Fjölmenning: eru vestræn gildi einstök?
Þegar rætt er um aðlögun innflytjenda að nýju samfélagi er gjarnan vísað í ólík gildi sem kunna að koma í veg fyrir að friðsamleg sambúð ólíkra menningarheima geti átt sér stað. Þetta var meðal annars kenning sem bandaríski stjórnmálafræðingurinn Samuel Huntington lagði fram í bók sinni The Clash of Civilizations and the Remaking of World Order árið 1996. Huntington spáði því að menningar- og trúareinkenni mismunandi hópa yrðu helsta uppspretta átaka í heiminum eftir lok kalda stríðsins.
Vandinn við kenningu Huntingtons er að rannsóknir á gildum mismunandi samfélaga og trúarbragða benda í allt aðra átt. Í fyrsta lagi er alls ekki svo að hver menningarheimur myndi einsleita og ósveigjanlega heild. Ef við tökum vestræn samfélög og lýðræðið sem dæmi, er alls ekki svo að lýðræðið hafi alltaf verið ríkjandi gildi í okkar hluta heimsins: margar vestrænar þjóðir urðu ekki lýðræðislegar fyrr en á tuttugustu öld, og sumar þeirra voru einræðisríki hluta af öldinni. Það er heldur ekki tryggt að vestræn ríki verði lýðræðisleg að eilífu, enda hafa ýmis mannréttindasamtök lýst áhyggjum af hnignun lýðræðisins í ríkjum á borð við Ungverjaland, Austurríki og Bandaríkin.
Í öðru lagi er ólíkt pólitískt ástand í mismunandi menningarheimum ekki endilega merki um ólík gildi, en skortur á lýðræðislegum ferlum og réttindum í Miðausturlöndum er gjarnan túlkaður sem merki um slíkt. Skoðanakannanir sem hafa verið framkvæmdar í þeim löndum sýna hins vegar allt aðra mynd. Þegar íbúar Miðausturlanda eru spurðir „hversu mikilvægt er fyrir þig að búa í landi sem er stjórnað á lýðræðislegum forsendum?‟ telja til dæmis 91% Egypta og 88% Írana að það sé mikilvægt eða mjög mikilvægt samkvæmt World Values Survey (á skala frá 1 upp í 10). Sjálf vagga lýðræðisins, Bandaríkin, skorar ekki sérstaklega hátt á þessum skala (83%) í samanburði við ofangreindar þjóðir. Blaðamenn Washington Post sögðu reyndar frá því árið 2021 að samkvæmt nýlegri könnun töldu 40% Bandaríkjamanna að „valdarán af hálfu hersins væri réttlætanlegt ef spilling yrði of mikil‟ (þar á meðal yfir 50% Repúblikana).
Sömuleiðis eru íbúar Miðausturlanda mjög hlynntir borgararéttindum. 84% Írana og 81% Pakistana eru til að mynda sammála því að „í lýðræði ættu borgararéttindi að vernda frelsi borgaranna gegn kúgun ríkisins,‟ samanborið við 77% Bandaríkjamanna og aðeins 51% Taílendinga.
Vopnuð átök í Miðausturlöndum og hryðjuverkaárásir á síðustu árum geta sömuleiðis gefið þá mynd að beiting ofbeldis í pólítískum eða trúarlegum tilgangi sé talin réttlætanleg í auknum mæli í þessum heimshluta, en þar segja tölurnar aftur aðra sögu. Aðeins 1 til 2% íbúa Miðausturlanda telja hryðjuverkaárásir vera réttlætanlegar samkvæmt World Values Survey (á móti 1,6% í Bandaríkjunum og 1,9% í Rússlandi). Í Bandaríkjunum telja 78% þeirra sem aðhyllast Islam að herinn ætti „aldrei að ráðast á óbreytta borgara‟ á meðan aðeins um 40% þeirra sem aðhyllast annars konar trúarbrögð (eða engin) eru sömu skoðunar samkvæmt Gallup könnun (2010).
Hvers vegna einkennast samfélög á Miðausturlöndum gjarnan af ofbeldi, pólitískum óstöðugleika og harðstjórn, kann einhver að spyrja? Svarið er líklega fjölþætt: afleiðingar nýlendustefnu, sögulegt samhengi, skortur á öflugum lýðræðislegum stofnunum og samkeppni um dýrmætar olíuauðlindir eru þættir sem koma til greina, en allt er þetta efni í langa doktorsritgerð. Gögnin sýna hins vegar svart á hvítu að „gildin‟ hafa lítið með þessa stöðu að gera, enda eru vestræn gildi hvorki einstök né einskorðuð við vestræn ríki. Þeir harðstjórar og spilltu leiðtogar sem eru við stjórnvölinn í þessum hluta heims, gjarnan með samþykki Vesturlanda, taka einfaldlega ekki mark á þeim „gildum‟ sem borgararnir aðhyllast.
Vopnuð átök eru yfirleitt ekki merki um ólík gildi, heldur frekar dæmi um að við förum einfaldlega ekki eftir þeim gildum sem við segjum aðhyllast. Það á bæði við Vestrið sem og Miðausturlönd, og átökin í Ísrael og Palestínu hafa afhjúpað þennan tvískinnung á báða bóga. Vestræn ríki, sem hafa fordæmt harðlega innrásir og landtöku Rússa í Úkraínu og gripið til harðra refsiaðgerða þar, hafa neitað að grípa til slíkra aðgerða gegn landtöku og innrásum Ísraels í Palestínu síðustu 75 árin. Á sama tíma hafa Arabaríki haldið áfram að gera viðskiptasamninga við Ísrael eins og ekkert sé, þrátt fyrir fordæmingar í orði og þrátt fyrir tal um bræðralag meðal múslima. Eftir allt saman virðast tvö gildi trompa öll hin, sama hver á í hlut: viðskiptahagsmunir og valdsækni skulu ganga fyrir öllu öðru…