Að takast á við réttindabrot í starfi: Álit sérfræðings á atvinnuleyfum stúdenta utan ESB

Þýðing: Lísa Margrét Gunnarsdóttir

Í samtali við sérfræðing í málefnum innflytjenda (sem bað um að nafnleyndar yrði gætt) við Háskóla Íslands, komu upp nokkrar áhugaverðar staðreyndir um íslensk stéttarfélög og hlutverk þeirra í samfélagsumræðunni um réttindi á vinnumarkaði. Sem ákveðinn byrjunarpunktur, er ágætt að hafa í huga að Ísland er efst á lista Evrópulanda hvað varðar þátttöku í stéttarfélögum, og mögulega efst á lista í heimi! 

Aðalmarkmið þessa samtals var að gera grein fyrir því hvort vandamál stúdenta utan ESB hvað varðar atvinnuleyfi væri til staðar, eða hvort vandinn væri tímabundin afleiðing vegna fjölda alþjóðanema í ár og lengri biðtími stafaði vegna þess. Þrátt fyrir að fjöldi alþjóðanema fari vaxandi með hverju árinu á Íslandi, kjósa fæstir þeirra að halda kyrru fyrir að útskrift lokinni, samkvæmt fyrrnefndum sérfræðingi. Ein ástæða fyrir því gæti verið harkaleg veðrátta hér á landi, en það er varla eina ástæðan.

Það er einn þáttur málsins sem ég vil leggja sérstaka áherslu á, en það er meingallaða ferlið sem fylgir því að öðlast atvinnuleyfi sem nemi utan ESB. Ég útskýrði þennan vanda fyrir prófessor við Háskóla Íslands og spurði út í aðstæður alþjóðanema utan ESB í námskeiðum viðkomandi. Prófessorinn hafði þetta að segja: 

„Í mínum kennslustundum er talsverður fjöldi fólks sem er ekki frá Evrópu, og þau eru öll í atvinnuleit. Sum neyðast til að vinna (sem gefur til kynna vinnu án ráðningarsamninga) af því þau komu ekki með nægilega mikið fé eða sparnaður þeirra er uppurinn. Það er vont að sjá bráðgáfað fólk þjakað af atvinnuáhyggjum sem neyðist til að tryggja sér innkomu á óheilbrigðan máta.“



Eru stéttarfélögin að grípa þig?

Verkalýðshreyfingar á Íslandi vinna hörðum höndum að því að allur verkalýður njóti sama réttar. Að baki er mikil vinna og kröftugar aðgerðir við minnsta vott af réttindabrotum eða misrétti á vinnustöðum. Þegar sérfræðingurinn í málefnum innflytjenda var spurður hvers vegna regluverk verkalýðsfélaga hvað varðar stúdenta utan ESB er svo strangt, svaraði hann:

„Stúdentar fá ekki sanngjarna meðferð. Það hafa komið upp þó nokkur atvik þar sem laun stúdenta reyndust lægri en lágmarkslaun samkvæmt lögum, eða þar sem stúdentar starfa án nokkurs ráðningarsamkomulags eða ráðningarsamnings. Yfir 20% starfsmanna í atvinnudeild sjá nú alfarið um að sinna málefnum tengdum atvinnuleyfum stúdenta - stjórnvöld vilja að menntaðir einstaklingar velji að halda kyrru fyrir á landinu.“ 



Eftir því sem ég best veit, gerast lönd varla dýrari en Ísland. Af þeirri ástæðu er nauðsyn frekar en val að tryggja sér hlutastarf sem nemi. Þá lenda stúdentar utan ESB í vandræðum, þar sem það tekur marga mánuði að fá einfalt atvinnuleyfi í gegn. Það er réttur þinn sem stúdent að vinna, en samt er það háð samþykki yfirvalda að nýta þér hann. Ég þarf ekki að líta langt til að sanna mál mitt, þar sem ég hef persónulega  verið að bíða eftir atvinnuleyfi í næstum tvo mánuði núna. Ég skrifaði undir ráðningarsamning snemma í október vegna hlutastarfs, og þegar þetta er ritað er ég enn að bíða. 

