Grænu Norðurlönd: Þröngsýni í umhverfishugsjónum
Við lítum gjarnan á minni útblástur sem merki um árangur í baráttunni gegn hnattrænni hamfarahlýnun. Árið 2015 urðu til 6,22 tonn af koltvísýringi fyrir hvern íbúa Íslands á íslenskri grundu - árið 2021 var sú tala komin niður í 4,23 tonn á íbúa. Hér munar tveimur tonnum eða einum þriðjungi, sem er gríðarlegt afrek hvernig sem á það er litið. Það er enn langt frá markmiði Parísarsáttmálans, en til að koma í veg fyrir loftslagshamfarir er talið að einungis megi framleiða 2,3 tonn á hvern íbúa jarðar á ári. Hér vantar því yfir 40% upp á en allt lítur til betri vegar, ekki satt? Af þessu að dæma ætti Ísland að teljast til fyrirmyndarríkja í baráttunni gegn hamfarahlýnun, samfélag sem þrífst og dafnar innan þolmarka jarðarinnar. Skínandi vonarstjarna sem vísar öðrum löndum veginn. Eða hvað?
Þó mælingin sé rétt er aðferðin samt skökk. Rammskökk. Hún tekur mið af útblæstri á Íslandi og er bundin við ákveðnar athafnir innan ákveðins rýmis. Hér er hvorki tekið tillit til neyslu né útblástursins sem er afleiðing hennar.
Þessi tala inniheldur ekki fartölvurnar, sjónvörpin, símana, bílvélarnar, flest fötin okkar eða jafnvel matinn okkar. Sem dæmi um slíka neyslu er vert að nefna föt og lúxusvörur. Útblásturinn er mældur þar sem varan er framleidd og tekur ekki endilega tillit til umbúða eða flutninga, þar sem framleiðslukeðjur heimsins eru orðnar mjög flóknar og teygjast þvers og kruss milli landa, frá upprunalandi hráefnis, til framleiðslu og lokum til endastöðva þeirra þar sem sjálf neyslan á sér stað. Kolefnisspor Íslendinga er mikið stærra en einungis sá koltvísýringur sem við losum innan landamæra okkar. Við gerum okkur mörg grein fyrir þessu að einhverju leyti, en hversu mikið misræmi er þarna á milli?
Nágrannaland okkar, Svíþjóð, gæti veitt einhverja innsýn í málið. Svíþjóð hefur lagt mikla vinnu í að draga úr útblæstri í iðnaði, fjárfesta í grænni orku og byggja sjálfbærari borgarsamfélög, ekki ósvipað Íslandi. Anna Hult og Ståle Holgersen hafa skrifað um skekkjuna í útblástursmælingum, og Hult hefur rannsakað fyrirbærið í um áratug og safnað betri gögnum en til eru um Ísland eins og staðan er í dag.
Þetta graf tekur saman heildarmagn gróðurhúsalosun Svíþjóðar og varpar ljósi á misræmið sem er til staðar eftir því hvernig er mælt. Áætluð erlend losun er mun meiri en innlend losun, en grafið tekur með í reikninginn losun þegar Svíar eru sjálfir erlendis ásamt kolefnisspori neyslu þeirra, óháð uppruna. Árið 2019 var framleiðslumiðuð losun 53.000 milljón, en um 89.000 milljón tonn ef neysla var tekin með í reikninginn. Ef við deilum þessari tölu með fjölda íbúa í Svíþjóð, 10.267.000 manns, eru þetta u.þ.b. 5.1 tonn ef miðað er einungis við landlæga losun, en talan hækkar upp í heil 8.6 tonn ef neysla er tekin með í reikninginn.
Það dregur því upp skakka mynd af vandanum að miða einungis við landlæga losun, og firrir Svía ábyrgð (það sama gildir um Ísland og fleiri lönd). Það gefur í skyn að áframhaldandi neysla sé góð og í lagi, að neyslan sé ekki vandamálið, við þurfum bara að skipta bensínbílnum út fyrir rafmagn. Þá erum við góð! Á þennan hátt er litið framhjá því að bíllinn sjálfur, ásamt allri annarri neyslu, sé nær rót vandans. Þessi óheiðarlega framsetning, meðvituð eða ekki, fellur undir rökvillu sem hefur verið nefnd rýmisbundin þröngsýni (e. spatial myopia).
Mörg lönd hafa dregið úr mengandi iðnaði innan sinna landamæra en eru samt háð framleiðslu í öðrum löndum. Það er óheiðarlegt að benda á önnur lönd sem menga meira en Ísland þegar það erum við sem njótum góðs af losuninni í þeim löndum, ekki íbúarnir sjálfir. Þessi mengun einfaldlega færðist um set, frá Vesturlöndum til annarra og oft efnaminni landa. Kína losar mest allra landa í heiminum þegar kemur að heildarlosun, og að sjálfsögðu er mikil þörf á breytingu innan þess lands. Hins vegar fer stór hluti þessarar framleiðslu til neyslu Vesturlandabúa og Íslendinga og við erum samsek þessari losun - meir en við viljum viðurkenna. Og þá eru ómeðtalin hráefni, landsvæði, lífríki og auðlindir frá þessum löndum sem nýtast okkur, en ekki íbúum þess.
Hult og Holgersen vilja meina að þessi rýmisbundna þröngsýni sé dæmi um valkvæða þröngsýni (e. selective view) í þeim tilfellum þar sem stjórnmálafólk og stofnanir markaðssetja líferni Norðurlanda sem sjálfbæran og grænan möguleika fyrir sig og aðrar þjóðir. Svo lengi sem Norðurlönd neyta meira en gengur og gerist á heimsvísu geta þau seint talist sjálfbær. Þessi framtíðarsýn lofar lífi þar sem við þurfum ekki að fórna neysluháttum okkar til þess að vera álitin „græn“ í augum okkar sjálfra og annarra.
Við verðum að muna að við Íslendingar neytum meir en er sjálfbært. Rýmisbundin þröngsýni er því mikilvægt tól til að skilja stefnumál og hvort þau breyti nokkru í baráttunni við loftslagsvána. Orkuskipti núverandi ríkisstjórnar eru nauðsynleg, og sannarlega skref í rétta átt. En þau eru ekki nema einn þráður í stærri og flóknari vef, og Ísland getur gert enn betur með breyttu og umfangsminna neyslumynstri. Ég get ekki lofað því að þessar breytingar verði þægilegar, auðveldar eða krefjist lítillar vinnu. En við höfum ekki efni á öðru, losunargeta okkar og auðlindir eru takmarkaðar. Við verðum að læra og vera meðvituð um stöðu okkar, skyldu okkar gagnvart mannfólkinu öllu og lífríkinu sem við erum hluti af og er órjúfanlegur hluti af okkur.