Mannöldin: Öld öfugstreymis

Við mannfólkið eigum það til að eyða tíma okkar í að deila um alls konar ómerkilega hluti. Er Taylor Swift ofmetin? Á Ana de Armas skilið að vera tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir (slaka) frammistöðu sína sem Marilyn Monroe? Á að slaufa 14 ára unglingi sem sagði eitthvað umdeilt á TikTok? Sum okkar eyða meira að segja tíma og orku í rökræður um hvort jörðin sé flöt eða kringlótt, eða hvort það sé að kvikna í henni eins og hún leggur sig, beint fyrir framan okkur. Það er til aragrúi af sögulegum heimildum sem greina frá því hvernig mannkynið færðist smám saman fjær heiðni og náttúrudýrkun, og í dag finnum við sífellt meira fyrir því hvernig karma nær á endanum í skottið á okkur. Sama hvaða sönnunargögn eru kynnt gegn eða í þágu loftslagsvárinnar sem stendur núna yfir, þá er ein staðreynd sem er orðin óumflýjanleg: Jörðin er að brenna - og við getum ekki látið eins og það sé ekki satt lengur.

Græn hugmyndafræði og hnattrænt réttlæti

Loftslagskrísa jarðarinnar er gríðarlega mikið hitamál í dag (eins og við vitum flest), en öll þau samfélagstengdu vandamál sem hún skapar vega þyngra en mörg okkar gera sér grein fyrir. Á 8. áratugnum spratt fram umhverfismiðað sjónarhorn innan sviðs alþjóðasamskipta, svokölluð græn hugmyndafræði (e. Green theory), fram á sjónarsviðið, en það gengur út á að gagnrýna stefnur eins og nýfrjálshyggju og nýrealisma og vekja athygli á því hvernig hugmyndafræði þeirra nær ekki utan um aðkallandi vandamál loftslagsvárinnar. Græn hugmyndafræði hefur að gera með samband mannkyns við jörðina og aðrar verur sem á henni búa, og ögra einnig vestrænum nýfrjálshyggjutengdum viðmiðum hvað varðar auðlindir og neyslu, og áhrifin sem hvorutveggja hafa á loftslagið.

Það eru margar áhugaverðar pælingar til staðar innan grænnar hugmyndafræði, en ein þeirra heldur því fram að kúgun kvenna og eyðilegging loftslagsins haldist í hendur. Vistfemínistar (e. ecofeminists) er hópur fólks sem trúir því að tilkoma feðraveldisins hafi verið upphafspunktur loftslagsvárinnar sem knýr nú að dyrum sem aldrei fyrr. Ef við lítum til sögunnar og skoðum vísbendingar um forsöguleg samfélög, bendir margt til þess að mannkynið hafi einu sinni búið í mæðraveldissamfélögum og tilbeðið gyðjur í stað karlkyns guða. Samfélög sem litu á jörðina sem gyðju og móður, og tilbáðu hana sem slíka - þar sem konur voru heilarar, leiðtogar og mikils metnir meðlimir samfélagsins. Myrkar miðaldir og útbreiðsla trúarbragða eins og kristinnar trúar festu hins vegar kynhlutverk í sessi, og kerfisbundin eyðing gyðjunnar hélst í hendur við uppgang hins vestræna feðraveldis. Eftir því sem hið karllæga, vestræna samfélag dafnaði urðu miklar framfarir á sviðum tækni, stríðsreksturs og iðnvæðingar, en þessar framfarir voru byrjunin á afleiðingunum sem við lifum við í dag - eyðileggingu jarðarinnar. Gyðjur gamla heimsins og sagan sem þeim fylgdi urðu að víkja fyrir guðunum sem tóku við hlutverki þeirra. Konur sem höfðu þekkingu á lækningamætti náttúrunnar og mannslíkamanum voru úthrópaðar sem nornir í kjölfarið.

hvenær hættum við að tilbiðja jörðina sem gyðju og móður?

Vistfemínistar halda því fram að upphaf loftslagsvárinnar og uppgangur feðraveldisins haldist í hendur.

Önnur pólitísk hugmyndafræði sem varðar vistfemínisma einblínir á umhverfistengdan rasisma, sem gerir grein fyrir því hvernig stóriðja og úrgangslosun Bandaríkjanna á sér gjarnan stað í fátækari hverfum þar sem meirihluti íbúa er svartur. Þetta er eins og bergmál frá dögum aðskilnaðarstefnunnar þar sem svartir Bandaríkjamenn máttu einungis eignast húsnæði á vissum svæðum, sem gerði rasískum kapítalistum kleift að ákveða hvaða hópar innan þjóðfélagsins skiptu nógu litlu máli til þess að virða lýðheilsu þeirra að vettugi.