Þegar ég sóttist eftir upplýsingum um stöðu umsóknar minnar hjá Útlendingastofnun, var mér tjáð að umsókn mín væri á borði Vinnumálastofnunar, sem myndi hafa samband eftir að hafa unnið hana. Á þessu stigi færðu ný skilríki frá Útlendingastofnun, sem þarf að sækja í höfuðstöðvar hennar. Að því loknu geturðu loksins byrjað að vinna. „Það er engin leið að fylgjast með stöðu umsóknar, þú verður upplýstur eftir að vinnslu umsóknarinnar lýkur.“ Þó að ég kunni virkilega að meta markmið stéttarfélaganna um að útrýma misbeitingu vinnuafls, er þetta gríðarlega langt ferli til að leiðrétta vandamál sem mætti leysa öðruvísi. 


Að fjarlægja hindranir innan miðstýrðra kerfa

Þar sem líkur eru á að vinnuveitandi gerist sekur um réttindabrot, eru jafnframt líkur á að starfsmaður vinni umfram það sem telst löglegt. Stúdentar sem eru utan ESB vinna oft meira en þeim er löglega heimilt - hvernig stendur á því? Mín kenning er þessi: vinnuveitendur sem vita að það er erfitt fyrir stúdenta utan ESB að hefja störf strax eftir komu til landsins notfæra sér aðstæður og ráða viðkomandi á taxta sem er lægri en lágmarkslaun. Þar af leiðandi vinnur viðkomandi meira en hann ætti að gera til að fá sömu laun.

Til þess að útskýra nánar hvað ég á við með þessari kenningu, get ég tekið dæmi úr eigin lífi. Ég bjó í Noregi síðastliðið ár, og var þar með þrjá virka ráðningarsamninga hjá mismunandi vinnuveitendum. Það var mín ábyrgð og skylda að tryggja að ég ynni ekki umfram 20 tíma á viku (sem var hámarkið þar í landi). Vinnuveitandi birti vinnutíma og tímakaup í hverjum mánuði, og ég fékk útborgað samkvæmt því. Árlega, eða tilviljanakennt, kanna norsk yfirvöld bankareikninga stúdenta til að athuga hvort upphæðin sem þeir fá greitt samræmist þeim fjölda vinnutíma og taxta sem vinnuveitandi gefur upp. 

 Slíkir verkferlar gætu vel gagnast landi eins og Íslandi, þar sem árið einkennist af álagstímabilum í ferðamannaiðnaðinum, og svo rólegri tímabilum - einn vinnuveitandi getur ekki alltaf tryggt 22.5 klukkutíma af vinnu í hverri viku.  Í slíkum tilfellum gætu aðrir ráðningarsamningar gagnast. Að leyfa nemum utan ESB að vinna frá fyrsta degi, líkt og öðrum nemum er heimilt, myndi leysa helminginn af öllum þeim vanda sem skapast vegna seinagangs í vinnslu umsókna um atvinnuleyfi og réttindabrota á vinnumarkaði (og sömuleiðis myndu skatttekjur aukast ef allt væri upp á borðum).  

Hér eru síðustu athugasemdir sérfræðingsins eftir nokkuð ítarlegt samtal við blaðamannninn:

„Stéttarfélög eru mjög öflugar stofnanir í íslenska kerfinu. Árið 2006 var mikið flæði fólks frá ESB, og flest regluverk er þeim mjög í hag. Þetta getur leitt til þess fólk frá löndum utan ESB finnst það vera útilokað. Ferlið fyrir umsókn um atvinnuleyfi er ekki í takti við yfirlýsta stefnu um að halda í sérmenntað starfsfólk.“



Okkar niðurstaða var sú að breytt stefna í atvinnumálum stúdenta sem koma frá löndum utan ESB er forsenda þess að ná fram jafnræði milli stúdenta. Námsmaður frá ríki utan ESB ætti ekki að þurfa að sækja sérstaklega um atvinnuleyfi umfram dvalarleyfi, heldur ætti hann að fá sömu meðferð og stúdentar frá löndum ESB. Vonum að þetta verði leyst sem fyrst, vegna þess að fjölgun starfsfólks sem hefur umsjón með umsóknum er ekki lausnin! Það er vítahringur.