Fjöldi alþjóðanema tvöfaldast á tólf árum
Tvöfalt fleiri alþjóðanemar
1. Háskólanemar með erlent ríkisfang við HÍ voru um það bil 1.021 árið 2011 en voru orðnir 2.019 í janúar 2023. Íslenskum nemum hefur hins vegar fækkað um 10% á sama tímabili og því eru alþjóðanemar orðnir töluvert stærra hlutfall af heildarfjölda nemenda.
Alþjóðanemar 14% af heildinni og mikill kynjahalli meðal íslenskra stúdenta
2. Erlendir nemendur voru aðeins 6% af heildinni árið 2012 en eru nú orðnir 14%. Í haust fækkaði þeim reyndar lítillega, úr 2.019 í janúar niður í 1.897 í nóvember. Aðeins um fjórðungur alþjóðanema eru skiptinemar (450 skiptinemar árið 2022) og 64% þeirra eru konur en 36% karlar, á meðan nærri 70% íslenskra nema eru konur en aðeins 30% karlar (0,1% eru kynsegin).
Alþjóðanemar sérstaklega áberandi í framhaldsnámi
3. Alþjóðanemar eru sérstaklega stór hluti framhaldsnema (27,5%) og þá sérstaklega doktorsnema (40%). Hlutfall þeirra er hins vegar aðeins 12,5% meðal nema í grunnnámi.
Nær helmingur alþjóðanema frá Vestur-Evrópu
Yfir helmingur alþjóðanema kemur frá Evrópu og þá flestir frá þjóðum í Vestur-Evrópu (43%). Hins vegar koma aðeins um 5% þeirra frá Afríku, en fjölmennasti hópur meðal þeirra sem koma frá Afríku eru Ganabúar (37 nemar). Helstu upprunalönd þegar á heildina er litið eru Bandaríkin (211 nemar), Þýskaland (177 nemar) og Filippseyjar (133 nemar). Næst á eftir á listanum eru fyrst og fremst Evrópuþjóðir en einnig eru 67 nemar frá Kína.
Hlutfall innflytjenda á Íslandi orðið 18,4% ‒ meirihlutinn frá Austur-Evrópu
Ef tölurnar um erlenda nema við HÍ eru bornar saman við fjölda og uppruna innflytjenda á landsvísu blasir við aðeins önnur mynd. Erlendir ríkisborgarar voru í október 2023 orðnir 18,4% af landsmönnum, en af þessum um það bil 65.000 erlendum borgurum á yfir helmingur uppruna sinn í Austur-Evrópu. Fjölmennastir eru Pólverjar (23.352), Litháar (5.218) og Rúmenar (3.667). Utan Evrópu eru íbúar frá Venesúela (1.261) og Filippseyjum (1.232) fjölmennastir.
Litháar 100 sinnum líklegri en Bretar til að flytja til Íslands
Ef skoðaður er fjöldi innflytjenda frá hverju landi í hlutfalli við íbúafjöldann í heimalandinu fæst góð mynd af því hverjir eru líklegastir til að flytja til Íslands. Þannig sést að íbúar frá nokkrum löndum Austur-Evrópu eru um og yfir 1000 sinnum líklegri til að flytja til Íslands en aðrir. Fyrir hverja milljón íbúa í Litháen búa til að mynda 1.863 á Íslandi á meðan aðeins 18 af hverri milljón Breta og 3 af hverri milljón íbúa Bandaríkjanna eru búsettir á Íslandi. Kínverjar eru sömuleiðis frekar ólíklegir til að búa á Íslandi (0,3 af hverri milljón), ásamt íbúum hinna ýmsu Afríkulanda (0 til 10 af hverri milljón).