Munum við einhverntímann finna útópíu fyrir hinsegin fólk? Hugleiðing
Í dag væri góður dagur til að vakna og finna það innilega hvað hver og ein manneskja á þessari jörð er dýrmæt og elskuð. Öllum væri tekið fagnandi. Væri það ekki frábært? Algjörlega útópískt. Okkur dreymir oft um slíkan dag og við þráum að vakna þann morguninn. En dagdraumarnir um slíka útópíu endast aldrei lengi, þar sem okkur er kippt harkalega inn í raunveruleikann á hverjum degi. Hinsegin fólk þarf að sætta sig við ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu, fjölmiðla sem taka afstöðu gegn því, almenna niðurlægingu og að horfa upp á afturþróun í réttindabaráttu þess. Við þurfum horfa upp á ástvini okkar deyja algjörlega afstýranlegum dauða. Við þráum að búa í heimi án kerfisbundins ofbeldis, haturs og ótta. Við þráum að vita af því að fólk nákomið okkur sé öruggt, að fólk með svipaðar upplifanir og við (og ekki) sé öruggt. Við þráum að okkur finnist við örugg. Við þráum að allt fólk jarðarinnar finni fyrir örygginu sem við óskum okkur sjálfum og ástvinum okkar. En við getum lítið gert og okkur er almennt ekki tekið alvarlega.
Upprunalega átti þessi hugvekja að lýsa hinsegin útópíu, en endrum og eins vafðist raunveruleikinn fyrir okkur. Það fylgir því ákveðin sorg að hugsa um útópíuna, því okkur líður eins og hún hafi aldrei verið jafn óframkvæmanleg á okkar lífstíð. Rætur orðsins útópía er orðagrín, gríska orðið ou-topos, og þýðir hvergi, einskis staðar. Það er keimlíkt orðinu eu-topos, sem þýðir góður staður. Þetta er hálf grátbroslegt, þar sem hinsegin fólk alls staðar í heiminum þjáist undan kúgunarvaldi sísgagnkynhneigðarhyggju, feðraveldinu og bókstaflegum fasisma og finnst það hvergi finna virkilega góðan stað.
Ísland er undir mestum menningaráhrifum frá Bandaríkjunum, en akkúrat núna uppfylla Bandaríkin öll skilyrði til að mega kallast fasískt ríki. Þjóðernishyggja, ritskoðun og herhyggja í bland við það að valdir minnihlutahópar eru gerðir að blórabögglum allra vandamála samfélagsins. Þjóðin er sameinuð í hatri á hinsegin fólki, fólki af öðru litarhafti en hvítu og þau grunnréttindi kvenna og leghafa að hafa stjórn á eigin frjósemi hefur verið afturkölluð í mörgum ríkjum. Þetta er allt tengt. Íslenskt samfélag er ekki ónæmt fyrir þessum menningarstraumi. Um daginn sagði ónefndur fyrrum forsætisráðherra Íslands opinberlega að bankahrunið í Bandaríkjunum væri trans fólki að kenna. Fjölmiðlar hérlendis hafa verið að gefa þessari umræðu og annarri umræðu sem dregur í efa tilverurétt trans fólks meðbyr, en það skapar vettvang fyrir fólk til að sameinast í hatri. Það er vert að nefna að samkvæmt módeli þjóðarmorðs er þjóðarmorð á trans fólki komið á skref sjö af tíu í Bandaríkjunum. Það er ekki illt fólk sem heldur uppi fasisma. Það er gott fólk sem situr aðgerðarlaust hjá. Útópían getur ekki orðið að veruleika í bráð, nema gott fólk taki sig saman og taki afstöðu gegn hatri. Þetta er mögulegt, með því að gera sem flest vel upplýst um bæði hvað fasismi felur í sér og hvað bætt mannréttindi eru í raun öllum til góðs. Það tapar enginn á auknum mannréttindum.
Við sem þjóð gefum okkur oft of mikið klapp á bakið fyrir að vera „ekki eins og hinar þjóðirnar“ þegar kemur að mannréttindabrotum. Við erum ekki hinsegin paradísin sem við gefum okkur út fyrir að vera. Það er alltaf styttra í fasisma en fólk gerir ráð fyrir. En útópían býr hvergi, það er grunnurinn að orðinu sjálfu. Það væri alltaf möguleiki að komast eins nálægt henni og við getum. Við gætum breytt hugmyndinni okkar af ou-topos yfir í eu-topos og sagt skilið við hugmyndina um fullkominn stað. Í staðinn gætum við einbeitt okkur að góða staðnum. Hvergi getur þannig orðið einhversstaðar. Við sköpum okkur útópíur í mýflugumynd innan hinsegin samfélagsins. Þar getum við mætt, skilið fargið eftir við dyrnar, og fengið að gleyma okkur í smá. Aðeins að fá að miðjusetja jaðarinn og taka óhindrað það pláss sem við eigum skilið. Við fáum rými til að hlúa að okkur og birgja okkur upp af kjarki til að halda áfram að vera stolt af eigin hinseginleika, þangað til öll eru stolt af okkar hinseginleika. Okkur dreymir oft um að það að einn daginn verði það almenn vitneskja að ekkert okkar er frjálst fyrr en við erum öll frjáls. Að það verði samfélagsátak að komast nær útópíunni fyrir öll, þrátt fyrir að það yrði stöðug vinna og við mættum aldrei sofna á verðinum. Það væri gott að vakna þann morguninn.