RIFF 2023: Á bak við tjöldin

Viðtal við Ragnar Jón Hrólfsson, samskiptastjóra, og Sunnu Axels, framleiðanda.

Þýðing: Lísa Margrét Gunnarsdóttir

RIFF - alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, hefur um árabil verið einn af hápunktum menningarlegra viðburða á Íslandi.Í ár er hátíðin enn stærri í sniðum til að fagna því að hún er nú haldin í tuttugasta sinn. Áður en RIFF gekk í garð þann 28. september varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að setjast niður með Ragnari Jóni Hrólfssyni, samskiptastjóra hátíðarinnar, og Sunnu Axels, framleiðanda hátíðarinnar, til þess að renna yfir hvað væri á seyði á bak við tjöldin í aðdraganda hátíðarinnar. 


Sunna Axels, framleiðandi og Ragnar Jón Hrólfsson, samskiptastjóri.

Nýsköpun og inngilding í forgrunni

RIFF varð til sem lokaverkefni Hrannar Marinósdóttur, sem enn þann dag í dag er stjórnandi hátíðarinnar. RIFF var fyrst haldin árið 2004, og síðan þá hefur hún þróast og skipað sér sess sem alþjóðlega viðurkenndur viðburður. Það sem er einna áhugaverðast við RIFF er stöðugi straumurinn af nýju fólki sem kemur að skipulagningu hátíðarinnar. Til gamans má geta að Hugleikur Dagsson er listamaður afmælishátíðarinnar í ár og hannaði þar til gerðan lunda fyrir hvern undirflokk kvikmynda á dagskrá.

Eins og Ragnar Jón Hrólfsson tekur fram eru breytingar og þróun ávallt í brennidepli. Það á svo sannarlega við um hátíðina í ár, þar sem bæði Ragnar og Sunna eru að taka þátt í skipulagningu hátíðarinnar í fyrsta sinn. Skipuleggjendur leggja áherslu á inngildingu og þátttöku framleiðenda og kvikmyndagerðarfólks víðsvegar úr heiminum. Áhersla hátíðarinnar er sem fyrr að standa þétt við bakið á ungu og upprennandi kvikmyndagerðarfólki, sérstaklega þeirra sem eru að vinna að sínum fyrstu verkum. 

„Þetta er grasrótarfögnuður kvikmyndaheimsins í öllu sínu veldi,“ bætir Ragnar Jón við. 


Kynning á íslenskum kvikmyndum

Eitt af því merkasta sem RIFF hefur stuðlað að er kynning íslenskra kvikmynda á heimsvísu. Ragnar og Sunna lýsa mikilvægi Smart 7 samstarfsins, verkefni sjö alþjóðlegra kvikmyndahátíða. Smart 7 stendur líka fyrir keppni þar sem RIFF velur fulltrúa til að skipa sæti í dómnefnd einnar af hinum sex hátíðunum (í ár situr fulltrúi RIFF í dómnefnd í Grikklandi), sem vekur athygli á framúrskarandi myndum frá aðildarlöndunum sjö. Þetta framtak stuðlar að því að RIFF gegnir hlutverki stökkpalls fyrir íslenskar kvikmyndir á alþjóðavísu, og sá stökkpallur snýst ekki eingönguum að sýna myndir. 

„Að einfaldlega tala saman og tengjast öðru fólki… þar liggja töfrarnir,“ segir Sunna.

Fæðing næstu kvikmyndakynslóðar

„RIFF snýst ekki bara um kvikmyndir; hún snýst um að næra ástríðuna fyrir kvikmyndum í þágu yngri kynslóðarinnar.“ Með þessari staðhæfingu kynnir Sunna UngRIFF, sem hefur þróast úr undirflokki yfir í sérviðburð í fyrsta sinn í sögu hátíðarinnar. UngRIFF býður krakka velkomna, stendur fyrir sýningum í skólum og á landsbyggðinni og hvetur unga kvikmyndaáhugamenn áfram með öflugu ungmennaráði innan RIFF samtakanna. 

„Þetta snýst allt um að móta næstu kynslóð af kvikmyndaunnendum og kvikmyndagerðarmönnum,“ segir Ragnar.

Mitt á milli íss og hrauns

Í gegnum árin hefur hátíðin boðið upp á einstakar upplifanir, eins og sýningar í íshelli, hraunhelli og sundbíó. Sunna afhjúpar leyndarmálið á bak við tilurð þessara hugmynda - að einfaldlega tala við fólk og tengjast því. Í ár bætist við sjónræn matræn veisla með sýningu Ratatouille. 

Sem hluti af franskri áherslu hátíðarinnar í ár, bauð RIFF fjölbreyttum heiðursgestum á borð við leikkonuna Isabelle Huppert og ítalska leikstjórann Luca Guadagnino. Þar að auki var önnur nýjung kynnt til leiks, sérstakur bar tengdur hátíðinni. Svo má ekki gleyma því að Háskólabíó, kvikmyndahús sem lokaði fyrir skömmu, fékk tækifæri til að endurheimta stöðu sína sem miðstöð kvikmynda. Og eins og Ragnar leggur áherslu á, mun UngRIFF halda áfram að hasla sér völl hvað varðar dagskrá hátíðarinnar. Framtíð RIFF er vægast sagt björt.

Sjáumst á enn einni eftirminnilegri hátíð RIFF árið 2024!

MenningFrancesca Stoppani