Þessar kenningar lýsa stöðunni sem mannfólk hefur komið sjálfu sér í. Hins vegar verður einnig að taka til greina dýralíf sem hefur einnig orðið fyrir gríðarlegum skaða af hálfu hugsunarlausra aðgerða mannkynsins. Í dag eiga sér stað fimmfalt fleiri náttúruhamfarir samanborið við síðastliðin 50 ár vegna loftslagsbreytinga sem ágerast æ hraðar og valda gríðarlegum skaða. Samkvæmt alþjóðlegum sjóði fyrir dýravelferð (e. International Fund for Animal Welfare) hefur hækkandi hitastig leitt til þess að vatnsból og gróður hefur þornað upp, sem þýðir að villt dýr eru neydd til þess að leita í sífellu að lífvænlegu búsvæði - en mörg þessara dýra deyja í kjölfar þessara breytinga á umhverfi sínu. 

Fyrir mörg okkar eru þessi sönnunargögn varðandi tilvist loftslagsvárinnar engar fréttir; mannkynið hefur valdið loftslagi jarðarinnar gríðarlegum skaða og mun gera það áfram ef við höldum áfram að horfa í hina áttina. 

Mikilvægi þess að bera virðingu fyrir jörðinni

Græn stjórnmál eru hugmyndafræði sem miðar að því að byggja upp sjálfbær og umhverfisvæn samfélög. Til þess að þetta geti orðið að veruleika verða stjórnvöld um allan heim að einsetja sér það að koma á fót umhverfissiðfræðireglum út frá grænni hugmyndafræði sem geta stuðlað að raunverulegum breytingum og tryggt að vistkerfi jarðarinnar lifi hreinlega af. Nú þegar konur og aðrir minnihlutahópar eru að komast í stjórnunarstöður í fleiri löndum, sjáum við strax meiri samkennd hvað varðar samfélagslegar áskoranir - og eins og ég tók fram að ofan, er orðið óhjákvæmilegt að nefna loftslagsmál. Á hverju ári lesum við um yfirdráttardag jarðar (e. Earth Overshoot Day), hina árlegu dagsetningu þar sem mannkyn fer yfir hámark þeirra náttúrulegu auðlinda sem jörðin endurnýjar yfir allt árið, og sjáum hvernig sá dagur rennur upp fyrr og fyrr á hverju ári. Almenningi er sagt að endurvinna plastruslið sitt, nota papparör og keyra dýra rafbíla því loftslagsbreytingar velti á okkur. Samt eru stærstu mengunarvaldarnir stórfyrirtæki, sem fá alls ekki nægilega gagnrýni fyrir ábyrgðina sem þau sannarlega bera. Hversu langt ætlum við að ganga áður en jörðin getur ekki meir?


Eitt svar við orðræðunni sem við sjáum gjarnan á netinu væri að hvetja aðra til þess að enduruppgötva þá virðingu sem við bárum einu sinni fyrir Jörðinni, virðinguna sem einu sinni var miðpunktur trúarbragðanna okkar. Við ættum að spyrja okkur sjálf: „Er ég tilbúið að axla ábyrgð á gjörðum mínum?“ áður en við færum út kvíar stórfyrirtækja okkar til annarra landa, til dæmis. Við ættum að velta fyrir okkur þeim breytingum sem áttu sér stað í náttúrunni eftir að flestar þjóðir lokuðu landamærum sínum snemma árið 2020. Við ættum að taka heilsu annarra með í reikninginn áður en við byggjum kísilver við hliðina á litlum sjávarþorpum og losa okkur markvist við kynþátta- og kvenfordóma okkar þegar við tökum slíkar ákvarðanir. Og þó að það gæti virst lítilfjörlegt, ættum við að flokka plastruslið okkar og nota ömurleg papparör - eða í það minnsta flokka plaströrin okkar. Því hvað í andskotanum ætlum við að gera þegar það er um seinan?


Heimildir:

1. Eckersley, Robyn. (2007). Green Theory. Í Dunne, Tim; Kurki, Milja; Smith, Steve (ritstj.), International Relations Theory (bls. 247–265). Oxford.

2. Kennett DJ, Plog S, George RJ, Culleton BJ, Watson AS, Skoglund P, Rohland N, Mallick S, Stewardson K, Kistler L, LeBlanc SA, Whiteley PM, Reich D, Perry GH. (2017). Archaeogenomic Evidence Reveals Prehistoric Matrilineal Dynasty.

3.  Jeanne de Montbaston. (2017). Pillars of Salt: Divorce and the Systematic Erasure of Women’s Voices.

4. Daniel Pavlinovic. (2021). Climate and weather related disasters surge five-fold over 50 years. UN News.

5.  International Fund for Animal Welfare. (2022, 28. febrúar). The Impact of Climate Change on Our Planet’s Animals.