Langt að heiman: Alþjóðlegt sjónarhorn

Þýðing: Guðný N. Brekkan

Háskóli Íslands tekur árlega inn um 2000 alþjóðlega nemendur, u.þ.b 14% af innrituðum nemendum. Bakgrunnur nemenda er mismunandi eftir heimsálfum, en alþjóðlegu nemendurnir eru sameinaðir af þeirri löngun að tileinka sér líf á norðurslóðum og stunda íslenskt nám. Sem alþjóðlegur nemandi lagði ég mig fram við að fá innsýn í hvað fjölbreyttur hópur jafnaldra tók með sér að heiman og hvernig þeir halda í rætur sínar ásamt því að aðlagast íslenskri menningu.

Ana, útskriftarnemi frá Portúgal.

og hundurinn hennar, Pantufa.

„Eftir að hafa flutt að heiman er eini þátturinn sem ég gæti ekki lifað án, sem hefur hjálpað gríðarlega við andlega heilsu mína, hundurinn minn, Pantufa. Ég hef átt hann undanfarin 9 ár og án gríns, hann er það mikilvægasta sem ég tók með mér frá Portúgal fyrir 2 árum, þegar ég flutti til Íslands. Að halda sambandi við fjölskylduna mína nokkur kvöld í viku með myndsímtölum og heimsækja landið mitt einu sinni eða tvisvar á ári hefur orðið besta leiðin til að finnast ég tengd rótum mínum, svona langt að heiman.“ - Ana, útskriftarnemi frá Portúgal og hundurinn hennar, Pantufa.

Ahmad, útskriftarnemi frá Pakistan.

„Ég nota mestmegnis WhatsApp til að halda sambandi við fjölskylduna mína í Pakistan. Það er 5 klukkustunda tímamunur, þannig að ég nýti sem best þau tækifæri sem ég hef til að deila myndum af því hvert ég er að fara og hvað ég er að gera. Allir heima lifa á sínum hraða og það er ekkert rétt eða rangt þegar kemur að því að meta nærveru ástvina sinna. Ég passa mig að spyrja um áætlanir þeirra fyrir daginn eða helgina og skrifa það í dagatalið mitt eða nemendabókina. Að vita hvað þau eru að gera eða hvað þau fengu sér í kvöldmatinn fær mig til að finnast ég tengdur og hvetur mig til að meta það góða í lífinu.“ -Ahmad, útskriftarnemi frá Pakistan.

Sara, útskriftarnemi frá Íran, með dóttur sinni, Önnu.

„Ég ferðast ekki til Íran vegna þess að það er mjög langt í burtu, en til að vera tengd á meðan ég er á Íslandi nota ég skilaboðaforrit og myndsímtöl á WhatsApp til að halda sambandi við vini mína og fjölskyldu heima.“ -Sara, útskriftarnemi frá Íran.

Alexander, nemi í grunnnámi frá Danmörku.

„Ég hef samband heim með því að hringja í afa minn tvisvar í viku. Það er alltaf frábært að fá fréttir og tala móðurmálið mitt í smástund. Ég hringi oft í hann á meðan ég er að vaska upp. Ég elda oft kvöldmat í íbúðinni minni með öðrum nemendum frá heimalandi mínu, Danmörku. Við spilum reglulega eftir matinn og það verður mikil samkeppni.“ ­-Alexander, nemi í grunnnámi frá Danmörku.

Dominika, útskriftarnemi frá Póllandi.

„Þar sem margir Pólverjar búa á Íslandi er auðveldara að vera tengdur landinu mínu. Það er fullt af mögnuðum viðburðum á pólsku, svo sem tónleikar, listasýningar, dansnámskeið og matarsmökkun. Þegar ég finn fyrir heimþrá finnst mér gaman að fara í Bíó Paradís og horfa á kvikmynd á mínu tungumáli eða borða dumplings á pólskum veitingastað. Ég var alinn upp í kringum skóglendi þannig að mér finnst gaman að eyða sunnudögum í Heiðmörk eins og ég gerði heima.“ - Dominika, útskriftarnemi frá Póllandi.

Ella, útskriftarnemi frá Gana.

„Ein leið sem ég nota til að halda sambandi við Gana á Íslandi er með því að klæðast fötum frá Gana. Hefðbundinn fatnaður frá Gana eða föt með hönnun frá Gana hjálpa mér að viðhalda tengingunni við heimalandið mitt og minnir mig á rætur mínar og menningu á meðan ég kanna annað land.“ ­- Ella, útskriftarnemi frá Gana.

Andy, nemi í grunnnámi frá Ítalíu.

„Nú þegar ég er á Íslandi held ég sambandi við heimilið mitt og fólkið sem mér þykir vænt um í gegnum Telegram-rás þar sem ég birti allar mínar upplifanir með myndum, myndböndum, skilaboðum og raddskilaboðum. Ég hringi líka og sendi skilaboð til þeirra sem standa mér nærri. Margir vina minna frá Ítalíu hafa verið að koma í heimsókn og eyða tíma með mér líka.“ - Andy, nemi í grunnnámi frá Ítalíu.