. Í hvoru náminu fyrir sig hef ég lært um orðræðugreiningu og þó nálgunin sé ólík þá er grunnurinn sá sami: Orð eru ekki hlutlaus og það skiptir máli hvernig við tölum um hlutina. Ég vil taka sérstaklega fyrir í þessari grein nokkur orð sem við þekkjum öll og eru mikið notuð í umræðu um innflytjendur og flóttafólk. Þetta er engan veginn tæmandi listi og tekið skal fram að oft er merking orða jafn mikilvæg og orðin sjálf.
Eftir því sem Ísland verður fjölmenningarlegra eykst nauðsyn þess að standa vörð um tungumálið okkar án þess að ýta undir ójöfnuð eða viðhalda orðræðu sem ýtir undir öðrun (e. othering). Þó þetta kunni að virðast augljóst og jafnvel sjálfsagt er auðvelt að láta slíka orðræðu framhjá sér fara. Dæmi um slíka orðræðu er þegar talað er um aukinn fjölda flóttafólks innan Evrópu sem „flóttamannaógn“ og „flóttamannavanda“ sem eru afar gildishlaðin orð. Merking seinni hluta orðanna, ógn og vandi, gefur til kynna að komu flóttafólks til landsins fylgi erfiðleikar og vandamál sem munu bitna á samfélaginu. Orð skipta máli og fólk ætti að gera sitt besta til að tryggja að íslenskan verði inngildandi og koma í veg fyrir að orðaforði hennar innihaldi niðrandi og afmennskandi hugtök.
Samkvæmt lögum um íslenskan ríkisborgararétt telst hver sá sem ekki er íslenskur ríkisborgari útlendingur. Fólk sem sækir um að koma til landsins fer í gegnum stofnun sem kallast Útlendingastofnun. Á ensku nefnist stofnunin Directorate of Immigration eða Innflytjendastofnunin. Er það ekki lýsandi nafngift þar sem hún sér um að veita fólki vernd og dvalarleyfi sem sest hér að? Hversu lengi á fólk að teljast „útlendingar“? Þessi stöðuga öðrun og útskúfun sem fólk verður fyrir af hálfu stofnunarinnar er tegund af öráreitni. Orðin Útlendingastofnun og útlendingalög gefa til kynna að innflytjendur og flóttafólk fólk séu alltaf utanaðkomandi og ekki samþykkt inn í íslenskt samfélag.
Töluverð umræða hefur skapast um orðið „aðlögun“ og hvort það sé við hæfi að tala um aðlögun innflytjenda. Þó merking orðsins sé ef til vill ekki illa meint, fylgja henni þau undirliggjandi skilaboð að fólk eigi að aðlagast því sem er fyrir og verða alíslenskt til að öðlast samfélagslega samþykkt. „Aðlögun“ tekur ekki til greina aðra menningarheima og setur ábyrgðina á þá sem hingað koma. Fólk ætti ekki að þurfa að sniðganga sína siði og gildi til þess að vera samþykkt af Íslendingum. Þetta orð er óneitanlega gildishlaðið og gefur í skyn að fólk af erlendum uppruna sé ekki velkomið nema á forsendum Íslendinga. Fjölbreytt flóra fólks auðgar hins vegar íslenska menningu og það er lykilatriði fyrir velmegun samfélagsins að taka þeim opnum örmum. Eiríkur Rögnvaldsson, málfarslegur aðgerðasinni, hefur fært rök fyrir því að nota orðið rótfesta í stað þess að tala um aðlögun:
„Við viljum ekki endilega að innflytjendur lagi sig að íslensku samfélagi á allan hátt, en við viljum að þeir festi rætur í því og auðgi það, á sama hátt og ýmsar jurtir af erlendum uppruna hafa fest rætur í íslenskri mold og auðgað íslenskt gróðurfar. Eins og jurtirnar verða þá að þola íslenskan jarðveg og íslenskt veðurfar verða innflytjendur að vera sáttir við íslenskt samfélag án þess endilega að laga sig að því í einu og öllu.“
Enska orðið „refugee“ á sér áhugaverða sögu. Elsta dæmið um notkun orðsins er lýsing á frönsku mótmælendunum Húgenottum eftir að þeir flúðu landið vegna ofsókna í kjölfar ógildingar Nantes tilskipunar Hinriks fjórða sem veitti mótmælendum samvisku- og trúfrelsi. Orðið má túlka á tvenna vegu. Annars vegar „hver sá sem sækist eftir hæli“ og hins vegar „hver sá sem flýr heimili sitt“. Franska orðið refugié kemur frá latneska orðinu refugium sem mætti þýða sem „athvarf“. Það er því hvorki skrýtið né rangt að íslenska þýðingin sé flóttamaður. Latneska orðið refugium er myndað af forskeytinu re- sem merkir aftur eða til baka og sögninni fugere sem er að flýja eða sleppa. Enska orðið hefur ekki nákvæmlega sömu merkingu því það merkir fólk á flótta og einnig fólk í leit að griðastað. Slíka tvíræðni er ekki að finna í íslenska orðinu. Orðið flóttafólk er ekki slæmt í sjálfu sér enda mjög lýsandi en í samfélagsumræðu líðandi stundar og í því samhengi sem orðið er notað er neikvæður blær yfir því. Því er mikilvægt að íhuga hvort taki eigi upp nýtt orð eða að minnsta kosti breyta umræðunni svo orðið flóttamaður feli einnig í sér að viðkomandi sé í leit að griðastað. Seinni valkosturinn inniheldur viðhorfsbreytingu en ekki nýyrðasmíð.
Það skiptir máli hvernig talað er um hluti, fólk og atburði á opinberum vettvangi, af stjórnvöldum og í fjölmiðlum; orðræða mótar viðhorf og hugsunarhátt samfélagsins. En það eru ekki aðeins ofantaldar stofnanir sem bera ábyrgðina. Tungumálið á einungis við um þau orð sem eru ráðandi. Jú, við höfum öll ákveðna máltilfinningu en við veljum samt orðin okkar þegar við tjáum okkur. Við tökum meðvitaða ákvörðun um orðaval okkar. Orð eru stórbrotið fyrirbæri. Hægt er að beita þeim á ýmsan hátt, nota skrautyrði til að fegra hluti og sögu en einnig til þess að útiloka hópa, fordæma, mismuna og útskúfa. Málin og málið flækist þegar kemur að pólitíkinni. Tungumál eru aldrei hlutlaus í stjórnmálum. Bæði beiting málsins og það hvaða tungumál er notað er hápólitískt. Með þetta í huga ætti því ekki að vera svo fráleitt að taka upp ný orð og vanda orðaval þegar jafn mikilvægur málaflokkur og málefni flóttafólks og innflytjenda er annars vegar.