​​Þrír dagar með kindum

Þýðing: Guðný N. Brekkan

„Ég hélt að þetta væri málverk, eða eitthvað!“

Vinir mínir voru sammála þegar ég sýndi þeim mynd sem ég tók í sveitinni, í nokkurra klukkustunda keyrslu frá Reykjavík: viðargluggi sker út bita af víðáttumiklu landslaginu. Út um hann sést að morgunbjarminn er að líða undir lok og fölblár himininn er litaður dreifðum,  gulbleikum skýjum, eins og máluð með þurrum pensli. Í forgrunni er grænt beitiland með vík sem breiðir úr sér í bakgrunninum. Þetta er án efa fallegt en það er eitthvað ómissandi sem vantar. Á túninu ættu að vera litlir dúnhnoðrar - kindur. Ég var þarna til að klára gulbleikum „málverkið,“ þ.e. að smala fé.

Mér var leyft að taka þátt fyrir tilviljun. En satt að segja, þá hafði ég aldrei snert kind fyrr en þá, hvað þá smalað þeim. Engu að síður skildi ég það fullkomlega að kindur þýða svo miklu meira fyrir íslenska bændur en mig grunaði. Sem íslenskunemi vissi ég að orðið “fé” hefur tvær merkingar: „sauðfé“ og „fjármagn“. Í gegn um aldirnar hefur fólk lifað með kindum, verndað þær og erft hefðirnar í kringum þær, svo kindur og peningar urðu samheita.

 

Daginn fyrir réttirnar höfðu tugir manna, þar á meðal börn, komið og undirbúið sig fyrir þennan mikilvæga viðburð, flestir heimamenn eða aðrir með reynslu. Ég var svo þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessari hefð og ég reyndi eins og ég gat að gera það vel. Markmið okkar var að klífa fjallið og reka kindurnar niður. Með mikla vinnu framundan, fór ég og synti meðfram ströndinni til að draga úr spennunni. Nóttin var að skella á og handan flóans sá ég varla fjörðinn sem var hálf umvafinn skýi sem líktist nýklipptri ull. Allt hljóð hvarf inn í náttúruna. Þegar ég leit til baka gnæfðu kyrrlát svört fjöllin, sem við klifum daginn eftir, eins og þau væru að stara niður á mig.

 

Eins og þungbær himinn dagsins á undan gaf til kynna versnaði veðrið þegar við fórum á fjöll til að smala. Á meðan við klifruðum upp grýttar og hálar brekkur, skiptum við okkur í hópa til að smala kindunum. Ég sá varla fólkið né kindurnar, en æpandi vindurinn bar veikar raddir þeirra úr fjarska. Ef ske kynni að hjarðir kæmu nálægt mér, beið ég þolinmóð og skerpti skilningarvitin. Fljótlega fór rigningin að hrynja af útifatnaðinum mínum - sem ber einkunnarorðið „vatnshelt“ - og andlit mitt varð dofið.

 

Loks sá ég hjörð í fjarska, á stærð við korn, vera rekin niður. Þau virtust vera að hlaupa í áttina að mér, en ég sá ekki hversu langt í burtu þau voru vegna þess að brekkur hindruðu útsýni mitt. Svo á því augnabliki sem ég missti einbeitinguna birtist hjörðin nálægt mér. Fimm eða sex kindur hlupu samsíða brekkunni í röð. Forystukindin hefði komið til mín, en hún breytti óvænt um stefnu og hljóp upp brekkuna. Ég hljóp af stað í skelfingu. En hvernig gæti ég, skjálfandi af kulda í gegnblautum fötum, náð fjórfættum fjallakindum sem voru með fullkomna vörn gegn kulda? Því meira sem ég elti, því fljótari var hún að sleppa. Á endanum hvarf kindin upp til fjalla á svipstundu meðan ég andaði þungt og horfði á hjörðina þangað til hún varð aftur á stærð við korn.

Í stuttu máli, mér mistókst.

Smölun á hjörðinni sem hljóp framhjá mér var frestað til næsta dags. Mér fannst þetta hræðilegt, en fólkið klappaði mér hughreystandi á bakið og bauð mér heimalagaða máltíð.

 

Notaleg borðstofan var full af góðu spjalli. Sjóðheit kjötsúpa og grillað kindakjöt beint úr ofninum náðu smám saman að þíða mig. Ég hélt á heitri skálinni og ímyndaði mér fólkið sem hafði búið hér áður. Söfnuðust þau saman, hlóu og kunnu að meta hvort annað eins og við, eftir svona vinnu? Horfðu þau á skarlatrautt sólarlag eftir langan dag og erfiða vinnu? Þau gætu hafa setið við eldinn og hugsað um hvernig þau ættu að keyra skutluna fyrir vefstólinn sinn… Hver einasta stund dvalarinnar fannst mér ég vera ein með nátturunni, dýrunum, fókinu, fortíðinni og sjálfri mér. Þetta var dýrmæt reynsla til að rýna í sjálfa mig og gleyma kvíðanum og eirðarleysinu á meðan ég dvaldi á stað þar sem tíminn líður hægt og rólega.


Þegar allri vinnu var lokið og ég bjó mig undir að fara aftur suður með tregðu, sá ég börn að teikna. Þykkir tússar, haldið af litlum höndum, runnu yfir auða hlið blaðsins og teiknuðu skýlaga hringi með bogadregnum línum í miðjunni. Það fékk mig til að brosa - hversu einföld og falleg leið til að teikna kindur. Fljótlega fylltist blaðið af kindahjörðum. Bogadregnu línurnar, sem voru einfaldlega höfuð og horn kindanna líktust M þar sem saumurinn hafði losnað, eða réttara sagt japanska hiraganaひ (hi). Aldrei datt mér í hug að rekast á samstöfum móðurmáls míns, og ég varð svolítið rugluð vegna fjölda þýðinga á hi sem skutust upp í hausnum á mér: dagur (hi, 日), eldur (hi, 火), skutla (hi, 杼), or skarlatrauður (hi, 緋)... Vissulega var allt þetta hér á þessum stað, í lífinu sem snýst um kindur.

Fyrir utan gluggann, fyrir aftan hangikjötið, teygir sig ennþá fagurt útsýni. En að þessu sinni var bætt við hvítum blettum á „málverkið“. Þegar árstíðirnar líða og blettirnir hverfa úr rammanum aftur, mun ég koma og mála blettina þar, aftur og aftur.


 


Annars eðlisMashiho Kaneko